Þegar flatur steinn skoppar á yfirborði vatns er það í samræmi við þriðja lögmál Newtons sem segir að hverju viðbragði fylgi gagnviðbragð.
Þegar steinninn skellur á vatninu skilar vatnið orku til baka í steininn sem flýgur aftur upp í loftið.
Til viðbótar eru svo ýmsir þættir sem ákvarða hversu oft steinninn fleytist áfram áður en hann sekkur.
Prófessorinn Lydéric Bocquet hjá Lyonháskóla í Frakklandi setti fyrirbrigðið upp í fjölmargar jöfnur, þar sem hann tók tillit til lögunar steinsins, hraða og snúnings, mótstöðu vatnsins og að sjálfsögðu þyngdaraflsins.
Samkvæmt niðurstöðum Bocquets á halli steins helst að vera 10-20 gráður til að halda orkunni sem lengst. Snúningurinn er líka mikilvægur því hreyfingin heldur steininum stöðugum á svifinu og kemur í veg fyrir kollsteypu, rétt eins og gildir um frisbídisk. Um 14 snúningar á sekúndu henta best.
Lögun og stærð steinsins skipta líka miklu. Steinninn þarf að vera flatur og dálítið kúptur og um lófastór til að þyngdin sé næg.
Franski prófessorinn er líka þeirrar skoðunar að dálitlar lægðir í yfirborð steinsins séu kostur þar eð þær dragi úr vatnsmótstöðunni.
Núverandi heimsmet sem skráð er í heimsmetabók Guinnes er 88 skopp og það setti Bandaríkjamaðurinn Kurt Steiner 2013, kallaður Fjallamaðurinn eða „Mountain Man“.