Náttúran

Hugvitsamlegir veiðarar í leyni undir yfirborðinu

Gleymum öllu um frumstæð bit og högg. Heimshöfin hafa yfir að ráða ýmsum óhugnanlegum sjávardýrum sem veiða bráð sína með allt frá rafhöggum yfir í hljóðbylgjur sem valda lömun. Hér er hægt að lesa sér til um fimm af markverðustu veiðidýrum hafsins.

BIRT: 09/02/2024

Hávar, háhyrningar og selir eru þekkt rándýr hafsins sem veiða sér til matar með því að nýta stærð sína, hraða og styrk.

 

En í heimshöfunum er líka annar hópur veiðidýra sem beitir slægum og óvæntum aðferðum.

 

Eiturmarglyttan

Lífshættuleg marglytta vekur ugg

„Portúgalska freygátan“ er þekkt sem „fljótandi hryllingur“.

 

Þetta tiltekna sambú holdýra er víða að finna í sjó á hitabeltissvæðum og í heittempruðum sjó, þar sem dýrið lifir uppi við sjávarborðið og er auðþekkjanlegt á bláleitri loftblöðrunni.

 

„Freygátan“ getur ekki synt af sjálfsdáðum en berst áfram með vindum sem stundum ýta henni upp að landi.

 

Þetta veldur vanda þar sem strandgestir þekkja ekki dýrið og rugla því hugsanlega saman við sakleysislegan plastpoka.

 

⇒Holdýr er sambú fjögurra sepa

„Portúgölsk freygáta“ heyrir undir hveldýr og í raun er ekki rétt að tala um „það“ dýrið, heldur „þau“ dýrin, því um er að ræða sambýli fjögurra tegunda örsmárra sérhæfðra lífvera sem eru á sepa- eða hveljustigi.

1

Loftblaðra heldur holdýrinu á floti

Stærsti sepinn er „seglið“ sem er í raun sjálf loftblaðran sem heldur þessu holdýrasambúi á floti. Sé dýrinu ógnað getur það losað loft úr blöðrunni og kafað niður á öruggt dýpi.
2

Kynfæri framleiða egg eða sæði

Þó svo að holdýr þetta sé í raun sambú dýra hefur það yfir að ráða æxlunardýrum og framleiðir þannig annað hvort egg eða sæðisfrumur. Frjóvguð egg verða að lirfum sem sérhæfa sig fyrir annað hvort hlutverkanna.
3

Melting færir dýrinu orku

Meltingardýrin melta bráðina og deila síðan orkunni sem þannig vinnst með hinum hlutum sambúsins.
4

Þreifarar lama bráðina

Varnardýrin eru í raun þreifarar holdýrsins, ásamt sterklegum netlufrumum sem bæði gegna hlutverki varnar- og veiðivopna dýrsins.

Netlufrumurnar eru öflugar og stungurnar eru mjög sársaukafullar. Þreifararnir geta orðið allt að 30 metrar langir og eru nánast ósýnilegir.

 

Stungur hafa leitt til dauða, oft vegna þess að fórnarlömbin falla í yfirlið vegna sársauka og drukkna.

 

Drápsskærin

Bobbitormurinn er nefndur eftir bandarísku konunni Lorena Bobbitt sem árið 1993 skar af getnaðarlim eiginmanns síns.

Indónesískur laumuormur tæmir fiskasöfn

Í upphafi ársins 2009 hvarf mikið magn fiska úr Newquay-fiskasafninu í Englandi – ekkert var eftir, utan eilítið hreistur á botni búranna. Starfsfólkið taldi innbrotsþjófa hafa rænt fiskunum og komið var fyrir eftirlitsmyndavélum í búrunum.

 

Þegar liðnir voru tveir mánuðir án þess að sökudólgur fyndist var ákveðið að leita enn ýtarlegar. Þeir fiskar sem eftir voru í búrunum voru fjarlægðir, vatninu dælt úr búrunum og þá loks kom sökudólgurinn í ljós en um var að ræða hartnær eins metra langan „bobbit“-orm.

 

„Bobbit“-ormurinn er einn af stærstu burstaormum heimshafanna og eitthvert það gráðugasta rándýr sem vitað er um. Ormurinn getur náð þriggja metra lengd en hann veiðir með því að liggja í leyni og draga sig saman í S-lögun niðri á hafsbotninum eða í holrými milli tveggja steina.

 

Úr þessu fylgsni sínu skýst ormurinn svo eins og raketta þegar fiskur syndir hjá. Hann deyðir bráðina með sérstaklega útbúnum kjálkum sem minna á skæri.

 

Ormurinn gapir upp á gátt og skellir svo skoltunum saman af svo miklu afli að bráðin fer iðulega í tvennt. Til að tryggja að fiskurinn sé ekki enn iðandi, sprautar ormurinn jafnframt í hann hæfilegum skammti af eitri til þess að hann geti síðan gleypt bráðina í ró og næði.

 

Tannlásinn

Langar tennur bjúgtannans passa saman eins og tennur í rennilás.

Tennurnar líkjast fellihurð

Djúpsærinn er svo strjálbyggður að þegar bráð eftir langa hríð kemur innan seilingar, veiðir bjúgtanninn hann í órjúfanlegt búr sitt sem gert er úr tönnum.

 

Sumir vísindamenn telja að margir djúpsjávarfiskar nærist einungis einu sinni eða tvisvar á ævinni. Fiskarnir hafi því ekki ráðrúm til að taka neina áhættu þegar fæðan er endanlega innan seilingar. Bráðina verður að veiða og halda henni kyrri, sama hvað tautar og raular. Fyrir vikið eru djúpsjávarfiskar iðulega útbúnir löngum, beittum tönnum sem standa út í allar áttir.

 

Þegar bjúgtanninn lokar skoltinum passa langar tennurnar í neðri gómnum nákvæmlega inn í holrúm beggja vegna heilans. Skolturinn lokast jafn kyrfilega og við átti um fellihlið í höllum á miðöldum og ekkert kemst í gegn.

 

Takmörkuð fæðan táknar að sama skapi að fiskarnir mega ekki láta stærð bráðarinnar hræða sig.

 

Bjúgtanninn er því, líkt og við á um ýmsa djúpsjávarfiska, útbúinn risastórum skolti og maga sem getur tútnað út eins og blaðra til þess að fiskurinn geti gleypt bráð sem er jafn stór honum.

 

Risaklóin

Pink Floyd-byssurækjan dregur nafn sitt af bleikum lit stóru klóarinnar, sem og hvelli sem líkist byssuskoti sem myndast þegar hún hún smellir saman klónni.

Risavaxin kló lamar bráðina

Byssurækjan lamar bráð sína með aðstoð þrýstibylgna sem myndast þegar hún skellir saman risavaxinni kló sinni.

 

Risastór, bleik kló leiddi til þess að ein tegund af byssurækjum var nefnd í höfuðið á rokkhljómsveitinni Pink Floyd.

 

Þessi 5,5 mm langa rækja notar klóna til að mynda loftbólu sem springur andartaki síðar með háværum hvelli og myndar höggbylgju sem lamar bráð rækjunnar, m.a. smáfiska og krabba.

 

Að því loknu getur rækjan hæglega fangað og étið lamaða bráðina. Loftbólan er mynduð í holrúmi í klónni þar sem þrýstingurinn getur numið allt að 80 kPa og banvænn hávaðinn getur numið 210 desíbelum sem er meiri hávaði en hlýst af eldflaugarskoti.

 

Ef margar byssurækjur eru á veiðum á sömu slóðum getur hávaðinn orðið það geigvænlegur að hljóðbylgjurnar trufla neðansjávarsamskiptabúnað, t.d. í tengslum við rannsóknir á hafsbotni.

Holrúm í klónni myndar loftbólu

1. Rækja liggur tilbúin með stimpil

Byssurækjan liggur í leyni með opna kló og þreifarana úti til að skynja hreyfingar bráðar sem kann að eiga leið um.

2. Stimpill skýst niður

Dýrið skellir klónni saman með rösklega 100 km/klst. sem veldur því að stimpill eða bulla, skýst niður í holrúm. Hreyfingin veldur skammvinnri loftbólu innan í klónni.

3. Höggbylgja lamar bráðina

Loftbólan springur og sendir frá sér höggbylgju sem lamar bráðina. Hljóðstyrkur hvellsins getur numið allt að 210 desíbelum.

Pink Floyd-byssarækjan fannst árið 2017. Hún lifir á hafsbotni í dauðu kóral- og grýttu landslagi í sjónum undan Kyrrahafsströnd Panama.

 

Þar er nóg af felustöðum þar sem byssarækjan getur legið í launsátri og beðið eftir að grunlaus bráð syndi framhjá.

 

Uppleysarinn

Sæstjarnan sogar sig fasta og herpir að þar til kræklingurinn þreytist um of og getur ekki lengur haldið skelinni lokaðri.

Sæstjarnan snýr röngunni út

Þrátt fyrir friðsamlegt útlitið er sæstjarnan ógnvekjandi rándýr sem býr yfir leynilegu vopni. Dýrið getur snúið röngunni á maganum út úr kjaftinum og melt t.d. krækling inni í skel hans.

 

Sæstjarnan er eitthvert furðulegasta rándýr heims. Þar sem dýrið hefur ekki yfir að ráða tönnum, klóm og öðrum skörpum líkamshlutum neyðist það til að drepa bráð sína eftir öðrum leiðum. Þegar sæstjarna rekst á krækling, vefur hún öllum fimm örmum utan um skelina. Á hverjum armi er að finna hundruð svonefndra sogfóta sem festa sig rækilega við báðar skeljarnar.

 

Sæstjarnan herpir að dýrinu þar til það þreytist og gefst upp á að halda skelinni lokaðri. Örmjó rifa nægir til að hægt sé að setjast til borðs, ef þannig má að orði komast. Þetta undarlega veiðidýr er útbúið óvanalegum maga sem dýrið getur ranghvolft út úr kjaftinum og potað gegnum minnstu rifu á milli skeljanna.

 

Þó svo að sæstjarnan snúi röngunni á maganum út verkar meltingin sem skyldi. Magaensímin hefjast strax handa við að leysa dýrið upp inni í kræklingaskelinni þar til ekkert lifir eftir af því utan tómar skeljarnar.

HÖFUNDUR: Ritstjórn

© David Shale/NaturePL,© Shutterstock,© MYN/Paul Marcellini/NaturePL/Shutterstock,© Secret Sea Visions/Getty Images,© Solvin Zankl/NaturrePL,© Shutterstock/Sammy De Grave,© Claus Lunau,© Wild Wonders of Europe/Lundgren/NaturePL,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Tækni

Minnislisti nördanna: Búnaður

Tækni

Nú fá róbótar siðferðilegan áttavita

Heilsa

Ný tækni vekur latar sáðfrumur

Jörðin

Glóandi sprengingar skapa hljóðhöggbylgjur

Maðurinn

Þess vegna bragðast ávaxtasafi ekki vel eftir að þú burstar tennur

Maðurinn

Þjálfið heilann: Málgreind

Lifandi Saga

Hver var fyrstur dæmdur fyrir stríðsglæpi? 

Maðurinn

Heilinn sér andlit alls staðar og meðhöndlar þau öll eins

Náttúran

90 sekúndur til dómsdags: Viðbúin gegn hamförunum?

Náttúran

Vísindamenn undrandi: Svona myndast stærstu sandöldur heims

Náttúran

Stiklað á stóru um lotukerfið á 10 mínútum

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is