Hvorki svart né hvítt eru í rauninni litir í sömu merkingu og rautt, blátt, grænt og gult.
Ljós er í rauninni rafsegulbylgjur og þegar augað nemur ljósbylgju, túlkar það bylgjulengdina sem ákveðinn lit.
Þannig sjáum við rafsegulbylgjur með 700 nanómetra tíðni sem rauðan lit, en talsvert styttri bylgjulengd, 450 nanómetra, skynjum við sem blátt.
En berist auganu jöfn blanda allra bylgjulengda, túlkar það ljósið sem hvítt.
Þetta gildir um ljósið frá sólinni. En þegar sólarljósið berst okkur í gegnum regndropa getum við verið svo heppin að sjá hvíta ljósið klofna í marglitan regnboga.
Ástæða þess að okkur virðist einhver hlutur hafa ákveðinn lit, er sú að hann drekkur í sig aðrar bylgjulengdir ljóssins en þá sem augað túlkar sem þennan ákveðna lit.
Sú bylgjulengd sem berst til augans gerir það vegna þess að hluturinn endurkastar henni. Grænt laufblað drekkur sem sagt í sig allt ljós nema hið græna sem það endurvarpar. Ef við lýsum á blaðið með ljósi sem ekki ber í sér neinar grænleitar bylgjulengdir, virðist blaðið ekki lengur grænt.
Hvítum lit má sem sagt lýsa sem blöndu allra bylgjulengda ljóss. Svörtum lit má á hinn bóginn lýsa sem skorti á ljósi. Sá hlutur sem okkur virðist svartur, drekkur í sig allar bylgjulengdir ljóss og endurvarpar sem sagt engu ljósi.
Svartasti flötur sem um getur var gerður af vísindamönnum við Eðlisfræðistofnun Bretlands, skammt frá London, árið 2002.
Efnið, sem kallast NPL Super Black, var gert með því að tæra smásæjar holur í blöndu úr nikkel og fosfór. Yfirborðið drekkur í sig 99,7% alls ljóss sem á því skellur.
Slíkt yfirborð hefur hagnýtt gildi í sjóntækjum þar sem menn vilja forðast ljóstruflanir af völdum endurvarps, svo sem í þeim myndavélum sem notuð eru í geimskipum til að halda áttum. Að auki vænta vísindamennirnir þess að listamenn muni nýta sér þetta ofursvarta efni sem helst mætti líkja við svart flauel.