Nöglin sjálf er gerð úr hornkenndu efni sem kallast keratín og er næstum gegnsætt prótín.
Ljósrauðleitur blær á nöglunum stafar af því að í gegnum þær sést niður í æðarnar undir þeim. Innst er naglrótin, sem teygir sig fáeina millimetra inn undir húðina og niður á við.
Naglrótin afmarkast af hvítri hálfmánalögun sem nefnist „lunula“. Frumurnar í naglrótinni framleiða og gefa frá sér kreatín sem að hluta streymir inn undir nöglina, sest á hana og gerir hana þykkari, en að hluta sest aftan á hana og ýtir henni fram þannig að hún lengist. Þannig vex nöglin þótt hún sé í rauninni gerð úr dauðu efni. Neglur vaxa að meðaltali 0,1 mm á dag.
Neglurnar gegna því hlutverki að vernda fingurgómana og fremsta hluta tánna, en jafnframt auka þær næmi hinna fjölmörgu tilfinningatauga í fingurgómunum.
Þegar við snertum eitthvað með fingurgómi, eykur nöglin örlítið á þrýstinginn á tilfinningataugarnar og kemur þeim þannig til að senda fleiri taugaboð til heilans.