Öldum saman eftir að Spánverjar herjuðu á menningarsvæði í Suður-Ameríku, fluttu skip þeirra gull í tonnatali heim til Spánar. Í fjöllum Mið- og Suður-Ameríku var og er mikið gull. Gullið hefur lent hér eftir klassískan árekstur meginlands- og úthafsfleka í jarðskorpunni. Það er einmitt í sams konar fjöllum sem margar af stærstu gullnámum heims er að finna. Nokkuð af gulli er að finna í öllu fjalllendi en í gullæðum hefur náttúran safnað saman svo miklu gulli að vinnsla er arðbær. Nú teljast þurfa að vera 5 grömm gulls í hverju tonni af klöpp til að vinnsla borgi sig.
Sumar auðugustu gullæðarnar er einmitt að finna á fornum menningarsvæðum indíána í Suður-Ameríku. Sú gullnáma sem nú kallast Yanacocha er t.d. á landssvæði sem tilheyrði ríki Inka og þessi náma hefur hingað til skilað gulli að verðmæti hátt í 700 milljarða króna. Í Perú er líka náman Pataz sem síðustu 100 árin hefur skilað um 170 tonnum af gulli, sem reyndar er meðal mikilvægustu útflutningsvara landsins. Mikið gull er líka að finna í Bólívíu og bæði í Chile og Argentínu er gulliðnaðurinn í örum vexti.
Indíánar áttu málmmeitla og notuðu líka pönnur við gullleit. En þeir réðu ekki við að nýta gullkorn sem voru smærri en svo að þau sæjust með berum augum. Þegar pönnur eru notaðar til að skola gull nú til dags er dropa af kvikasilfri bætt í til að fanga fíngerðustu gullkornin. Indíánar notuðu á hinn bóginn hvorki kvikasilfur né önnur efni sem nú eru notuð við gullvinnslu.