Í tengslum við byggingu nýrrar lífgasverksmiðju í Þýskalandi kom 2.800 ára gamall gullhringur upp úr jörðinni.
Hringurinn er svonefndur stallahringur og fornleifafræðingurinn Cornelius Hornig telur að hann hafi verið notaður af goðum (prestum) bronsaldarsamfélagsins þegar mikilvægir samningar voru gerðir.
Vísindamennirnir telja að goðinn hafi lagt hringinn fram við athöfnina og aðilar málsins hafi síðan lagt hönd á hringinn og unnið eið að því að halda samkomulagið.
Þetta er ekki svo frábrugðið þeirri athöfn í kristnum nútímasamfélögum þegar fólk er látið leggja hönd á biblíuna og sverja eið.
Samkvæmt frásögnum af heiðnum sið hér á landi og á Norðurlöndum lá stallahringur á stalli í hofum og menn unnu eið að honum. Þess má geta að stallahringur er notaður við athafnir ásatrúarmanna nú á dögum.