Líffræði
Ástralskt músarfóstur hefur nú markað spor sín á spjöld sögunnar. Í þessu fóstri er nefnilega erfðaefni úr pokaúlfi, eða svonefndum Tasmaníutígri.
Tegundin er löngu útdauð og þetta er í fyrsta sinn sem vísindamönnum hefur tekist að fá gen úr útdauðri tegund til að „virka“ í annarri tegund.
Erfðaefni var tekið úr þremur 100 ára gömlum Tasmaníutígrum sem geymdir voru í spíra í Viktoríusafninu í Melbourne í Ástralíu.
Eftir að gengið hafði verið úr skugga um að erfðaefnið væri í raun úr Tasmaníutígri, einangruðu vísindamennirnir genið Col2a1 og komu því fyrir í frjóvguðu músareggi.
Egginu var síðan komið fyrir í legi músar þar sem vísindamennirnir gátu síðan fylgst með hegðun gensins. Í ljós kom að genið starfar eins og músagenið Col2a1. Það virkjar sem sé annað gen sem aftur á þátt í myndun brjósks og beina.
Áströlsku og bandarísku vísindamennirnir sem standa að tilrauninni eru afar ánægðir með þessa genagræðslu.
Þetta einstæða afrek nýtist nefnilega ekki aðeins til að ákvarða hvar Tasmaníutígurinn var staddur í þróunarstiganum, heldur segja vísindamennirnir að aðferðina megi einnig nota til að afla þekkingar á öðrum útdauðum tegundum og geti jafnvel komið að notum til að koma í veg fyrir að tegundir í útrýmingarhættu verði aldauða.
Tasmaníutígurinn var eitt sinn útbreiddur en var útrýmt af ýmsum ástæðum. Skinnið var verðmætt og sauðfjárbændur skutu þetta rándýr líka til verndar hratt vaxandi bústofni sínum.
Síðasti pokaúlfurinn drapst í Hobart-dýragarðinum þann 7. september 1936.