Græn innrás

Syðsta eyja Íslands, Surtsey, reis úr sæ fyrir aðeins 45 árum. Eyjan var líflaus í mörg ár, en eftir að flokkur máva kom þangað hafa plöntur og dýr náð fótfestu á mettíma á þessari hrjóstrugu eldfjallaeyju.

BIRT: 04/11/2014

LESTÍMI:

4 mínútur

Fæðingin hófst árið 1963 og var bæði langvinn og átakamikil. Í rúm þrjú og hálft ár vall glóandi hraun upp úr jörðinni og til himins steig kílómetra há súla af kolsvörtum reyk. En í júní 1967 lauk eldgosinu. Ísland hafði eignast nýja eyju. Hún var bæði nakin og lífvana, og því gripu fræðimenn þennan einstaka möguleika fegins hendi til að fylgjast með hvernig líf nemur nýtt land.

 

Þessi nýja eyja var nefnd Surtsey í höfuðið á jötninum Surti, sem samkvæmt norrænni goðafræði setur eld að öllum heimi við Ragnarök. Eyjan var nú orðin 2,64 ferkílómetra stór og hæsti punktur hennar lá 175 metra yfir sjávarmáli.

 

Íslenska ríkið á Surtsey og aðgangur að eyjunni hefur frá upphafi verið afar takmarkaður: aðeins einu sinni eða tvisvar á ári fær lítill hópur líffræðinga og jarðfræðinga leyfi til að dvelja nokkra daga á eyjunni. Þeir búa í eina húsi eyjunnar og áður en þeir halda í land sótthreinsa þeir gaumgæfilega skóbúnað sinn, svo þeir flytji hvorki framandi mold eða fræ með sér. Segja má að eyjan sé heil rannsóknarstöð í fullri stærð og veitir hún einstaka möguleika til að fylgjast með hvernig líf dreifist og einnig hvernig náttúruöflin verka á þessa nýfæddu eyju.

 

Fyrsta heimsókn til eyjunnar féll í skaut sjö vísindamanna í febrúar 1964, meðan eldgosið stóð sem hæst. Þeir sigldu til eyjunnar í gúmmíbát meðan glóandi ösku rigndi yfir landnemana. Síðari tíma heimsóknir hafa ekki verið jafn dramatískar, en á mörgum stöðum á eyjunni minna gufustrókar enn á þá ógnarkrafta, sem ríkja neðanjarðar.

 

Fræðimennirnir nota ferðirnar til að fínkemba eyjuna. Sérhver fermetri er rannsakaður. „Og á hverju ári uppgötvum við eitthvað nýtt. Surtsey kemur okkur ætíð á óvart. Að meðaltali finnum við um 20 nýjar tegundir ár hvert,“ segir líffræðingurinn Erling Ólafsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hann er einn fárra útvaldra, sem frá leyfi til að sækja eyjuna heim, en hann fylgdist með tilurð hennar ungur að árum. Frá glugga sínum gat hann fylgst með reykjarsúlunni frá eldgosinu. „Þá grunaði mig ekki að eyjan kæmi til með að skipa svo stóran sess í lífi mínu,“ segir Erling Ólafsson, sem hefur ritað margvíslegar vísindagreinar um skordýralíf á eyjunni.

 

Ilmfjólan stóð stutt við

 

Á meðan eldgosinu sjálfu stóð komu fyrstu háplönturnar til eyjunnar – ilmfjólan. Hún gat ekki spjarað sig við þessar aðstæður, en sjö árum síðar höfðu tíu plöntutegundir numið land á Surtsey, þar á meðal skarfakál og aðrar harðgerar plöntur. Nú á dögum hafa verið skráðar um 60 háplöntur á eyjunni. Við þær bætast ólíkar tegundir af byrkingum og mosum sem þekja sífellt stærri fleti, sums staðar líkt og þykkt teppi á harðri klöppinni.

 

Þrátt fyrir mismunandi þéttleika gróðurþekjunnar er nú varla að finna fermetra án grósku. Plönturnar eiga þó enn erfitt með að brjóta undir sig hæstu hluta eyjunnar. Skrásetning vísindamanna sýnir að fjölbreytileiki er ennfremur meiri á Surtsey, heldur en á sumum nærliggjandi eyjum. En samkvæmt Erling Ólafssyni er það að líkindum einungis spurning um tíma því smám saman munu grös ná þar yfirhöndinni og verða ráðandi líkt og er tilvikið með aðrar eyjur í nágrenni.

 

Fram til þessa hafa fræðimenn skrásett tólf verpandi fuglategundir á Surtsey. Af smádýrum, skordýrum og köngulóm hafa fundist um 350 tegundir. Köngulær einar saman telja heilar 14 tegundir. Þá hafa vísindamennirnir fundið tvær tegundir snigla og ánamaðk. Sá fundur sem kom hvað mest á óvart er ranabjallan, sem er nú algengasta bjöllutegundin á eyjunni. Hún er annars aðeins þekkt á 3 – 4 eyjum í öllum heiminum og er ein þeirra við Skotland. Vissulega hafa fjölmörg smádýr komið til eyjunnar með fuglum, og fuglar gegna reyndar lykilhlutverki fyrir líffræðilega þróun á eyjunni. „Árið 1985 komu sílamávar á stofn fyrstu nýlendunni þar. Þeir sóttu sér efnivið í hreiðurgerð frá öðrum eyjum, sem fól í sér gríðarlega aukningu skordýrategunda og framrás lífsins heldur áfram,“ segir Erling Ólafsson.

 

Nú á dögum verpa þrjár mávategundir á eyjunni fyrir utan riturnar, sem verpa á bergsyllum. Þessar nýlendur telja samtals um 200 pör, og fyrir utan að flytja ný smádýr og plöntur til eyjunnar, hafa þessir fjömörgu mávar skilað af sér miklum áburði með driti sínu. Þannig má segja að líf ryðji brautina fyrir meira líf. Fræðimenn hafa séð hve afgerandi hlutverk mávanna er við samanburð á eldri rannsóknum og teikningum. Á fyrstu árum eyjunnar komust fjölmargar dýrajurtir á laggirnar, en síðan fylgdu tuttugu ár án mikilla breytinga. Á þessu tímabili leið því langur tími milli nýrra tegunda. Það var ekki fyrr en mávarnir tóku að verpa þarna sem breyting varð á þessu. En jafnvel rekaviður og annað rusl sem skolast á land getur flutt nýtt líf með sér í formi laumufarþega, smádýra og hræa.

 

Sá hraði sem lífið hefur lagt eyjuna undir sig er nokkuð sem hefur komið líffræðingum hvað mest á óvart. Jafnvel við svo harðneskjulegar aðstæður hefur lífinu á einungis 40 árum tekist að festa rætur á eyjunni. Þekking vísindamanna á hvernig líf nær fótfestu og dreifist má t.d. nýta á svæðum sem orðið hafa fyrir miklum náttúruhamförum. Rétt eins og þessar 40 ára rannsóknir hafa veitt nýja þekkingu um hvernig lífið á sínum tíma náði fótfestu á jörðinni og endurnam land eftir ísaldir. Í líffræðilegu samhengi eru 40 ár afar stuttur tími. En frá jarðfræðilegu sjónarmiði eru 40 ár nánast ekki neitt. Mörg jarðfræðileg ferli taka milljónir ára og því hefur einnig komið á óvart að sum jarðfræðileg ferli ganga mun hraðar fyrir sig en talið var. Hluti gjóskunnar á Surtsey hefur t.d. ummyndast í afar harða glerlíka bergtegund er nefnist palagónít. Sú ummyndun hefur gerst mun hraðar en jarðfræðingar höfðu vænst.

 

Atlantshafið nagar í eyjuna

 

Þessi harða bergtegund hefur varið Surtsey gegn veðrun, sem er versti óvinur eyjunnar. Vindar og regn slíta eyjuna en einkum er þó brimið skeinuhætt Surtsey, sem hefur minnkað umtalsvert á þessum 40 árum. Um þessar mundir er eyjan 1,38 ferkílómetrar að stærð og hæsti punktur hennar er nú 155 metrar yfir sjávarmáli.

 

Miklar öldur skella nær stöðugt, einkum á suðurströndina og hafa myndað þar snarbrattar og óaðgengilegar klappir. Og öldurnar hafa gert eyjuna aflengri með árunum: frá suðri berst stöðugt efni úr norðurhlið eyjunnar, þar sem það myndar set og strendur þar sem m.a. selir njóta hvíldar.

 

Jarðfræðingar hafa leitast við að lýsa þróun næstu áratuga og samkvæmt mati þeirra mun yfirborð eyjunnar hafa hopað svo mikið eftir 120 ár, að eyjan verði þá aðeins 0,4 ferkílómetrar. „En þrátt fyrir að veðrunin sé afar öflug, teljum við ekki að eyjan hverfi alveg. Að líkindum verða einhverjar klappir eftir – klappir sem fuglar geta nýtt,“ áætlar Erling Ólafsson. Jafnvel á afar takmörkuðu svæði gildir, að þegar líf hefur loks náð fótfestu þarf mikið til að það sleppi taki sínu.

 
 

BIRT: 04/11/2014

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is