Björgunarvélmennið Atlas vakti bæði athygli og furðu, en var dálítið klunnalegt, þegar Boston Dynamics kynnti það til sögu fyrir nokkrum árum. Nú er allt aðra sögu að segja.
Atlas má vel kalla vélmenni, en ekki bara vitvél eða róbot. Sköpulagið er sótt í mannslíkamann bæði í útliti og hreyfingum.
Erfiðast er að gæða slík vélmenni hæfni mannsins til að átta sig á umhverfinu og halda jafnvæginu, en til þess þarf örsnöggar hreyfingar um leið og aðstæður breytast og hindrun birtist.
Nú getur Atlas ekki bara þetta allt.
Hann hleypur hiklaust milli stigapalla og getur m.a.s. farið heljarstökk. Enn mikilvægara er þó að ef hann dettur kylliflatur, kemur hann sér á fætur sjálfur.

Þessum framförum hafa menn náð með því að bæta skynjarana, sem Atlas notar til sjónar og fjarlægðarmælinga.
Samhæfingin hefur líka tekið stórstígum framförum og hreyfingar arma, fóta og búks vinna nú nákvæmlega saman.
Atlas er líka orðinn sterkari. Hann getur lyft 11 kílóum. Það dugar ekki til að bera fólk út úr brennandi húsi, en vélmennið nálgast engu að síður óðfluga það markmið að ná inntökuprófi í björgunarsveit.
Endurnýjun á 5 árum
- Atlas hefur lést um helming og þar ekki lengur leiðslur.
- Léttari: Vélmennið hefur lést úr 150 í 75 kg með þrívíddarprentun í stað forsmíðaðra hluta. Straumgjöf er auðveldari og styrkari.
- Betra jafnvægi: Hæfnin til að átta sig á umhverfi og samhæfing hreyfinga er stórbætt með þrívíddarsjón, skynjurum og miðstýrðu stjórnkerfi.
- Meira frelsi: Fyrsta útgáfan fékk straum og skipanir um kapal frá stjórnstöð. Nú er Atlas þráðlaus og með innbyggðar rafhlöður.
- Útlit: Áður var þetta frumgerð og ekki mikið lagt upp úr útliti. Nýi Atlas er straumlínulaga og sterklegur.