Árið 1620 lagði þriggja mastra skipið Mayflower úr höfn frá Southampton í Englandi og setti stefnuna yfir Atlantshafið til Ameríku. 66 dögum síðar gengu 102 farþegar skipsins á land í Massachussetts eftir langa og erfiða ferð í miklum stórviðrum og öldugangi.
Þessi langa ferð Mayflower var þó ekki óvanaleg því um margar aldir hafði ferðin yfir Atlantshaf verið tímafrek og áhættusöm. En á 19. öld varð mikil breyting á þessu þegar gufuskipin komu fram á sjónarsviðið.
Árið 1838 tók ferðalagið hjólagufuskipið SS Sirius rúma 18 daga en undir lok aldarinnar höfðu gufuskip með stærri vélar og öflugari skrúfur minnkað ferðatímann niður í tæpa sex daga.
Næsti áfangi kom þegar loftrýmið yfir Atlantshafið var sigrað, fyrst með loftskipum og síðar flugvélum. Árið 1936 flaug þýska loftskipið Hindenburg til BNA á einungis tveimur dögum og 19 tímum meðan Douglas DC-4 flugvél fór þetta á 14 tímum árið 1945.
Hljóðfráa flugvélin Concorde náði árið 1976 að skera 66 daga ferð Mayflowers niður í einungis 3 klukkustundir og 30 mínútur.