Þegar Elísabet II. féll frá 96 ára gömul þann 8. september 2022 hafði hún setið í hásæti Breta í heil 71 ár, lengst allra konunga eða drottninga.
Á þessum langa tíma var fjöldi þeirra landa sem Elísabet II. ríkti yfir breytilegur, því fjölmörg lönd sögðu skilið við Stóra-Bretland og urðu að lýðveldum.
Samanlagt ríkti Elísabet II. yfir 32 mismunandi fullvalda ríkjum og í 15 af þessum löndum var Elísabet II. ennþá æðsti ríkisstjórinn þegar hún lést.
Elísabet 2. var drottning Malaví frá árinu 1964 til ársins 1966, þegar landið varð lýðveldi.
Afríkubúar kvöddu
Valdatími Elísabetar II. einkenndist af miklum umbreytingum þar sem hið volduga breska heimsveldi leystist smám saman upp.
Frá því að vera stórveldi á heimsvísu minnkaði heimsveldið stöðugt, allt eftir því sem sífellt fleiri nýlendur í Afríku og Karabíska hafinu lýstu yfir sjálfstæði frá Bretum upp úr 1960 og 1970.
Elísabet II. hélt þó stöðu sinni sem einvaldur í nokkur ár í mörgum nýjum afrískum þjóðríkjum eftir sjálfstæði þeirra en flest urðu þau síðan að lýðveldum með þingbundinni ríkisstjórn.
Með þessum hætti missti Elísabet yfirráð sín í m.a. Ghana, Nígeríu, Úganda og Malaví.
Smáríki drottningarinnar
Á valdatíma sínum var Elísabet II. drottning í mörgum af minnstu sjálfstæðu ríkjum heims – m.a. eyríkinu Tuvalu sem er tæplega 1/10 af flatarmáli Reykjavíkur.
Saint Kitts og Nevis
Nýlendunám: 1623 og 1628
Sjálfstæði: 1983
Flatarmál: 261 km2
Íbúafjöldi: Um 48.000
Bretar ruddu land undir ræktun á sykurreyr á 17. öld sem er ennþá ein helsta tekjulind ríkisins ásamt túrisma. Ríkið þarf að flytja inn nær allar nauðsynjavörur eins og rafbúnað og drykkjarvörur.
Antigua og Barbuda
Nýlendunám: 1632 og 1678
Sjálfstæði: 1981
Flatarmál: 442 km2
Íbúafjöldi: Um 101.000
Spánverjar og Frakkar voru fyrstir Evrópubúa til að leggja hald á Antigua og Barbuda en yfirgáfu eyjarnar vegna skorts á drykkjarvatni. Í dag reiða eyjaskeggjar sig nær algerlega á ferðamennsku sem skilar þeim 80 % af tekjunum.
Tuvalu
Nýlendunám: 1892 og 1916
Sjálfstæði: 1978
Flatarmál: 26 km2
Íbúafjöldi: Um 11.900
Tuvalu samanstendur af litlum kóralrifum og eyjum og er eitt minnsta ríki heims. Hækkandi sjávarborð ógnar tilveru þeirra, enda er hæsti punktur eyjanna aðeins fimm metrum yfir sjávarmáli. Samkvæmt spám verður óbyggilegt þar um árið 2060.
Saint Vincent og Grenadines
Nýlendunám: 1763
Sjálfstæði: 1979
Flatarmál: 389 km2
Íbúafjöldi: Um 104.000
Bananarækt er helsti hornsteinninn í efnahag eyríkisins en á síðari árum hafa ferðamenn streymt til Saint Vincent og Grenadines – einkum eftir að tökur á kvikmyndinni „Pirates of the Caribbean“ fóru fram á eyjunum.
Suðrænar eyjar urðu eftir
Í karabíska hafinu og Kyrrahafi var málum öðruvísi háttað. Þar ríkti Elísabet II. yfir fjölda smáríkja en sum þeirra lýstu yfir sjálfstæði upp úr 1970.
Á meðan afrísku löndin slitu tengsl sín við Elísabetu II. ákváðu mörg smáríkin að fara aðra leið og viðhalda tengslum sínum við bresku krúnuna. Voru það einkum pólitískar og efnahagslegar ástæður sem réðu þeirri ákvörðun.
Enn þann dag í dag hafa framandi eyríki eins og Salómonseyjar, Tuvalu og Saint Luca ennþá breskan einvald – núna Karl 3.