Franska byltingin hófst árið 1789 og meðan á henni stóð komu fram ákveðnar óskir um nýja staðla, einnig á sviði náttúruvísinda. Árið 1791 ákvað Akademía vísindanna að taka upp samræmda mælikvarða fyrir mál og vog og komu sér saman um að skilgreina einn metra sem einn tugmilljónasta hluta af fjarlægðinni frá miðbaug til annars pólsins.
Þessi fjarlægð var þó ekki nákvæmlega þekkt og því var ákveðið að gera nákvæmar lengdarmælingar eftir þeim lengdarbaug sem liggur um París. Væri hægt að mæla nákvæmlega tiltekna vegalengd, yrði afgangurinn ekki annað en hreint reikningsdæmi. Niðurstaðan varð sú að mæla vegalengdina frá Dunkerque til Barcelona og sumarið 1792 hófu tveir landmælingamenn verkið og byrjuðu hvor á sínum enda. Byltingin var enn á fullri ferð og landmælingamennirnir máttu reglubundið sæta handtökum og ákærum fyrir njósnir, en voru þó ávallt sýknaðir á endanum.
Árið 1799 voru allir útreikningar staðfestir og síðari tíma mælingar frá gervihnöttum hafa leitt í ljós að í þeim skeikaði ekki nema 0,2 millimetrum. Platínustöng var framan af notuð sem staðalmetri en síðar var í stað hennar notuð stöng úr blöndu af platínu og irridíum. Staðalstöngin var varðveitt í París. Árið 1960 var skilgreiningunni breytt og metrinn nú gerður jafn 1.650.763,73 bylgjulengdum þess ljóss sem eðalgasið krypton-86 sendir frá sér.
En frá árinu 1983 hefur metrinn verið skilgreindur sem sú vegalengd sem ljósið fer í tómu rúmi á 1/299.792.458 úr sekúndu.