Fæðing frönsku kartöflunnar er hulin í þoku sögunnar og sagnfræðingar eru ekki á einu máli um hver var fyrstur til að gæða sér á þessari gullnu kartöflustöng. Samkvæmt sumum sagnfræðingum eru franskar kartöflur upprunnar í suðurhluta Belgíu þar sem veiðimenn meðfram Mas-fljóti steiktu litla fiska í olíu. Um vetur – þegar búið var að borða allan fisk – settu þeir þunnskornar kartöflur í potta fulla af bullandi olíu.
Sagt er að belgískar franskar kartöflur hafi slegið í gegn hjá bandarískum hermönnum í fyrri heimsstyrjöldinni og það var í Bandaríkjunum sem franskar kartöflur urðu algengt meðlæti með hamborgurum. Þar sem franska er ríkjandi tungumál í suðurhluta Belgíu kölluðu Bandaríkjamenn nýju „uppfinningu“ sína french fries.
Fyrstu frönskurnar voru líklega borðaðar í Belgíu fyrir um 300 árum.
Frakkland og Spánn hafa einnig gert tilkall og segjast vera upphafsmenn frönskunnar. Spænskir konkvistadorar voru fyrstu Evrópubúarnir til að komast í tæri við suðuramerísku kartöfluna á 16. öld og mögulegt er að þessi rótarávöxtur hafi verið steiktur í olíu þar eins og margir aðrir þjóðlegir réttir Spánverja. Í Frakklandi geta heimildir þess að franskar kartöflur hafi verið seldar á götunum þegar árið 1790.
Hvað sem öðru líður fer Belgía fram á að UNESCO, menningarmálastofnun Sameinuðu Þjóðanna, viðurkenni uppruna frönsku kartöflunnar í Belgíu og þar með menningararf Belga.