Þegar langfætlur fara um, þá hangir búkur þeirra í e.k. stoðvirki ganglima sem eru afar stöðugir. Sumar tegundir eru með hreyfanlegan lið á endanum – rétt eins og griphali apa – sem má vefja utan um t.d. stöngla til að tryggja festu, stöðugleika og aukna klifurgetu. Sést hefur til þeirra grípa um limi annarra langfætlna með slíkum hætti.
Langfætlurnar geta auk þess losað sig við ganglimi ef óvinur grípur í þá, en þá vaxa ekki nýir út aftur. Þrátt fyrir að ganglimirnir hjá mörgum langfætlum séu örþunnir eru í raun litlar sinar og vöðvar innan í þeim sem sjá um hreyfigetuna. En fæturnir hafa einnig aðra og sérhæfari virkni. Langfætlurnar bíða oft átekta með fæturna útglennta á undirlaginu. Þannig virka þeir sem eins konar köngulóarvefur og geta numið minnstu hreyfingar hjá litlum dýrum sem fara hjá.