Hestar og asnar. Hvítabirnir og brúnbirnir. Tígrisdýr og ljón. Mörg dæmi eru um að mismunandi tegundir geti eignast afkvæmi saman, þrátt fyrir að þær hafi þróast í mismunandi áttir yfir hundruð þúsunda eða jafnvel milljóna ára.
En geta menn og simpansar eignast afkvæmi saman? Á þremur sviðum eru bæði góð rök með og á móti:
GEN
Með : Gen okkar eru nánast eins
Gen manna og simpansa eru 99% alveg eins. Genin eru sá hluti af DNA sem virkar eins og vinnuteikning fyrir byggingarsteina líkamans, prótínin. Margar aðrar tegundir sem hafa sambærileg líkindi í erfðaefninu – meðal annars hjá stökkli og háhyrnubróður sem hafa verið aðskildir í meira en 8 milljón ár – geta vel eignast afkomendur saman.
Aðeins 1% erfða okkar er frábrugðið simpönsum.
Á móti: Genin ákvarða ekki allt
Genin eru einungis 1,5% af DNA okkar og restin af erfðaefninu skiptir einnig líffræðilegu máli; t.d. inniheldur það DNA-runur sem geta kveikt og slökkt á tilteknum genum. Manneskjan er með 3.000 slíkar runur sem hún deilir ekki með simpönsum.
LITNINGAR
Með: Litningar okkar líkjast hver öðrum
Litningar okkar líkjast litningum simpansa. Við erum þó með einu litningapari færra því að litningar 2A og 2B hjá simpönsum hafa runnið saman í einn – litning 2. Þessi litli munur í fjölda litninga ætti þó ekki að hindra okkur í að eignast börn; t.d. geta hestar og sebrahestar eignast afkvæmi saman þrátt fyrir að fjöldi litninga þeirra sé ekki sá sami.
Við erum einu litningapari færra en simpansar.
Á móti: Litningar hafa innri fjölbreytileika
Þrátt fyrir að litningar manna og simpansa líkist hver öðrum við fyrstu sýn er mikill munur á þeim. Genin geta verið staðsett á ólíkum stöðum á litningum og stærri hlutar litnings geta verið samsettir á ólíkan máta – t.d. ef löng DNA-runa hefur snúist um 180 gráður.
FRJÓVGUN
Með: Mannapar geta frjóvgað hverjir aðra
Kynfrumurnar og einnig formgerð kynlitninganna X og Y, líkjast hver annarri meðal tegunda mannapa. Dæmi eru um að simpansar og systurtegund þeirra, bónóbóaparnir hafi eignast afkvæmi saman. Auk þess hafa tilraunir sýnt að sáðfrumur úr mönnum geta þrengt sér inn í eggfrumur hjá bæði gibbonöpum og górillum.
Dæmi eru um að tvær apategundir hafi eignast afkvæmi.
Á móti: Það er langt frá frjóvgun í afkvæmi
Þrátt fyrir að sáð- og eggfrumur frá mönnum og simpönsum geti runnið saman verður ekki nauðsynlega til lífvænlegt fóstur úr því. Á fósturstiginu geta jafnvel lítil afbrigði haft banvænar afleiðingar. Það er t.d. ástæða þess að geitur og sauðfé geta afar sjaldan eignast unga saman.