Röð skriðdreka rúllar niður breiðgötu í Beijing þegar einsamall maður stígur fram og stillir sér upp fyrir framan fremsta bryndrekann. Skriðdrekinn stoppar fáeina metra frá manninum og í nokkrar sekúndur eru maðurinn og skriðdrekinn hreyfingarlausir á breiðgötunni.
Fyrir aftan bætast fleiri skriðdrekar í röðina. Fremsti vagninn beygir til hægri til að keyra fram hjá manninum en hann tekur nokkur skref til hliðar og stillir sér aftur upp fyrir framan hann.
MYNDBAND: Horfðu á “Skriðdrekamanninn” loka fyrir skriðdreka
Herinn drap óbreytta borgara
Þetta fer fram þann 5. júní 1989 og maðurinn fyrir framan skriðdrekann – síðar þekktur sem „skriðdrekamaðurinn“ – hafði stöðvað einn öflugasta her heims, þótt það hafi einungis varað í fáeinar mínútur. Myndir af þessum hugdjarfa Kínverja fóru sem eldur í sinu um heim allan og gerðu hann að tákni fyrir baráttu Kínverja fyrir auknu frelsi.
Skriðdrekarnir sem maðurinn stöðvaði höfðu deginum áður brotið á bak aftur mikil mótmæli gegn kommúnistastjórninni í Kína.
Í sjö vikur höfðu mótmælendur safnast saman á Torgi hins himneska friðar í Beijing til að krefjast pólitískra endurbóta, áður en herinn lagði til atlögu og skaut á almenna borgara. Mörg þúsund þeirra létu þar með lífið.
MYNDBAND: Fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar
Örlög “skriðdrekamannsins” eru ráðgáta
Meira en þremur áratugum síðar er ekki enn vitað hver „skriðdrekamaðurinn“ var, né örlög hans.
Samkvæmt sumum heimildum var maðurinn handtekinn og tekinn af lífi eftir mótmælin.
Blaðamaðurinn Jan Wong hefur þó rætt við heimildamenn innan ríkisstjórnarinnar og staðhæfir að yfirvöld í Kína viti ekki ennþá hver „skriðdrekamaðurinn“ er í raun og jafnframt að hann kunni enn að búa í Kína. Suður-kóreskir fjölmiðlar hafa hins vegar greint frá því að skriðdrekamaðurinn hafi síðar flúið til Taívan.
Árið 2003 tjáði Jiang Zemin, aðalritari kommúnistaflokks Kína frá 1989 til 2002, sig um skriðdrekamanninn. Jiang Zemin hélt því fram að maðurinn hefði „aldrei verið handtekinn“ og bætti við:
„Ég hef enga hugmynd um hvar hann er niðurkominn“.