Í gær, þann 22. október kom Granville-París-hraðlestin inn á Gare de L‘Quest-brautarstöðina á 60 km hraða. Hemlar lestarinnar brugðust og eimvagninn braut gat á múrvegginn við enda teinanna og féll niður á götu. Tveggja barna móðir, blaðasölukonan Marie-Augustine Aguilard, lést þegar múrsteinar úr veggnum féllu yfir hana. Til allrar hamingju lifðu allir farþegar lestarinnar, 131 að tölu slysið af, ásamt þriggja manna áhöfn. Tveir slösuðust þó.
Hraðlestin átti samkvæmt áætlun að koma inn á stöðina kl. 15:55, en hafði seinkað mikið þegar hún kom til Parísar. Til að draga úr töfinni hafði hinn reyndi lestarstjóri, Guillaume-Marie Pellerin, sett lestina á fulla ferð síðasta spölinn, en af óþekktum ástæðum brugðust öflugir Westinghouse-hemlarnir.
Þegar lestarþjónninn Albert Mariette tók í neyðarhemilinn, var það um seinan. Lestin ruddist gegnum stöðvunarbúkkana og áfram út í gegnum gaflinn á stöðvarhúsinu. Eimreiðin féll síðan um 10 metra niður á götu og tveir flutningavagnar fylgdu á eftir. Hinir níu vagnarnir, þar á meðal átta farþegavagnar héldust á teinunum inni í stöðvarbyggingunni.