Í Spielberg-myndinni Indiana Jones og konungsríki kristalshöfuðkúpanna koma fyrir 13 kristalshöfuðkúpur í skáldaðri frásögn.
Í raunveruleikanum eru þekktar 12 kristalshöfuðkúpur. Af þeim eru 9 í einkaeign en hinar er að finna á British Museum í London, Smithsoninan-safninu í Washington og Quai Branly-safninu í París.
Arfsagnir herma að höfuðkúpurnar séu komnar frá Inkum, Olmekum eða Aztekum og samkvæmt því ættu þær ekki að vera yngri en um 500 ára.
Nýjar rannsóknir hafa hins vegar sýnt að höfuðkúpurnar eru miklu yngri og trúlega smíðaðar af evrópskum handverksmönnum undir lok 19. aldar.
Þær af þessum gagnsæu höfuðkúpum sem varðveittar eru á söfnum hafa nýlega verið rannsakaðar með margvíslegri tækni, allt frá öreindahraðli til útfjólublárra skanna.
Rannsóknirnar sýna að við smíðina hefur verið beitt mun þróaðri áhöldum en indíánar fyrir daga Kólumbusar höfðu yfir að ráða.
Vísindamennirnir segja höfuðkúpuna í British Museum hafa verið skorna úr kristalsblokkinni með nútíma verkfærum og slípaða með slípirokk, en slíkt tæki geta amerískir indíánar ekki hafa notað þar eð þeir þekktu ekki hjólið.
Rannsóknirnar sýndu líka að kristallarnir eru ekki frá Suður-Ameríku heldur Sviss eða Þýskalandi. En hitt er enn ráðgáta, hver smíðað hefur þessar höfuðkúpur.
Þó má rekja tvær þeirra til franska forngripasalans Eugène Boban, en eftir að hann lést árið 1909 kom í ljós að hann hafði ekki verið allur þar sem hann var séður. Það var Boban sem seldi höfuðkúpurnar sem nú eru á söfnunum í London og París.