Auglýsingar járnbrautafyrirtækjanna skjóta ekkert mjög langt fram hjá markinu. Gangi lestin fyrir rafmagni frá endurnýjanlegum orkugjafa en bíllinn fyrir bensíni er þetta nærri lagi.
Hver lítri af brenndu bensíni myndar heil 2,38 kg af koltvísýringi, þar eð hver kolefnisfrumeind bindur sig við tvær súrefnisfrumeindir úr andrúmsloftinu. Jafnvel bíll sem eyðir bara ríflega 4 lítrum á hundraðið og kemst þannig 24 km á einum bensínlítra, blæs þannig frá sér a.m.k. 3 kg af CO2 á 30 km.
Bensín tekur til sín súrefni
Bruninn sem knýr bílinn blandar kolefni og súrefni og breytir 1 lítra af eldsneyti í mun þyngri koltvísýring.
1. Bensín varðveitir kolefni
Einn lítri bensíns vegur um 750 g og í því eru kolefnissambönd, svo sem oktan, C8H18. Kolefnið er 87% af þyngdinni. Sem sagt 650 g af kolefni í hverjum bensínlítra.
2. Bruninn losar orku
Við bruna binst oktan súrefni úr loftinu og myndar CO2 og vatn. Kolefni er um 27% af CO2-sameind þar eð atómþyngd kolefnis er 12 en súrefnis 16.
3. Súrefni þyngir útblástur
Bensínvélin nýtir kolefni svo vel að nánast allt binst súrefni. 650 g í 1 bensínlítra soga því til sín 1.730 g súrefnis úr loftinu og mynda 2,38 kg CO2 úr hverjum lítra.
Dísilvél losar 2,66 kg á hvern lítra en er nokkru sparneytnari en bensínvél, þannig að í heildina verður útblásturinn ívið minni.
Árið 2019 reiknuðu breskir vísindamenn út losun mismunandi ferðamáta.
Innanlandsflug kom verst út með 255 gramma losun á farþega á hvern km.
Bensínbíll losar um 192 grömm og dísilbíll 171 gramm sem samsvarar 5,8 og 5,1 kg losun koltvísýrings á 30 km leið. En séu fleiri en einn í bílnum lækkar losun á mann auðvitað mikið.
Breskir rafbílar losa 53 grömm á km en á Norðurlöndum er sú tala niðri undir núllinu vegna þess að rafmagnið kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum.
Umhverfisvænust er lestarumferðin. Hin rafknúna Eurostar lest losar til dæmis aðeins 6 g af CO2 á mann á hvern km.
Súrefnið hverfur hægt
Losun kolefnis úr jarðefnaeldsneyti sem bindur súrefni úr gufuhvolfinu er hægt að mæla beint. Á síðustu 20 árum hafa þannig horfið um 19 af hverjum 1.000 súrefnissameindum gufuhvolfsins.
Þessi minnkun súrefnis er þó tæpast nein ógnun við lífverur.
Jafnvel samkvæmt svartsýnustu spám loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, lækkar súrefnishlutfall gufuhvolfsins aðeins úr 20,94% í 20,77% árið 2300.