Orrustuflugmenn verða oft fyrir hröðun sem er 9 sinnum öflugri en þyngdaraflið. Þá er talað um álag sem nemur 9 g, sem getur reynst skaðlegt enda þrýstist blóðið niður í fætur og þannig frá heilanum. Það leiðir í fyrstu til að flugmaðurinn missir litaskyn eða fær rörsýn rétt eins og hann sjái umhverfið sitt í gegnum papparör. Langvarandi álag g-krafts getur leitt til þess að flugmaðurinn blindist eða jafnvel missi meðvitund. Því eru orrustuflugmenn klæddir sérstökum búningi með buxum sem blása má upp.
Í flauginni tengist búningurinn þrýstiloftskerfi flaugarinnar og þess meiri g-kraftur sem myndast, því meira af lofti er sjálfkrafa dælt inn í búninginn. Þrýstiloftið hindrar blóðið í að safnast saman í fótleggjum flugmanns og tryggir þannig að blóðflæðið til heilans sé nægjanlegt. Ennfremur þarf flugmaðurinn að spenna vöðvana í öllum kroppnum til að vinna gegn verkun g-kraftsins.
Það er nokkuð sem flugmenn læra við þjálfun. Margvíslega g-kraftsbúninga er að finna. Sumir þeirra eru með vökva í stað þrýstilofts, en eiga það sameiginlegt að þeir minnka álagið mest um 1g.