Í kappi við tímann

Appollo 16. seinkar þegar varakerfið bregst. Tímunum saman svífa geimfararnir í óvissu og þegar Houston gefur þeim loks grænt ljós til lendingar á tunglinu hefur leiðangurinn styst um heilan dag.

BIRT: 04/11/2014

LESTÍMI:

7 mínútur

Það eru slæmar fréttir sem læknar NASA færa hinum 36 ára Kenneth Mattingly í apríl 1972: Úr blóðprufu frá þessum verðandi geimfara hafa þeir fundið aukið magn galllitarefnis – merki um að hann kunni að vera með sýkingu í lifur. Með einungis tvær vikur í geimskot eru þetta hörmulegar fregnir og í annað sinn á einungis tveimur árum eru fyrirætlanir Mattinglys í uppnámi. Vorið 1970 þurfti hann að víkja úr Appollo 13.-leiðangrinum aðeins þremur dögum fyrir brottför, þar sem læknar óttuðust að hann væri smitaður af rauðum hundum.

Nú hangir ferill Mattinglys sem geimfara enn og aftur á bláþræði – næstum þriggja ára þjálfun gæti verið til einskis, og verst af öllu: Þar sem aðeins tveir Appollo-leiðangrar eru fyrirhugaðir er ekki útlit fyrir að Mattingly öðlist nokkru sinni tækifæri til að komast til tunglsins. Og því er honum svo mikið létt þegar læknar slá af sjúkdómsviðvörunina fjórum dögum síðar, að hann þarf varla geimflaug til að hefja sig á loft frá jörðu.

En sú gleði varir ekki lengi: Þann 20. apríl, fjórum dögum eftir geimskot Appollo 16., lendir Mattingly í vandræðum með tengingu á tunglferjunni Orion, en um borð í henni eru John Young og Charles Duke. Stjórnfarið Casper, sem Mattingly stýrir, er staðsett á fleyglaga braut milli 15 og 113 km yfir tunglinu og meðan Orion flýgur í átt að lendingarstaðnum er fyrirhugað að Mattingly skuli flytja Casper inn á hringlaga braut um 111 km yfir mánanum.

Þegar hann kannar kerfisbundið varakerfið til að stýra eldflaugamótornum uppgötvar hann bilun. Í hvert sinn sem hann ræsir kerfið tekur Casper að nötra. „Þetta virkar ekki,“ staðfestir hann upphátt við sjálfan sig. Í talstöðinni setur hann flugstjórann John Young inn í vandann og þrátt fyrir að flugstjórinn með heilar fjórar geimferðir að baki sé einhver sá reyndasti meðal geimfaranna getur hann ekki leyst vandann. Né heldur Charles Duke, sem rétt eins og Mattingly, er í jómfrúargeimför sinni.

Nú óttast þeir allir þrír að stjórnstöðin muni slá af leiðangurinn löngu áður en hann hefur eiginlega komist í gang. Á jörðu niðri reyna menn að öðlast yfirsýn yfir umfang vandans meðvitaðir um að skjótra ráða er þörf. Reynist Mattingly nauðbeygður af einhverjum sökum til að nota varakerfið fyrir eldflaugamótorinn án þess að hann virki geta geimfararnir lent í óþægilegum aðstæðum þar sem þeir, rétt eins og áhöfnin um borð í Appollo 13, neyðast til að nota tunglferjuna sem björgunarbát. En áður en fullbúið er að greina vandamálið lætur stjórnstöðin vera að mála skrattann á vegginn. Eitt er þó ljóst: Tungllendingunni verður að fresta um nokkra tíma.

Kannski ná geimfararnir ekki að lenda

Klukkustundum saman hringa Casper og Orion í fylkingu um tunglið meðan verkfræðingar á Jörðu rannsaka þann gagnastraum sem berst frá Casper. Eftir því sem tíminn líður verða geimfararnir stöðugt áhyggjufyllri – sólin er að rísa upp yfir Descartes-hálendinu þar sem Orion er ætlað að lenda en þegar næsta dag verða aðstæður á svæðinu ekki jafn heppilegar til lendingar.

Því lengri tími sem líður þar til ákvörðun er tekin, þess ólíklegra er að John Young og Charles Duke nái að lenda á tunglinu. Klukkan 17:55 – fjórum stundum og 28 mínútum eftir bilanatilkynningu Mattinglys – hefur Houston komist að niðurstöðu. Útreikningar sýna að varakerfið virkar í raun. Stjórnboðin ná ágætlega til eldflaugamótorsins og þrátt fyrir að hann kunni að hristast nokkuð er það innan ásættanlegra marka. Leiðangurinn getur haldið áfram, hljómar úrskurðurinn.

Lent á hinu dularfulla hálendi

„Waau! Whoa, man! Loks er gamli Orion hér, Houston. Frábært,“ tilkynnir tunglferjuflugmaðurinn Charles Duke þegar Orion loks, eftir sex tíma seinkun, stendur í tunglrykinu milli tveggja fjalla. „Gott. Við þurfum ekki að halda mjög langt til að safna bergsýnum, Houston. Við erum staðsettir mitt á meðal þeirra,“ bætir flugstjórinn John Young við.

Vegna þessarar taugatrekkjandi ferðar þurftu félagarnir að hvíla sig en 14 stundum eftir lendingu eru þeir tilbúnir fyrir fyrstu fyrirhuguðu ferðina út á tunglið og flýta sér sem mest þeir mega niður stigann frá Orion. „Hey John, flýttu þér,“ skipar Duke. „Ég er að flýta mér,“ svarar Young. Skömmu síðar stendur hann baðaður í sólarljósi á yfirborðinu og hefur handlegginn til lofts í einskærum fögnuði. „Þarna ertu, dularfulla og óþekkta Descartes-hálendi. Appollo 16. hefur hugsað sér að breyta ímynd þinni.“

Enn hefur John Young enga hugmynd um hvort orð hans séu við hæfi. Heima á jörðu hafa vísindamennirnir sagt fyrir um að Descartes-hálendið feli í sér aðra jarðfræðigerð en láglendin þar sem fyrri Appollo geimför hafa lent. Menn telja að hálendið hafi orðið til við eldsumbrot, ólíkt láglendinu, sem einkennist af ævafornum gígum eftir árekstra við loftsteina er fylltust strax eftir áreksturinn með hrauni og sléttuðust út. Í Houston bíða jarðfræðingar NASA spenntir eftir að fá staðfestingu á væntingum sínum en áður en geimfararnir tveir fara að safna vísindalegum sýnishornum eiga þeir tvö verkefni fyrir höndum nærri Orion.

„Hot dawg, is this great! Þetta fyrsta skref á yfirborðinu er stórkostlegt,“ fagnar Duke þegar hann er kominn á yfirborðið. Hann lítur í átt til Youngs sem er þegar farinn að vinna við fyrsta verkefnið: Að setja upp myndavél til að taka myndir af útfjólubláum geislum stjarnanna. Við æfingar á jörðu hefur þessi þunga og fyrirferðarmikla myndavél valdið John Young endalausum áhyggjum. En í veiku þyngdarafli tunglsins er ánægja að handleika vélina. „Sjáðu, Charlie, sjáðu hvernig ég held á henni! Ég er með hana á öxlinni! Ha, ha, ha,“ segir Young kampakátur. Verkefni Dukes er að bora holu fyrir hitamæli sem er ætlað að mæla varmastreymi úr iðrum tunglsins. En rétt áður en hann hefur aflokið því flækist Young í kapli sem tengir hitamælinn við vísindastöðina ALSEP (Appollo Lunar Surface Experiments Package).

„Það gerðist eitthvað,“ segir hann afsakandi við Duke. „Hvað gerðist?“ spyr Duke. „Ég veit það ekki. Hér er kapall sem hefur rifnað frá,“ segir Young. „Þetta er fyrir hitamælinguna. Þú hefur slitið hann frá,“ staðfestir Duke. „Guð minn góður, það þykir mér leitt,“ segir Young afsakandi. Kapallinn er slitinn í sundur og vegna seinkunarinnar á leiðinni gefst enginn tími til viðgerða. Duke er miður sín vegna vísindamannanna. Þeir hafa undirbúið þessar mælingar í áraraðir.

Framundan er fyrsta ferð leiðangursins í tunglbílnum, nokkuð sem jarðfræðingar NASA binda miklar vonir við. „Hafið þið séð nokkur björg sem þið eruð vissir um að eru ekki þursaberg?“ spyr yfirjarðfræðingurinn William Muehlberger vongóður þegar geimfararnir eru stuttu seinna á leið vestur í átt að Plum-gígnum. „Negative,“ svarar Duke. Svarið vekur furðu Muehlbergers og félaga hans sem fylgjast með ferðalaginu á skjá. Þar sem Descartes-hálendið er samkvæmt tilgátu þeirra afleiðing eldsumbrota ætti að vera mikið um gosberg á svæðinu.

Fram til þessa hafa geimfararnir einungis fundið þursaberg, þ.e.a.s. berg sem hefur myndast við árekstur loftsteina. Á austurjaðri Plum-gígsins koma Muehlberger og félagar auga á stóran stein sem glitrar eins og kristall í gegnum þykkt ryklag. Af útliti hans að dæma getur steinninn verið afrakstur eldgoss að mati jarðfræðinganna sem biðja geimfarana að taka hann með heimleiðis.

Hvorki Young né Duke geta ráðið hvaða steingerð er um að ræða en Duke telur að þarna sé enn eitt þursabergið. Hann kýs þó að þegja. „Eruð þið vissir um að þið viljið fá svona stóran stein, Houston?“ spyr Young undrandi. „Þetta er 10 kílóa hlunkur,“ áætlar hann um steininn sem síðar fær nafnið Big Muley í höfuð William Muehlberger og sem með sín 11,7 kg er stærsti tunglsteinn sem nokkru sinni hefur verið fluttur til Jarðar. Til baka um borð í Orion er það ekki skortur á gosbergi sem veldur áhöfninni áhyggjum, heldur fremur kalíumauðgaður appelsínudrykkur, en geimförunum hefur verið fyrirskipað að drekka hann í miklum mæli.

Drykknum er ætlað að hindra að Young, Duke og Mattingly fái hjartsláttatruflanir eins og gerðist fyrir áhöfn Appollos 15., en drykkurinn ergir þá stöðugt. Við flugið til tunglsins hafði poki með ávaxtasafa lekið í hjálm Dukes þannig að hár hans varð gegnvott og klístrað en ennþá verri reynast aukaverkanir vökvans.

Drykkurinn svíður í magann og þegar Houston, í guð má vita hvaða sinn, minnir Duke og Young á að drekka meira svarar Young: „Ég er að umbreytast í sítrusafurð. Ég gæti trúað að ég sé með pH-gildi sem liggur nærri þremur.“

Stór steinn lítur út eins og eldbrunnið basalt

„Ég vildi óska að þessir steinar litu öðruvísi út Houston, en þeir gera það ekki,“ kvartar Young þegar hann og Duke daginn eftir eru komnir í leiðangur upp að Stone Mountain. Samkvæmt þaulhugsaðri áætlun safna þeir sýnishornum á mismunandi stöðum en þrátt fyrir að hafa farið víða vegu hefur þeim ekki tekist að finna þá bergtegund sem jarðfræðingarnir leita eftir.

Daginn eftir, í þriðju og síðustu ferðinni, öðlast jarðfræðingarnir smá von. Á skjánum sjá þeir risastóran bergvegg sem er álíka hár og fjögurra hæða bygging og afar breiður. Yfirborðið er dökkt eins og basalt sem er útbreiddasta bergtegund í eldgosum og sýnin gerir Muehlberger óðan og uppvægan.

Vegna seinkunarinnar sem hefur sett sitt mark á gjörvalla viðveruna á tunglinu hafa Duke og Young lítinn tíma aflögu við að rannsaka bergið og höggva sýnishorn úr því. „Þið hafið 17 mínútur áður en þið þurfið að halda af stað og þurfið því að flýta ykkur,“ aðvarar stjórnstöð. En Young og Duke þurfa ekki margar mínútur til að sjá að bergið er ekki úr basalti heldur þursaberg. Þar með hefur eldfjallatilgátan fengið sitt náðarhögg að þeirra mati, en þeir eftirláta jarðfræðingunum að draga endanlegar ályktanir af fundinum.

Ekki einu sinni úr 100 km fjarlægð er að greina minnstu leifar af ævafornum eldsumbrotum á hálendinu. Ken Mattingly hefur á braut sinni um tunglið fylgst gaumgæfilega með starfi félaga sinna og eins og allir aðrir er hann undrandi yfir gerð yfirborðsins. Hann getur ekki á sér setið að árétta uppgötvunina. „Well, aftur að teikniborðinu. Eða hvert það er nú sem jarðfræðingar fara,“ eru ráð hans til vísindamanna á jörðu. Sjálfur hefur hann tekið mikinn fjölda af myndum og framkvæmt margvíslegar athuganir á landslaginu sem hann hlakkar til að sýna jarðfræðingunum.

<ð>Það gerist skjótar en hann hafði fyrirhugað. Vegna vandræðanna við varakerfi eldflaugamótorsins hefur NASA afráðið að taka Appollo 16. einum degi fyrr af braut um mánann og fimmtudaginn þann 27. apríl 1972 skellur geimfarið niður í Kyrrahaf.

Hálendið öðlast nýja ímynd með Appollo 16.

„Þetta var vissulega nokkuð furðulega útlítandi hraun,“ segir Charles Duke stríðnislega þegar hann hittir jarðfræðinga NASA. Meðferðis frá tunglinu hafa geimfararnir 95 kg af steinasýnishornum. Mest reynist þetta vera þursaberg en í pokunum er einnig að finna staka klumpa af amorthosit sem er djúpbergtegund frá þeim tíma er tunglið myndaðist. Í safninu er engin hraunsýni að finna fyrir utan lítið brot af basalti. Með orðum Mattinglys þurfa jarðfræðingar nú að halda „aftur að teikniborðinu“, og eins og Young hafði sagt fyrir um hefur Appollo 16. endanlega breytt ímynd Descartes-hálendisins.

Geimfararnir þrír fundu ekki það sem þeir leituðu eftir. Þess í stað fundu þeir vitnisburð um að Descartes-hálendið, rétt eins og höfin á tunglinu, er mótað af árekstrum loftsteina en ekki af eldvirkni. Þar með hafa Appollo leiðangrar BNA með áþreifanlegum hætti sannað mikilvægi sitt. Ef menn hefðu fyrirfram vitað hvað myndi mæta þeim á tunglinu væri nánast engin ástæða til að ferðast alla þessa leið. Eftir leiðangurinn segir einn jarðfræðinganna: „leiðangurinn hefur enn og aftur auðsýnt að vísindin ná helstum framförum þegar forsagnir þeirra reynast rangar.“

Og nú mun vísindamaður ferðast til tunglsins. Þegar Jack Schmitt fær tilkynningu um að hann skuli fyrstur faglegra jarðfræðinga í Appollo-verkefnið sem geimfari skolar hann fréttunum niður með vænum slurk af eðalviskíi. Þann 7. desember 1972 er Schmitt um borð í Appollo 17, reiðubúinn í fram til þessa síðustu mönnuðu tunglferðina.

BIRT: 04/11/2014

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu með áskrifandi að blaðinu?

Áskrifendur geta fengið áskrift af vefnum hér

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is