Andstæðingar hafmyllugarða hafa á réttu að standa hvað eitt varðar: Vindmyllurnar raska dýralífinu verulega.
Hávaðinn frá vindmyllum og risastórum spöðum þeirra veldur m.a. fuglum miklum vanda. Og eins getur uppsetning þeirra eyðilagt blómleg vistkerfi á hafsbotni.
Því hafa vindmylluframleiðendur og raforkufyrirtæki fengið vísindamenn í lið með sér. Saman hyggjast samtök þessi finna aðferðir sem geta umbreytt vindmyllum frá því að vera óvinir dýra yfir í nýja paradís fyrir dýrin með náttúruvænum myllum.
Vindmyllur taka mikið rými
Neikvæð áhrif grænnar tækni á dýralífið hafa verið gaumgæfilega kortlögð.
Rannsóknir hafa m.a. sýnt að litlir fjórfætlingar verða stressaðri vegna hávaðans sem berst frá vindmyllum og bregðast því hægar við ógn frá rándýrum.
Spaðarnir á vindmyllum geta einnig verið afar hættulegir fuglum. Indversk rannsókn sýndi þannig að fjöldi ránfugla féll um heil 71% nærri vindmyllum.
Og málið batnar ekki þegar vindmyllurnar eru úti á sjó. Við smíði þeirra er hafsbotninum rústað, þannig að líf sem dafnaði þar, þarf ýmist að flýja eða deyja ella og eftir stendur eyðimörk neðansjávar.
Afleiðingin er eðlilega sú að það verður sífellt örðugra að fá leyfi til að reisa vindmyllugarða. Samkvæmt dönsku stofnuninni Rådet for Grøn Omstilling sem metur vænleg verkefni fyrir græn orkuskipti, tekur það nú fjögur til sex ár að fá leyfi fyrir varanlega uppsetningu vindmylla í ESB.
Þar með getur það tekið alveg jafn langan tíma að koma upp vindmyllugarði, eins og þarf til að smíða kjarnorkuver.
150 GW vindorkuafl verður sett upp fyrir árið 2050. En það þarf ekki að vera á kostnað dýranna
Þessi langi tímarammi veldur ESB nokkrum áhyggjum, enda hafa menn þar á bæ valið græna orku til framtíðar – og sem haldbestu aðgerðina gegn loftslagsvánni.
Svo seint sem árið 2022 tóku Danmörk, Þýskaland, Holland og Belgía saman höndum og hyggjast þau koma upp 65 GW vindmyllugörðum á Norðursjó fyrir árið 2030 og 150 GW fyrir árið 2050 – nóg til að anna rafmagnsþörf á um 230 milljón evrópskum heimilum.
Þar sem vindmyllurnar mega ekki standa í skjóli hver við aðra – enda dregur það úr skilvirkni þeirra – er einungis hægt að setja upp um 2,7 MW af mylluorku fyrir hvern ferkílómetra.
Fyrir 150 GW af vindorku þarf m.ö.o. flatarmál sem nemur um 55.000 km2 en það svarar til um tíundar af flatarmáli Norðursjávar.
Græn orka krefst meira rýmis
Gott bil þarf að vera á milli vindmylla til að þær steli ekki vindafli hver frá annarri og sólarsellur þurfa einnig mikið flatarmál til að framleiða nægjanlega mikinn straum sem gæti t.d. komið í staðinn fyrir kolaver. Frá 2011 til 2021 hefur flatarmálið sem sólarsellur þurfa tífaldast á meðan vindorka tók næstum því fjórum sinnum meira pláss árið 2021 en 2011.
Sem betur fela hafmyllurnar í Norðursjó ekki einungis í sér vanda fyrir vistkerfi. Hollensk rannsókn sýndi árið 2011 að fjöldi grindhvala hafði aukist eftir að vindmyllugarðurinn Egmond aan Zee var settur upp.
Vísindamenn telja að grindhvalir sæki garðinn heim vegna þess að þar sé að finna fleiri fiska, því bannað er að stunda fiskveiðar í garðinum og einnig er umferð skipa haldið í lágmarki.
Slíkar rannsóknir hafa nú gert að verkum að vísindamenn kanna nú hvort ekki megi gera miklu betur. Því eru nú gerðar tilraunir með hvernig smíða megi vindmyllur þannig að þær gleðji ekki einungis litla hvali, heldur einnig fjöldann allan af öðrum dýrum.
Tilbúin rif laða að sér dýr
Ein tilraunin felst í samstarfi milli hollenskra vísindamanna frá stofnuninni The Rich North Sea og sænska fyrirtækisins Vattenfall. Saman hafa þau þróað sökkul með holrýmum undir vindmyllurnar sem á að fá dýralífið þar til að blómstra.
Á næstu áratugum munum við sjá gríðarlega uppbyggingu vindmyllugarða á hafi úti og rannsóknin munu kenna okkur hvernig þessi uppbygging getur aukið líffræðilegan fjölbreytileika við hvern vindmyllusökkul.
Frank Jakobs forsvarsmaður The Rich North Sea verkefnisins.
Undirstaðan er búin fjórum sporöskjulaga holrýmum sem eru um 32 x 96 cm – rétt undir yfirborði og tveimur metrum fyrir ofan hafsbotn. Holur þessar eru mjög heppilegar fyrir unga fiska sem geta synt inn og út úr sökklinum. Hins vegar komast stærri rándýr eins og grindhvalir ekki þar inn.
„Ef við nýtum slíka náttúruvæna hönnun á öllum hafmyllugarðinum getur það mögulega aukið fjölbreytni lífs í hafi,“ segir forsvarsmaðurinn Frank Jakobs frá The Rich North Sea við Lifandi vísindi.
„Enn eigum við þó margt ólært í þessum efnum og reynslan sem okkur hlotnast í þessu verkefni verður ómetanleg.“
Jafnvel fyrir utan holrýmin gagnast massívur grunnur undir hafmyllur líffræðilegri fjölbreytni. Sökklarnir virka nefnilega eins og tilbúin rif.
Vindmyllurnar verða því skjótt kjörið athvarf fyrir ótal tegundir af dýrum og þangi sem festa sig á hart yfirborðið. Þannig myndast kjörlendi fyrir m.a. sæfífla og skeldýr. Á fimm til tíu árum myndast þannig nýtt vistkerfi með blómlegum fæðukeðjum.
Hafmyllugarðar iða af lífi
Margar hafmyllur eru festar kyrfilega niður við sjávarbotninn til að tryggja að þessar mörg hundruð metra háu byggingar standi sem tryggilegast. Sem betur fer getur undirstaðan, turninn og flokkur vindmylla til samans myndað ný búsvæði fyrir dýr.
1. Krabbadýr setjast á hart yfirborð
Undirstaðan og stór björg umhverfis hana skapa manngert rif fyrir dýr eins og sæfífla, kræklinga og ásætur hvers konar. Rannsókn frá 2018 sýnir að ein vegleg vindmylla getur hýst allt að fjögur tonn af skeldýrum.
2. Holur turn er vörn gegn rándýrum
Stærstu sökklarnir eru næstum því tíu metra breiðir og holir að innan. Hægt er að búa til fjölmarga hella rétt undir yfirborðinu og hollenskir vísindamenn greina nú hvernig minni fiskar geta synt óhultir inn og út um holrýmin. Öll þessi „skjólshús“ mynda nýtt og blómlegt vistkerfi.
3. Vindmyllugarður virkar eins og griðastaður.
Fiskveiðar og óviðkomandi fley eru bönnuð innan um vindmyllurnar. Þar með verður til náttúrugarður af sjálfu sér, þar sem fiskaseiði og önnur minni dýr eru allt eins örugg og á vernduðu svæði. Stærri rándýr eins og t.d. grindhvalir byltast um í þessu nýja matarbúri.
1. Krabbadýr setjast á hart yfirborð
Undirstaðan og stór björg umhverfis hana skapa manngert rif fyrir dýr eins og sæfífla, kræklinga og ásætur hvers konar. Rannsókn frá 2018 sýnir að ein vegleg vindmylla getur hýst allt að fjögur tonn af skeldýrum.
2. Holur turn er vörn gegn rándýrum
Stærstu sökklarnir eru næstum því tíu metra breiðir og holir að innan. Hægt er að búa til fjölmarga hella rétt undir yfirborðinu og hollenskir vísindamenn greina nú hvernig minni fiskar geta synt óhultir inn og út um holrýmin. Öll þessi „skjólshús“ mynda nýtt og blómlegt vistkerfi.
3. Vindmyllugarður virkar eins og griðastaður.
Fiskveiðar og óviðkomandi fley eru bönnuð innan um vindmyllurnar. Þar með verður til náttúrugarður af sjálfu sér, þar sem fiskaseiði og önnur minni dýr eru allt eins örugg og á vernduðu svæði. Stærri rándýr eins og t.d. grindhvalir byltast um í þessu nýja matarbúri.
Sænsk-dönsk rannsókn frá árinu 2020 undir forystu sjávarlíffræðingsins Mariu Glariou komst að þeirri niðurstöðu að bygging hafmyllugarða leiði oft til meiri fjölbreytileika lífvera.
Rannsóknin sýnir einnig að styrkja má jákvæð áhrif myllugarðanna ef stórir steinar eru settir allt í kringum vindmyllurnar. Steinarnir mynda þannig skjólríkt svæði fyrir ennþá meira líf og verja jafnframt vindmyllurnar, þar sem sterkir hafstraumar ná síður að grafa í mjúkan hafsbotn í kringum sökkla vindmyllanna.
Og það er ekki einungis undir yfirborði sjávar sem græn orka getur gagnast náttúrunni.
Kostirnir meiri en ókostir
Á landi eru nú að spretta upp stórir sólarsellugarðar hvarvetna í Evrópu.
Danskar tilraunir sýna að mögulegt er að setja upp sólarsellur á ónýttu láglendi sem hefur orðið til þess að fyrirtækið Better Energy hefur nú komið upp 1.000 MW framleiðslu með sólarorku í Finnlandi.
Akurlendi er jafnan bætt með því að ræsa fram votlendi en eftir að sólarsellurnar eru komnar upp er hægt að endurheimta upprunalegt votlendi – eins og stendur alltaf til að gera hérlendis – en það gagnast bæði margvíslegum fuglategundum og froskdýrum.
Framræstum og þrautpíndum landbúnaðarsvæðum má breyta í gróskumikil votlendi sem gagnast bæði dýrum og plöntum.
Þessu fylgir einnig ávinningur hvað loftslagið varðar því vatnið hægir á niðurbroti lífrænna efna í jarðveginum sem losar mikið af CO2. Eini ókosturinn er að sólarsellurnar verða dýrari í uppsetningu á votlendi þar sem þær þurfa öflugri undirstöður.
Aukinn áhugi á náttúrunni felur í sér að neikvæð áhrif vindmylla og sólarsella á dýr og plöntur munu minnka í framtíðinni.
Stór orkufyrirtæki eins og hið sænska Vattenfall og danska fyrirtækið Ørsted hafa einsett sér að ný verkefni skuli á endanum fela í sér mikinn ávinning fyrir náttúruna.
Hollenskir vísindamenn hafa ásamt orkufyrirtækinu Vattenfall búið til holan vindmylluturn með hellum þar sem fiskar og önnur sjávardýr geta falið sig í.
Helsta spurningin er hvort þessir fjölmörgu milljón ferkílómetrar sem koma til með að enda sem vindmyllu- og sólarsellugarðar muni nokkuð gagnast líffræðilegri fjölbreytni í sama mæli og raunveruleg villt náttúra. Þessu sjónarmiði hafna vísindamennirnir.
Án sjálfbærrar orku verða jarðarbúar nefnilega áfram að reiða sig á jarðefnaeldsneyti sem losar mikið magn af CO2. Gróðurhúsagas þetta hitar upp lofthjúpinn og loftslagsbreytingar og slæmar afleiðingar þeirra fela í sér langtum meiri ógn fyrir líffræðilegan fjölbreytileika, heldur en vindmyllur og sólarsellur geta nokkru sinni gert.