Þegar tók að vora árið 1940 náðu Finnar árangri sem þýski herinn gat ekki státað af nokkrum árum síðar: Þeir neyddu Rauða herinn að samningaborðinu.
Fyrir friðarsamninga þessa höfðu Finnar og Sovétríkin barist í miskunnarlausu stríði í meira en þrjá mánuði, eftir að 600.000 sovéskir hermenn höfðu ráðist inn í Finnland þann 30. nóvember 1939.
Rauði herinn hafði vænst þess að vinna skjótan sigur á einungis fáeinum vikum þar sem Sovétríkin höfðu fjórum sinnum fleiri hermenn, 200 sinnum fleiri skriðdreka og 30 sinnum fleiri orrustuflugvélar en Finnar. En Rússar uppgötvuðu fljótt að Finnar voru bæði þrautseigir, betur undirbúnir og klókari í að nýta sér veturinn sér til hagsbóta.

Finnskir hermenn þekktu landið eins og lófann á sér og voru langtum betur undirbúnir fyrir stríð í vetrarhörkunum heldur en rússneskar herdeildir.
Finnland varð að afsala sér landi
Þegar veturinn tók að losa sín köldu tök var Rauði herinn örmagna og hafði tapað ótal mörgum hermönnum. Á sama tíma voru Finnar að verða uppiskroppa með skotfæri.
Báðir aðilar voru því opnir fyrir viðræðum um frið og var samkomulag milli þeirra undirritað þann 12. mars 1940. Þar með lauk Vetrarstríðinu sem hafði kostað um 26.000 Finna og minnst 125.000 sovéthermenn lífið.
Finnar máttu þó gjalda fyrir friðinn háu verði. Þeir þurftu að láta af hendi um 13% af landsvæðum sínum og um fimmtung af iðnaði til Sovétríkjanna í friðarsamkomulaginu.
Á móti kom að Finnar héldu sjálfstæði sínu og samkomulagið batt enda á tilraun Jósefs Stalíns við að innlima nágrannaríkið – í öllu falli um stundarsakir, því tæpum 15 mánuðum síðar voru Finnland og Sovétríkin aftur komin í stríð.
Það var fyrst eftir síðari heimsstyrjöldina sem öllu varanlegri friður milli Finna og Rússlands komst á. Friður sem grundvallaðist m.a. á því að Finnar myndu aldrei vinna gegn sínu öfluga nágrannaríki.