HIV-smit verður ekki lífshættulegt fyrr en eftir mörg ár þar eð veiran tekur sér langan uppbyggingartíma uns hún verður nægilega útbreidd í líkamanum til að skapa alnæmi.
HIV-veira kemur erfðaefni sínu, tveimur eins RNA-sameindum, inn í ónæmisfrumur, sem kallast CD4+, í blóðinu.
RNA-sameindirnar umkóða sig í DNA-sameind sem í eru þau níu gen sem mynda HIV-veiruna. Genunum skeytir veiran inn í litninga CD4+-frumunnar og þau verða þannig hluti af erfðamengi frumunnar.
Dreifist í felum
Veirugenin virkjast oftast fljótlega og taka að mynda nýjar veiruagnir, sem brjótast út úr ónæmisfrumunni og drepa hana. Á fáeinum vikum dreifir HIV-smitið sér til mikils fjölda af móttækilegum CD4+-frumum.
Þetta veiklar ónæmiskerfi sjúklingsins um stundarsakir og hann fær einkenni sem líkjast inflúensu, en fæstir gefa þó nokkurn gaum.
Næst leggjast HIV-veirurnar í eins konar dvala. Sjúkdómseinkennin hverfa en veiran heldur áfram að breiðast út án þess að valda einkennum.
Meinlitlir sjúkdómar draga til dauða
Dvalatíminn er oft á bilinu 5-10 ár. Á þeim tíma fjölga veirurnar sér hægt og rólega í blóðinu og brjóta smám saman niður CD4+-frumurnar, þar til ónæmiskerfið er að heita má hrunið og sjúkdómurinn er kominn á það stig sem kallast alnæmi.
Þá er svo komið að meinlitlir sjúkdómar og almennt skaðlitlar veirur geta orðið sjúklingnum að bana.
Veirur leggjast í dvala
HIV-veirur leggjast í dvala í allt að tíu ár og sjúklingurinn verður einskis var. Smám saman fjölgar eyðniveirunum en CD4+-frumum fækkar og ónæmiskerfið brotnar niður.
Lyfjablanda heldur veirunni í skefjum
Eyðni er enn ekki læknanleg, en síðan árið 1996 hefur læknum tekist að hafa heimil á sjúkdómnum með blöndu þriggja eða fleiri lyfja, sem virka a.m.k. á tvennan hátt, t.d. með því að stöðva framleiðslu bæði RNA-sameinda og prótína sem eru nauðsynleg til að mynda nýjar veirur.
Lyfjablöndurnar gera eyðni að ólæknandi sjúkdómi, sem þó er ekki banvænn.