„Þetta er mýta skálduð af Evrópubúum sem töluðu um frumskóga og stór svæði ósnortin af mönnum“.
Þannig hljóða orð þýska vísindamannsins Heiko Prümers sem kunngjörði í maí á þessu ári það nýjasta sem fornleifafræðingateymi hans hafði fundið: Tvær áður óþekktar borgir undir þéttvöxnum gróðrinum við Amasónfljót í Bólivíu.
Borgirnar fundust með aðstoð leysitækni sem notuð var til að „skera“ í gegnum frumskóginn og kortleggja borgirnar. Rannsóknirnar leiddu í ljós að borgirnar tvær teygðu sig yfir afar stórt svæði og höfðu m.a. að geyma píramída, vegi og áveituskurði sem notaðir voru til að vökva uppskeruna.

Um níutíu prósent íbúanna í nýja heiminum létu lífið eftir komu Evrópubúa til álfunnar.
Þeir innfæddu voru kúgaðir og drepnir í Ameríku
Á fyrstu öldum eftir komu Kólumbusar árið 1492 voru upprunalegu menningarheimarnir í Nýja heiminum lagðir í rúst í takt við aukna landvinninga Evrópubúanna.
– 1492: Kólumbus kemur til Ameríku
Ítalski landkönnuðurinn Kristófer Kólumbus er að leita að styttri leið til Indlands þegar hann uppgötvar Nýja heiminn fyrir tilviljun. Þann 12. október 1492 kemur hann í land á eyjunni San Salvador á Bahamaeyjum. Tveimur vikum síðar uppgötvar hann Kúbu.

– 1521: Cortés lagði undir sig ríki Azteka
Spánverjinn Hernán Cortés og nokkur hundruð landvinningamanna hans gerðu samkomulag við ættflokka á svæðinu og lögðu síðan undir sig ríki Azteka. Cortés fór með sigurorð af Aztekum eftir einungis tvö ár en þeir réðu á þessum tíma ríkjum í helsta stórveldinu í Ameríku.

– 1533: Pizarró knésetti Inka
Landvinningahershöfðinginn Francisco Pizarro hafði einungis yfir litlum her að ráða þegar hann réðst á hið volduga Inkaríki. Pizarró lét taka Inkakonunginn Atahualpa höndum og krafðist óheyrilegs lausnargjalds í skiptum fyrir konunginn sem hann lét svo engu að síður taka af lífi og settist síðan sjálfur á valdastól í ríkinu.

– 1697: Síðasta vígi Mayanna féll
Baskneski landvinningamaðurinn Martín de Ursúa og 235 hermenn hans lögðu undir sig síðasta vígi Mayanna, í borginni Nojpetén þar sem nú er Gúatemala. Þar með hafði síðasta konungsríki Maya lotið í lægra haldi fyrir Evrópubúunum.

– 1890: Sléttuindíánarnir þvingaðir út á verndarsvæðin
Ríkisstjórn Bandaríkjanna hrakti sléttuindíánana frá búsvæðum indíánanna á 19. öld og átök meðal þeirra voru alltíð. Sem dæmi má nefna fjöldaaftökur hermanna á um 300 indíánum í víkinni sem nefndist Wounded Knee árið 1890. Örfáum árum síðar voru flestir indíánar þvingaðir til að taka sér búsetu á sérlegum verndarsvæðum.

Milljónir bjuggu í Ameríku
Borgirnar tvær eru nýjasta sönnun þess að Ameríka var hvorki frumstæður né óbyggður staður fyrir komu Kólumbusar til Nýja heimsins árið 1492.
Öðru nær, því í Suður-, Mið- og Norður-Ameríku bjuggu milljónir manna og margir þeirra áttu heima í háþróuðum stórborgum, jafnvel á evrópskan mælikvarða.
Vísindamönnum kemur þó ekki saman um hver íbúafjöldi Nýja heimsins hafi verið á þessum tíma. Sumir telja íbúana hafa verið um átta milljónir talsins en aðrir giska á hundrað milljónir. Ekki þykir fjarri sanni að hartnær 60 milljón manns hafi búið í Nýja heiminum þegar Kólumbus og menn hans bar að garði.
Evrópskir sjúkdómar drápu
Óháð því hver íbúafjöldinn kann að hafa verið, er víst að íbúunum fækkaði gífurlega á 16. öld þegar evrópskir landnemar hófu innreið sína.
Með Evrópubúunum námu nefnilega einnig land sjúkdómar sem heimamenn höfðu ekki komist í tæri við fyrr og áður en langt um leið höfðu kólera, mislingar, taugaveiki og kúabóla þurrkað út milljónir íbúanna. Í Mexíkó einu fækkaði íbúunum úr 30 milljónum í einungis þrjár á aðeins fimmtíu árum.