Það er rétt að 20 sekúndum eftir flugtak er geimferjunni snúið á hvolf. Til þess eru notaðar 38 litlar stýriflaugar. Þetta er m.a. gert til að létta álagi á nef og stél þegar ferjan sker sig upp í gegnum neðri hluta gufuhvolfsins á miklum hraða, en einnig til að tryggja áhöfninni sýn að sjóndeildarhring, ef til þess kæmi að nauðlenda þyrfti ferjunni.
Þegar geimferjan er komin á braut um jörðu er hún orðin þyngdarlaus og strangt til tekið er þannig tæpast hægt að tala um “upp” eða “niður” og þar af leiðandi ekki heldur hvernig geimferjan snýr.
En það er hins vegar skemmtilegra fyrir geimfarana að geta horft “niður” eða “upp” á reikistjörnuna okkar. Það er líka rétt að geimferjan er látin fara aftur á bak. Þetta er þó einungis gert í skamma stund fyrir lendingu. Þá eru tveir stórir eldflaugahreyflar að aftan notaðir til að draga úr hraðanum.
Eftir þrjár mínútur, þegar hraðinn hefur minnkað nægilega, er geimferjunni snúið aftur þannig að hún kemur inn í gufuhvolfið með nefið á undan og í um 40 gráðu halla. Með þessu móti nær hitaskjöldurinn undir geimferjunni að draga í sig megnið af núningsmótstöðunni, en síðan er ferjunni lent svipað og svifflugu