Sterka efnið í chili heitir capsaícín og skapar brennandi tilfinningu í munni ásamt svita á enni.
Efnið hefur áhrif á taugaenda í munni, nefi, maga og húð og þaðan berast heilanum boð eins og þegar við brennum okkur eða eitthvað ertir húðina. Taugarnar senda þessi boð með því að gefa frá sér sérstakt boðefni, kallað SP (substance P), og ef maður borðar chili að jafnaði, gengur á birgðir þessa efnis og þá dregur um leið úr sársaukaboðunum.
Þannig er smám saman hægt að venja sig á að borða æ sterkari mat. Þol gagnvart capsaícíni þarf að byggja upp aftur, ef maður tekur langt hlé frá sterkum mat. Sumt fólk þolir sterkan mat betur en annað, þar eð það hefur færri bragðlauka en fólk hefur að meðaltali.