Það er útbreidd skoðun að leðurblökur séu blindar, en svo er ekki. Vissulega eru sumar tegundir svo augnsmáar að augun ná ekki góðri mynd. Engu að síður dugar sjónin til að greina hreyfingu og sjá mun ljóss og myrkurs. Hið síðarnefnda er mikilvægt til að halda sólarhrings- og árstíðatakti, svo sem til að skynja hvenær eigi að afla fæðu á náttarþeli eða hvenær tími er til kominn að leggjast í vetrardvala.
Flestar leðurblökur nota bergmálshljóð til að rata í myrkri. Þær gefa frá sér hljóð og endurvarpið skapar þeim mynd af umhverfinu og sýnir t.d. hvar fiðrildi sé á flögri. Þar eð leðurblökur hafa þennan hæfileika gæti maður haldið að þær þyrftu ekki á sjón að halda. En augun virka sem sagt – jafnvel þótt sjónin sé afar léleg hjá þeim tegundum sem nýta bergmálshljóð.