Upp úr 1950 fundu franskir fornleifafræðingar merkilega hluti í rústum hins forna bæjar Ugarit í Sýrlandi: stafla af leirtöflum sem voru alsettar fleygrúnum. Nánari rannsóknir sýndu skjótt að fundurinn var öllu merkilegri en fornleifafræðingarnir þorðu að vona.
Aldursgreiningin sýndi að leirtöflurnar voru frá því um 1400 f.Kr. og voru gerðar af hinni fornu þjóð Húrríum. Þegar vísindamenn hófust handa við að þýða letrið gátu þeir séð að töflurnar innihéldu röð sálma til heiðurs guðum þjóðarinnar.
Elstu söngvar sögunnar lofsungu guðina – og eina eiginkonu
Flestir af elstu söngvum sögunnar voru samdir til heiðurs mismunandi guðum. Einn maður vék þó frá þessari hefð með ástaryfirlýsingu til látinnar eiginkonu sinnar.
Delfískir sálmar
Ár: Um 128 f.Kr.
Land: Grikkland
Höfundar: Athenaeus og Limenius
„Delfísku sálmarnir“ samanstanda af brotum úr tveimur söngvum sem fundust grafnir á múrvegg í Delfí. Báðir söngvarnir eru lofgjörð til guðsins Apollons og voru vafalítið fluttir við helgiathafnir. Söngvarnir eru fyrstu þekktu tónsmíðar eftir nafngreinda tónlistarmenn.
Seikilos Sulan
Ár: Um 1-1000 e.Kr.
Land: Grikkland
Höfundur: Seikilos
Seikilos-súlan geymir eitthvert elsta lagið með bæði tónlist og texta. Höfundur þess hét Seikilos og hann ritaði lagið til látinnar eiginkonu sinnar, Euterpe en súlan var minningarmark um hana í fornöld. Súla þessi fannst árið 1883 og er nú til sýnis í Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn.
Oxyrhynchos-sálmurinn
Ár: Um 200 e.Kr.
Land: Egyptaland
Höfundur: Óþekktur
Sálmurinn er elsti kristni sálmurinn, þar sem bæði lag og texti koma fram. Hann var að finna meðal þúsunda af papýrusblöðum sem fundust í egypska bænum Oxyrhynchos árið 1918. Textinn er lofgjörð til heilagrar þrenningar – föður, sonar og heilags anda.
Taflan gaf leiðbeiningar
Flestar töflurnar voru brotnar en ein þeirra fangaði skjótt athygli sérfræðinganna. Taflan reyndist innihalda nákvæmar lýsingar á því hvernig bæri að flytja sálmana.
Þessi óþekkti höfundur lagsins útskýrði hvernig einn forsöngvari átti að syngja textann – sem var til hyllingar frjósemisgyðjunni Nikkal – ásamt því hvernig lýruleikari skyldi stilla hljóðfæri sitt og spila lagið.
MYNDBAND: Heyrðu elsta lag sögunnar
Lagið er til í nokkrum útgáfum
Sálmurinn – síðar nefndur „Húrrískur sálmur nr. 6“ – er elsta þekkta lagið sem hefur verið ritað niður. Húrríar þekktu ekkert til nótnaskriftar okkar tíma og leiðbeiningarnar á leirtöflunum eru því opnar fyrir tónlistarlega túlkun.
Fleiri sérfræðingar og tónlistarmenn hafa allt frá því að þessi ævaforni sálmur uppgötvaðist, spilað sínar útgáfur af þessu elsta þekkta lagi sögunnar. Ein þeirra kom fram árið 1972 þegar Anne Kilmer – prófessor við University of California – kynnti sína útgáfu af þessu 3.400 ára gamla lagi. Anne Kilmer hafði þá rannsakað sálminn í heil 15 ár.
Ein vinsælasta útgáfan er frá árinu 2017. Þá flutti hinn frægi þýsk-sýrlenski lagahöfundur, Malek Jandali, sína túlkun á laginu.