Hvernig virkar teflon?

Hvers vegna brenna matvörur ekki fastar við teflonpönnu? Úr hverju er þetta efni og hvernig er því haldið föstu við pönnuna?

BIRT: 04/11/2014

LESTÍMI:

< 1 mínúta

Teflon er vörumerki og heitið nær yfir ýmis plastefni sem eiga það sameiginlegt að auk kolefnisfrumeinda er í þeim frumefnið flúor.

 

Í tefloni má segja að langar kolefniskeðjur séu innpakkaðar í flúor. Efnabinding kolefnis og flúors er svo sterk að segja má að teflon verði ekki fyrir áhrifum af öðrum efnum eða geti myndað efnasambönd við þau. Til viðbótar er teflon svo afar slétt efni.

 

Teflon er slitsterkt efni sem nota má á fjölmörgum sviðum.

 

Þetta slétta efni má t.d. nota í smurningu, yfirborð sem hrindir frá sér óhreinindum og í rúðusköfur sem renna léttilega yfir gluggarúðuna.

 

En best er þetta efni þó þekkt sem húðun í pottum og pönnum, þar sem það auðveldar öll þrif.

 

Það teflon sem notað er í húðun á steikarpönnum kallast PTFE, en sú skammstöfun stendur fyrir “polytetrafluoraetylen”.

 

Vegna þess hve teflon er slétt á matur einnig erfitt með að festa sig við þetta efni og af því leiðir m.a. að ekki þarf mikla fitu til steikingarinnar.

 

Fyrsta teflonhúðaða steikarpannan kom á markað árið 1954, en þá voru liðin 16 ár frá því að vísindamenn hjá DuPont-fyrirtækinu uppgötvuðu efnið fyrir tilviljun.

 

Einmitt vegna þess hve efnið er fráhrindandi, er heldur ekki alls kostar auðvelt að fá það til að festa sig við málmyfirborð pönnunnar. Til að ná þessari festingu er pannan fyrst sandblásin, þannig að yfirborðið verður mjög gróft.

 

Að því loknu er sérstökum grunni úðað á pönnuna og þá loks er svo unnt að úða tefloninu á pönnuna, en það er gert við mjög háan hita. Bræðslumark teflons er við 375 gráður og rétt undir því hitastigi verður efnið meðfærilegra og fært um að festa sig við yfirborð pönnunnar.

 

Teflon var lengi þekkt sem sléttasta efni veraldar, en nú síðast hafa vísindamenn við Argonne-rannsóknastofnunina í Bandaríkjunum þróað koltrefjaefni sem er um 40 sinnum sléttara en teflon.

 
 

BIRT: 04/11/2014

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.