Frá því að Rússland réðist inn í Úkraínu þann 24. febrúar 2022 hefur Pútín barist á tvennum vígstöðvum. Á meðan hermenn hans og brynvagnar hafa reynt að leggja undir sig nágrannaríkið, er annar afdrifaríkur bardagi í gangi heima fyrir.
Þar hefur Pútín leitast við að fjölga íbúum ríkisins en þeim hefur fækkað stórlega undanfarin ár. Um þessar mundir eignast rússneskar konur nefnilega einungis helmingi færri börn en þarf til, eigi núverandi íbúafjöldi að haldast samur.
Þetta allt, ásamt Covid 19 og innrásinni í Úkraínu, sem og miklum landflótta, veldur því að íbúatala Rússlands minnkar um ríflega eina milljón á ári hverju.
Það felur í sér að fjöldi ungra manna sem geta þjónað í hernum minnkar umtalsvert. Herkvaðning á ungum rússneskum karlmönnum í herþjónustu minnkar auk þess veigamikið vinnuafl landsins.

Rétttrúnaðarkirjan í Rússlandi hefur hafið herferð sem er ætlað að sannfæra konur um að fara ekki í fóstureyðingu.
Hermir eftir Stalín
Til þess að finna lausn á þessum vanda hefur Pútín m.a. litið til þess hvernig Jósef Stalín tókst á við sambærilegan vanda varðandi skort á hermönnum.
Í síðari heimsstyrjöldinni misstu Sovétríkin svo marga unga menn að Stalín leit á það sem lífsnauðsynlega staðreynd að konur landsins þyrftu nauðsynlega að fæða fleiri börn.
Meðan að stofnendur Sovétríkjanna lögðu mikla áherslu á jafnrétti, herti Stalín tök sín á konum, allt eftir því sem sífellt meiri fjöldi hermanna féll.
Sem dæmi var móðurhlutverkið hafið upp til skýjanna upp úr 1930 á meðan skilnaðir voru afar torsóttir – og fóstureyðingar voru harðbannaðar.
Auk þess innleiddi Stalín árið 1944 sérstaka tilskipun fyrir konur sem eignuðust meira en 10 börn – og það er einmitt þessi tilskipun sem hefur öðlast nýtt líf hjá Pútín til þess að efla fæðingartíðnina.
Með því að samþætta lög gegn fóstureyðingum og styrkja barnmargar fjölskyldur vonast Pútín til að hann geti snúið þessari þróun við og tryggt að Rússland muni í framtíðinni hafa aragrúa af ungum mönnum sem geta barist í hernum.