Heimurinn er fullur af dýrum sem grafa sig í jörð. Nefna má moldvörpur, beltisdýr, ánamaðka, kínverska krabba og körtur sem grafa sig í jörð.
Mörg þessara dýra teljast meindýr og valda umtalsverðum skaða og þau geta mörg grafið á ótrúlegum hraða.
Jarðvegurinn er góður felustaður og í honum er víða að finna næringarríkar rætur og jafnvel önnur dýr sem eru vel æt. Það þarf því engan að undra að meðal flestra flokka þurrlendisdýra sé að finna tegundir sem hafa valið sér bústaði undir yfirborði jarðar.
Moldvarpan er einna þekktust þessara dýra og hún getur grafið 200 metra löng göng á einni nóttu.
Suður-ameríska beltisdýrið er líka vel þekktur grafari og getur grafið sig svo hratt niður í jörðina að heill hópur manna með skóflur að vopni, nær ekki að fylgja því eftir.
Hraði margra þessara dýra fer þó að sjálfsögðu eftir jarðveginum. Sé hann of harður verða þau einfaldlega að gefast upp.
Þetta gildir þó ekki um hina svonefndu “ormfroska” sem eru skyldir salamöndrum og vinna nánast eins og höggborvélar og komast í gegnum mjög harðan jarðveg með því að hamra hann til hliðar með höfðinu.