Alheimurinn

Geimfar í nauðum

Tæplega 33.000 km frá jörðu heyrast skyndilega brak og brestir í Apollo 13. Sprengingin er upphafið að baráttu upp á líf og dauða um borð í geimfarinu sem glatar skjótt bæði súrefni og rafmagni. Hverfandi líkur eru á að geimfararnir þrír nái lifandi heim til jarðar.

BIRT: 04/11/2014

Jim Lowell flugstjóri er víðförlasti maður heims. Í þrem geimferðum sínum hefur þessi 42 ára geimfari lagt að baki um 11 milljón km og verið samanlagt 572 tíma í geimnum. Þetta vorkvöld árið 1970 er hann á leiðinni í sína fjórðu og – eftir all nokkra umhugsun – sína síðustu ferð sem mun ljúka ferli hans sem geimfara: þriðju lendingu í sögunni á tunglinu.

 

Fyrir leiðangurinn hafa blaðamenn í sífellu spurt hann hvað honum finnist um að Apollo-leiðangurinn beri töluna 13. Lowell hefur bara brosað við þeim og svarað því til að ítalskir vinir hans líti á 13 sem happatölu. En innst inni hefur hann þó velt því fyrir sér hver örlög ferðarinnar verða. Lowell er ekki hjátrúarfullur en viðurkennir að eigi óhapp sér stað þá bendi líkur til að einmitt hann, reyndasti geimfari NASA, verði fyrir barðinu. Starf geimfara er lífshættulegt og eftir hvern vel heppnaðan leiðangur virðist sem hættan á óhappi aukist stöðugt.

 

Þann 13. apríl er Lowell algjörlega grunlaus um þær hremmingar sem eru í vændum. Því eins og tilkynnt er í stjórnstöðinni í Houston: „Geimfarið er í fínu standi að okkar mati. Okkur leiðist hérna niðri.“ Geimskotið hefur einnig gengið að óskum og hérna, með jörðina í tæplega 330.000 km fjarlægð og einhverjum 56 stundum síðar, hafa Jim Lowell, Jack Swigert og Fred Haise einmitt verið í sjónvarpsútsendingu þar sem þeir hafa glaðhlakkalega leiðsagt áhorfendum um í m.a. tunglferjunni Aquarius, aftasta hluta af þremur einingum geimskipsins.

 

Í stjórnfarinu Odyssey heldur Lowell áfram í hlutverki sínu sem uppistandari. „Við getum sýnt ykkur smá skot af skemmtuninni hér um borð,“ segir hann og kveikir á segulbandi. Frá tækinu berast hljómar á upphafslagi í vísindaskáldsagnamynd Stanley Kubrics frá 1968: 2001 – Space Odyssey.

 

„Að sjálfsögðu væri lagasafn okkar ekki fullkomið án Aquarius (vinsælt lag úr söngleiknum Hárinu, ritstj.)“ bætir hann við áður en hann lýkur útsendingunni með því að óska öllum á jörðu niðri góðrar nætur.

 

Fimm mínútum síðar kveikir stjórnfarsflugstjórinn, Jack Swigert, samkvæmt fyrirskipun Houstons á mótor sem er ætlað að hræra í tanki þjónustueiningarinnar sem er fullur af fljótandi súrefni og vetni, eldsneyti fyrir eldflaugar farartækjanna þriggja. Skömmu síðar heyrist kæfð sprenging og gjörvallt geimfarið hristist.

 

„Fred, veist þú hvaða hljóð þetta var?“ spyr Lowell og horfir ávítandi á félaga sinn. Áður hafði Fred Haise hrætt líftóruna úr félögum sínum þegar hann opnaði þrýstiventil með miklum látum og Lowell grunar hann um að hafa endurtekið hrekkinn. En Haise horfir bara grafalvarlegur á Lowell og hristir höfuðið.

 

Súrefnið streymir út úr geimfarinu

 

Á sömu stundu kviknar á viðvörunarljósi í fjarskiptatækjum geimfaranna. Swigert kannar órólegur mælinn og sér að rautt viðvörunarljós lýsir. Þrýstingur í öðrum súrefnistankinum fellur og straumur minnkar til stjórnfarsins. „Okay, Houston, we’ve had a problem,“ tilkynnir hann í talstöðina. „Endurtakið vinsamlega,“ hljóðar svarið frá Houston.

 

„Houston, við eigum í vanda. Straumurinn fellur á B,“ brýnir Lowell. „Roger, minni straumur á B,“ svarar stjórnstöðin í Houston og bætir við skömmu síðar: „Okay, bíðið í smá stund, 13, við könnum málin.“ Meðan tæknimenn í Houston vinna við að finna orsökina berjast geimfararnir við að öðlast yfirsýn yfir umfang skaðans.

 

Eitthvað hefur farið algerlega úrskeiðis, það er ljóst – annar af súrefnistönkunum er tómur en hinn lekur og tvær af brunasellum eru dauðar vegna súrefnisskorts. Öll tæki í geimfarinu keyra á straumi frá brunasellum í þjónustueiningunni og öryggisreglurnar leyfa aðeins lendingu á tunglinu ef allar sellur virka.

 

Fyrstu viðbrögð geimfaranna eru vonbrigði. En brátt verður þeim ljóst að þeir mega þakka sínum sæla nái þeir yfirhöfuð aftur heim til jarðar. Með hverri mínútu sem líður versnar ástandið og aldrei hefur áhöfnin séð svo margar bilanir í senn: Stýriflaugar á þjónustueiningunni virka heldur ekki og eina virka brunasellan tapar spennu.

 

Jafnvel í verstu tilvikum sem geimfararnir hafa reynt við þjálfunina hafa aðstæður aldrei verið jafn skelfilegar og nú. Og óhugnanlegast af öllu er að nú eru þeir ekki staddir í flughermi, heldur um borð í geimfari sem þeytist í átt til tunglsins. Eftir sprenginguna er Apollo farið að sveiflast til og samtímis því að Lowell reynir örvæntingarfullur að ná farinu stöðugu horfir hann í stutta stund út um lítinn glugga.

 

Hann uppgötvar að gas fossar út úr hliðinni á þjónustueiningunni í miklu skýi sem dansar eins og sígarettureykur í skörpu sólarljósinu. „Það virðist sem eitthvað streymi út. Það streymir eitthvað út í geiminn,“ tilkynnir hann stjórnstöð.

 

Lowell og félagar hans þora ekki að geta sér til um hvað hafi gerst. Og eiginlega stendur þeim líka á sama. Það eina sem á hug þeirra allan er sú staðreynd að þjónustueiningin er gjöreyðilögð og að það er aðeins tímaspursmál hvenær Odyssey verður bæði án rafmagns og súrefnis.

 

Geimfararnir geta ekki tekið U-beygju og snúið aftur til jarðar. Þrátt fyrir að mótorar í þjónustueiningunni gætu verið óskaddaðir er ekki nægjanlegt rafmagn fyrir slíka aðgerð. Apollo13. er tilneyddur að halda förinni áfram til tunglsins – eða öllu heldur í sveig á bak við það og aftur til jarðar. Spurningin er hvort geimfararnir geti yfirhöfuð lifað af í svo langan tíma. Hálfum öðrum tíma eftir sprenginguna kemur neyðaráætlun frá NASA: „Við teljum að tunglferjan geti verið björgunarbátur ykkar,“ tilkynnir maður frá Houston.

 

Í kapphlaupi við tímann hefjast geimfararnir handa við að kveikja á kerfum í tunglferjunni Aquarius, ferli sem tekur vanalega 2 klst., en þarf nú að framkvæma á fáeinum mínútum.

 

Jafnframt þessu flytur áhöfnin nauðsynlegan búnað inn í Aquarius og skömmu fyrir miðnætti mánudaginn 13. apríl, tæpum þrem tímum eftir sprenginguna, hrópar Lowell í gegnum göngin til Swigerts: „Lokaðu henni.“ Swigert slekkur á Odyssey. Þann litla straum sem enn er þar að finna þarf að spara fyrir lendinguna. Nú verða geimfararnir að hírast saman í hinum þrönga stjórnklefa Aquarius, eina starfhæfa hluta Apollo 13.

 

Geimfararnir öðlast smá von

 

NASA hefur misst þrjá góða menn. Þannig hugsa margir vinnufélagar þeirra sem hafa safnast saman í stjórnstöðinni í Houston. En enginn þeirra orðar svo hörmulegar hugmyndir.

 

Þess í stað liggja stöðvarmenn yfir bókum, pappírum og tölvum til að reikna út þá braut sem getur leitt Apollo13. heim. Þeir komast að því að með áhættusömum stefnubreytingum geta geimfararnir komist á braut sem nýtir þyngdarsvið tunglsins til að slöngva geimfarinu aftur heim til jarðar.

 

Til þess að komast á rétta braut – og einnig út úr henni á ný – þarf Apollo13. að leiðrétta stefnuna mörgum sinnum og það er gert með því að ræsa lendingarmótor tunglferjunnar. Fyrsta leiðréttingin á að eiga sér stað klukkan 02.40 á þriðjudagsmorgni og sú næsta 20.40 sama dag samkvæmt skilaboðum til geimfaranna frá stjórnstöð.

 

Houston lætur vera að lýsa öðrum valkostum: Gangi þetta ekki mun geimskipið þeytast framhjá jörðu í mörg þúsund kílómetra fjarlægð og vera dæmt til að hringa að eilífu úti í geimnum. Lowell, Haise og Swigert þora vart að draga andann þegar stefnan er leiðrétt í fyrsta sinn. Þegar þeir heyra eldflaugamótorinn rymja og tölvuna 21 sekúndu síðar slökkva á honum, vaknar með þeim í fyrsta sinn eftir sprenginguna smá vonarneisti. Apollo13. er kominn á rétta braut og hið versta virðist nú yfirstaðið.

 

Klukkan hálf sjö sama kvöld sveiflast Apollo13. aftur fyrir tunglið og geimfararnir verða um stundarsakir áminntir um annað en eigin lífsháska. Með andlitin límd við gluggana gægjast þeir niður á gígum fyllt og sólbaðað landslag sem líður hjá 250 km neðar. Hugfangnir taka Swigert og Haise ótal myndir.
„Ef við getum ekki ræst vélina, náið þið aldrei að framkalla myndirnar,“ segir Lowell við vini sína. „Slappaðu af, þú hefur verið hér áður en við ekki,“ skýtur Haise inn. Lowell sér eftir léttúðugum ummælunum og tekur til við að benda á þá staði sem hann hafði séð áður, árið 1968 þegar hann fór í fyrstu mönnuðu geimferðina umhverfis mánann í Apollo 8.

 

Meðan geimfarið leggur tunglið að baki undirbúa mennirnir sig aftur undir að ræsa eldflaugamótora Aquarius, að hluta til að leiðrétta stefnuna, en eins til að auka hraðann. Samkvæmt útreikningum stjórnstöðvar getur heimferðin þannig verið stytt úr fjórum dögum í tvo og hálfan sem er mikill ávinningur þegar minnstu frávik geta skilið milli lífs og dauða.

 

Klukkan 20 mínútur í 9 þetta kvöld þrýstir Lowell á ræsihnappinn og tilkynnir í talstöðina þessu næst: „We’re burning.“ Geimfararnir kætast lítillega enda virðist nú allt ganga að óskum. Í stað þess að fjarlægjast jörðina nálgast Apollo 13. hana með hverri sekúndu sem líður.

 

Mitt í þessum fögnuði fær Fred Haise nagandi tilfinningu um að hafa yfirsést eitthvað. Sem tunglferjustjóri þekkir hann Aquarius eins og lófann á sér og getur bunað út úr sér nöfnum á öllum hlutum farartækisins og veit nákvæmlega hve mikið súrefni, vatn og rafmagn hver þeirra þarf.

 

Í ljósi þeirrar þekkingar hefur hann reiknað út að þremenningarnir hafi nægjanlegt súrefni fyrir 8 – 10 daga ferðalag sem er yfrið nóg fyrir heimferðina.
Straumurinn ætti einnig að duga – fullhlaðnar nægja rafhlöður Aquarius fyrir tvo sólarhringa, en með því að slökkva á öllum tækjum sem ekki er brýn nauðsyn á, má minnka notkunina svo mikið að halda megi Aquarius gangandi í 4 – 5 sólarhringa.

 

Nauðsynlegt er að hafa vakandi auga með vatnsbirgðum og Haise áminnir sig um að vatnið beri að skammta. En nú rennur það skyndilega upp fyrir Haise að andrúmsloftið í stjórnklefanum gæti reynst versti óvinurinn. Þær kemísku síur sem er ætlað að hreinsa koltvísýring úr loftinu duga einungis fyrir tvo menn í tvö dægur – þann tíma sem tveir geimfarar ætluðu að vera á tunglinu – en ekki fyrir þrjá menn í mun lengri tíma.

 

Ef ekki yrði ráðin bót á þessu myndu geimfararnir kafna smám saman í eigin útöndunarlofti og þrátt fyrir að nóg sé af síum í þjónustueiningunni passa þær ekki í hringlaga hólfin í Aquarius.

 

Geimfarar smíða síu-tengi

 

Haise til léttis hafa verkfræðingarnir við stjórnstöðina þegar séð fyrir vandann og fundið lausn. Árla miðvikudags berst tilkynning frá stjórnstöð um að geimfararnir eigi að safna saman lausamunum af margvíslegu tagi.

 

Verkefni þeirra felst í að setja saman ferkantað box sem hæfir loftsíunum úr Odyssey. Eins konar millistykki. „Það er líkt og að setja saman flugvélamódel, sem endar eins og póstkassi,” segir Joe Kerwin, einn starfsmanna stjórnstöðvar á jörðu niðri. Þegar geimfararnir hafa tínt til munina tekur Kerwin til við að rekja framvindu mála. Myndsending er rofin til að spara straum og því fara samskipti fram í gegnum talstöðvar. Kerwin þarf að taka á allri sinni samskiptahæfni til að gera verkáætlunina skiljanlega. „Nú viljum við að þið skerið tvær ca. 90 sm ræmur, ríflega armslengd, af límbandi, og eins að þið útbúið tvær reimar til að binda utan um kassana,” hljóða útskýringar Kerwins.

 

Eftir um klukkustundar vinnu hefur Lowell og Sweigert tekist að byggja tvo „póstkassa“ og þegar Haise skömmu síðar tengir annan þeirra við loftræstikerfið fellur koltvísýringsmagnið brátt í eðlilegt horf. Ósjálfrátt brosir hann: hér er hann umkringdur smíðisgrip sem er milljóna dala virði. En þegar kemur að því að bjarga lífum er pappaumslag úr handbók, tveir plastpokar, límbandsrúlla og eitt sokkapar svo óendanlega verðmætari.

 

Heimurinn fylgist með örlögum Apollos

 

Í Houston eru menn önnum kafnir á vöktum við að tryggja heimkomu geimfaranna. Sérfræðingar eru kallaðir til hvaðanæva að og unnið er sleitulaust allan sólarhringinn. Ekki aðeins í NASA heldur um heim allan beinast augu manna að hremmingum geimfaranna þriggja.

 

Frá Tókýó til Toronto, frá Bangkok til Berlínar birtast áhyggjufullar fyrirsagnir í tímaritum og bæði útvarps- og sjónvarpssendingar eru reglulega rofnar til að segja nýjustu fréttir. Fyrir framan tugþúsundir manna í Róm biður Páll páfi 6. þess að geimfararnir komist heilir heim og við trúarhátíð í Indlandi safnast hundrað þúsundir pílagríma saman í bæn fyrir nauðstöddu bandarísku geimförunum.

 

Apollo 13. er ekki orðinn að neðanmálsgrein í sögunni, rétt eins og Lowell flugstjóri hafði ímyndað sér fyrir ferðina, heldur að stórkostlegri mannraun sem hefur fangað hug jarðarbúa. En þrátt fyrir stöðugan straum af nýjum fréttum hefur enginn hugmyndaflug til að ímynda sér raunveruleikann um borð í stórskemmdu geimfarinu.

 

Stjórnstöð og mennirnir þurfa að prófa sig áfram og þar sem slökkt er á miðstöðinni verða þeir auk þess að þola skelfilegan kulda sem nístir í gegnum merg og bein. Stjórnfarið sem áhöfnin nýtir nú til hvíldar – „upstairs bedroom“, eins og þeir kalla það – er ískalt og veggir, gluggar og mælaborð er döggvað. Kuldinn er slíkur að tennurnar glamra og geimfararnir geta varla hvílst – og þegar þeim loks tekst að fá sér smá kríu er það í mesta lagi tvo – þrjá tíma í senn.

 

Sá matur sem er geymdur í eldhúsi einingarinnar hefur einnig kólnað mikið og þegar Lowell sækir nokkrar pulsur uppgötvar hann að þær eru næstum frosnar. Odyssey er ekki lengur svefnherbergi heldur ísskápur að mati geimfaranna sem að íklæðast síðum nærbuxum.

 

Það er einkum Swigert sem þolir illa kuldann þar sem fætur hans eru rennblautir og ískaldir eftir að hann hafði stigið í vatnspoll sem hafði lekið úr drykkjarvatnsgeymi í Odyssey. Þrátt fyrir að hann nuddi fætur sína ákaft tekst honum ekki að koma í þá hita. Öllu verra er þó hlutskipti Fred Haise sem þjáist af illskeyttri þvagfærasýkingu. Eftir að Odyssey lenti í þessum nauðum hafa geimfararnir ekki getað nýtt sér venjulegan búnað við að losa þvagið utanborðs og í nær þrjá daga hafa mennirnir pissað í poka og ílát sem þeir hafa síðan lagt til hliðar í Odyssey.

 

Við miklar annir um borð pissa geimfararnir þó í þartilgerðan poka inni í geimbúningnum og þannig geta liðið margir tímar þar sem þeir eru bókstaflega á kafi í eigin þvagi. Það eru þessar neyðaraðstæður sem hafa orsakað sýkingu Fred Haise, við þvaglát er sviðinn djöfullegur og eins er hann örmagna, enda með bullandi hita.

 

Eftir því sem tíminn líður smýgur kuldinn úr stjórnfarinu einnig inn í tunglferjuna Aquarius, þar sem hitastigið síðla fimmtudags er fallið niður í um 5 gráður. Rakinn um borð er slíkur að á öllu yfirborði liggur þunn daggarfilma. Geimfararnir þurfa að þurrka af mælitækjunum til að geta yfirhöfuð lesið af þeim.

 

Þeir eru stöðugt uggandi um að rakinn hafi skemmt rafbúnað. Það leikur enginn vafi á að vætan hafi þrengt sér á bak við mælaborðið bæði hér og í stjórnfarinu.

 

Tunglferjan Aquarius er björgunarbátur þeirra og virkar til þessa með ágætum, en Odyssey er sú ferja sem á að koma þeim örugglega heim til jarðar. Skammhlaup þar um borð gæti haft skelfilegar afleiðingar.

 

Geimfararnir ýta frá sér svo óþægilegum hugsunum meðan þeir öxl við öxl reyna að fá í sig hita og bíða eftir tíðindum frá Houston. Í stjórnstöðinni er unnið að því að útbúa lista yfir þau ferli sem eiga að vekja Odyssey upp af dvalanum og gera það klárt fyrir ferðina í gegnum lofthjúp jarðar daginn eftir. En þess lengur sem tíminn líður án áætlunar, því styttri tíma hafa geimfararnir til að kynna sér það verklag sem líf þeirra hangir á. Á fimmtudagskvöldi heyrist loks í einum yfirmanni í talstöðinni.

 

Hann kemur sér beint að efninu: „Halló, Aquarius. Heyrið þið í mér? Leyfið mér að fara í gegnum þetta frá A til Ö.“ Fyrst tveimur tímum síðar eru þeir tilbúnir með verklýsinguna. Sérhverri stillingu á mælum og sérhvert slag á tölvuborðið er lýst gaumgæfilega og að lokum ábyrgist hann að listinn hafi verið reyndur af varaáhöfninni í flugherminum. „Við höldum að við höfum gert ráð fyrir öllu sem gæti farið úrskeiðis,“ segir yfirmaðurinn. „Það vona ég,“ svarar Swigert „Því á morgun er sjálft prófið“.

 

Houston kemur ekki auga á Odyssey

 

„Ræs!,“ segir Lowell og strax á eftir þrýstir Swigert á hnappinn. Með braki og brestum aftengist þjónustufarið frá og Lowell hryllir við þegar hann sér skemmdirnar í gegnum gluggann. „Öll önnur hliðin á farinu er horfin! Sjáið bara,“ hrópar hann skelfdur. Sjá má tættan tækjabúnaðinn í gegnum stórt gat eftir sprenginguna. Þetta er hræðileg sjón.

 

Orðlausir flýta geimfararnir sér að taka myndir af skaðanum – þeir höfðu reiknað með að sjá minniháttar leka, en ekki slíka gereyðileggingu. Meðan þjónustufarið fjarlægist óðum kveikja mennirnir á lendingarrafhlöðunum í Odyssey og vekja farartækið til lífs á ný. Þeim er stórlega létt þegar öll kerfi virka að óskum.

 

Um níu leytið næsta morgun hafa geimfararnir flutt allan ónauðsynlegan búnað inn í Aquarius. Svo aftengjast þeir hinni dyggu tunglferju og senda hana einnig út í geim. „Vertu sæll, Aquarius, og takk fyrir,“ verður kveðja þeirra Lowell, Haise og Swigert.

 

Þegar þeir liggja þremur tímum síðar niðurspenntir í sætum sínum, reiðubúnir í síðasta áfanga ferðarinnar, taka þeir eftir hvernig niðamyrkur geimsins víkur smám saman undan mjúku ljósi jarðar. Nokkrum andartökum síðar þeysist Odyssey inn í gegnum lofthjúpinn með stefnuna á suðurhluta Kyrrahafs.

 

Á meðan sitja samstarfsmennirnir við NASA, fjölskyldur geimfaranna og milljónir sjónvarpsáhorfenda um heim allan ofurspenntir á sætisbrúninni. Í margar mínútur næst ekkert samband við farartækið og hvað eftir annað kallar stjórnstöð til geimfaranna. „Odyssey, Houston. Standing by,“ endurtekur Joe Kerwin á jörðu. Enn er óvissan óþolandi um hvort rafbúnaðurinn sem var ætlað að opna fallhlífarnar hafi virkað sem skyldi.

 

Fram til þessa er útlitið ekki gott. Sjónvarpsmyndavélar á björgunarbáti flotans USS Iwo Jima skyggnast árangurslaust um himininn í leit að litla keilulagaða farartækinu og þegar það kemur skyndilega í ljós klukkan 12.07 í gegnum skýjahuluna springur fögnuðurinn út.

 

Skömmu síðar skellur Apollo 13. niður í hafinu nærri Samoa og lendir um sex kílómetrum frá björgunarskipinu. Í þéttsetinni stjórnstöðinni Houston stígur samstundis upp mikið reykský frá öllum þeim vindlum sem hefur verið útdeilt við þetta tækifæri. Meðan geimfararnir í Odyssey verða enn sem komið er að láta sér nægja að reykja eigin frosinn andardrátt.

 

Það er ekki fyrr en kafarar opna lúguna á geimfarinu sem kuldinn lætur undan yl hitabeltisins og himinlifandi anda Lowell, Haise og Swigert að sér fersku lofti sem ilmar af hafi og jörð.

 

„Yndisleg lending í svarbláu hafi á dásamlegri, dásamlegri plánetu,“ segir Lowell síðar um lendinguna sem endaði með því að teljast einhver best heppnaða lending í sögu Apollo-geimferðaáætlunarinnar. Mörgum mánuðum síðar kemst NASA að því að skammhlaup milli tveggja leiðslna var orsök sprengingarinnar í súrefnistankinum. Þrátt fyrir þessar raunir nefnir NASA leiðangurinn „successful failure“ (velheppnað klúður). En traust manna til geimferðanna er í lágmarki.

 

Næsti leiðangur skiptir sköpum fyrir framtíð Apollo-áætlunarinnar. Allt annað en glimrandi árangur er óásættanlegt. Og þannig er málum háttað, að þegar geimfararnir í Apollo 14. eru þann 31. janúar 1971 tilbúnir fyrir geimskotið á toppi Satúrnus 5-eldflaugarinnar, þá liggur ábyrgðin á nánari könnun á tunglinu sem mara á öxlum þeirra.

Alheimurinn

Hvað er andefni?

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

Maðurinn

Ást er eintóm efnafræði

Náttúran

Hjarta steypireyðar slær bara tvisvar á mínútu

Menning

Hvers vegna varð kvikmyndin „Casablanca“ svona vinsæl?

NÝJASTA NÝTT

Maðurinn

Af hverju sjá sumir drauga en aðrir ekki?

Náttúran

Hvaða rándýr étur flest fólk?

Heilsa

Er flotsaur til marks um góða heilsu?

Náttúran

Hvernig veit fræ að það eigi að spíra? 

Maðurinn

Með skönnun má spá fyrir um þunglyndi

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

Náttúran

8 uppfinningar sem þú getur þakkað Einstein fyrir

Náttúran

Að klóna risaeðlur: Er hægt að vekja risaeðlur til lífsins?

Maðurinn

Af hverju sjá sumir drauga en aðrir ekki?

Náttúran

Hvaða rándýr étur flest fólk?

Heilsa

Er flotsaur til marks um góða heilsu?

Náttúran

Hvernig veit fræ að það eigi að spíra? 

Maðurinn

Með skönnun má spá fyrir um þunglyndi

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

Náttúran

8 uppfinningar sem þú getur þakkað Einstein fyrir

Náttúran

Að klóna risaeðlur: Er hægt að vekja risaeðlur til lífsins?

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Maðurinn

Getur dáleiðslan komið í stað fyrir lyf? 

Maðurinn

Getur dáleiðslan komið í stað fyrir lyf? 

Maðurinn

Hvaða blóðflokkur er sjaldgæfastur?

Maðurinn

Hvaða blóðflokkur er sjaldgæfastur?

Lifandi Saga

Gestapo: Leynilögregla Hitlers olli skelfingu í Evrópu

Lifandi Saga

Getur Rússland orðið uppiskroppa með hermenn? 

Lifandi Saga

Kjarnorkubrjálæðingar kalda stríðstímans

Náttúran

Þrisvar til tunglsins og til baka aftur

Vinsælast

1

Maðurinn

Einvígið: Er rafmagnstannbursti betri en venjulegur?

2

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

3

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

4

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

5

Maðurinn

Hvaða blóðflokkur er sjaldgæfastur?

6

Jörðin

Vísindamenn greina vaxtarverki: Fæðuhringur eldfjallsins

1

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

2

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

3

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

4

Jörðin

Vísindamenn greina vaxtarverki: Fæðuhringur eldfjallsins

5

Náttúran

8 uppfinningar sem þú getur þakkað Einstein fyrir

6

Maðurinn

Sársauki – Hvað er sársauki?

Jörðin

Hversu mikið menga leikföng?

Maðurinn

Af hverju þessi ást á áfengi?

Heilsa

Er hægt að sofa of mikið?

Lifandi Saga

Hver fann upp á „kalda stríðinu“?

Lifandi Saga

Flugmóðurskip úr sagi og ís átti að brjóta kafbáta Þjóðverjanna á bak aftur

Maðurinn

Er skaðlegt að halda aftur af hnerra?

Lifandi Saga

Samkynhneigður sjónvarpsleikari skáldaði upp sögur um eiginkonur

Maðurinn

Hvernig myndast krabbamein?

Alheimurinn

Þrisvar sinnum stærra en Everestfjall: Goshalastjarna gæti brátt sést á himni í fyrsta sinn í 70 ár

Tækni

Dulkóðaður gjaldmiðill: 7 atriði sem þú ættir að vita um rafmynt 

Menning

Af hverju fengu inúítar ekki skyrbjúg?

Lifandi Saga

Fjórir kvillar sem bóluefni hafa knésett

Af hverju sjá sumir drauga en aðrir ekki?

Sumt fólk sem ég þekki fullyrðir að hafa séð drauga. Ég hef aldrei upplifað neitt yfirnáttúrulegt. Er einhver skýring á þessu?

Maðurinn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.