Fiseindir eru án nokkurs vafa dularfyllstar allra öreinda í nútíma eðlisfræði.
Austurríski eðlisfræðingurinn Wolfgang Pauli sagði fyrir um tilvist þeirra árið 1930 og þá í þeim tilgangi að skýra fyrirbrigði sem kallast beta-geislavirkni.
Fyrirbrigðið lýsir sér þannig að frumeind breytist skyndilega í nýja og losar þá rafeind. Orkan varðveitist hins vegar ekki eins og ætti að leiða af grundvallarlögmálum eðlisfræðinnar. Pauli taldi að óþekkt eind flytti orkuna með sér á braut.
Margir töldu að ógerlegt yrði að sýna fram á tilvist fiseinda. Þær smjúga í gegnum hvað sem vera skal einmitt vegna þess að þær bregðast ekki rafrænt við öðrum eindum.
En 1956 tókst bandarísku eðlisfræðingunum Fred Reines og Clyde Cowan þó að gera það.
Með því að setja upp skynjara nálægt kjarnakljúfi nýttu þeir sér þá staðreynd að hann sendir frá sér gríðarlegan fjölda fiseinda og þeim tókst að greina fáeinar af þeim mikla fjölda. Síðar tókst mönnum líka að greina fiseindir frá sólinni.
Gallinn var þó sá að mönnum tókst einungis að greina um þriðjung þess fjölda sem vænta mátti.
Skýring á því fékkst ekki fyrr en 2001. Við kanadísku fiseindastöðina SNO (Sudbury Neutrino Observatory) gátu menn loks staðfest að fiseindir berast í því magni sem áætlað var en þær skipta milli þriggja mismunandi gerða og aðeins ein gerðin mælist. Hjá SNO gátu menn nú „séð“ allar gerðirnar.
Eðlisfræðingar telja það ótvírætt til marks um að fiseindir hafi massa, að þær skuli færar um að skipta um gerð. Massann hefur ekki verið unnt að mæla en hann er áætlaður um þúsundasti hluti af massa rafeindar.