Læknisfræði
Vöggudauði er algengasta dánarorsök kornabarna. Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um orsakir þessa fyrirbrigðis, en ástæðan er þó enn óþekkt.
Nú stinga vísindamenn við Barnaspítalann í Seattle, upp á þeim möguleika að ákveðin heyrnarsköddun valdi vöggudauða. Reynist þetta rétt má finna þau börn sem eru í áhættuhópnum með heyrnarprófi sem nú þegar er gert á ungabörnum.
Vísindamennirnir báru saman heyrnarpróf 32 barna sem síðan höfðu dáið vöggudauða og heyrnarpróf barna sem náð höfðu eins árs aldri. Í ljós kom að börn sem dóu vöggudauða höfðu marktækt lélegri heyrn á hægra eyra. Við vöggudauða hættir andardráttur skyndilega meðan barnið sefur. Og ein þeirra heilastöðva sem á þátt í stjórnun andardráttarins, liggur einmitt upp að innra eyranu.
Vísindamennirnir telja að hár blóðþrýstingur í legkökunni við fæðingu geti einnig valdið háum blóðþrýstingi í barninu. Samkvæmt kenningunni verður blóðþrýstingurinn afar hár í innra eyranu, sem er umlukið beinum. Afleiðingin verður sú að æðar springa, m.a. inni í heilastöðinni „medulla oblongata“. Þar með glatar heilinn að hluta getu sinni til að hafa stjórn á andardrætti, þegar súrefnis- og koltvísýringsinnihald blóðsins fer úr jafnvægi.