Geimferðir Indverjar hafa nú veitt umheiminum innsýn í áætlanirnar um fyrsta mannaða geimskip sitt – þriggja tonna hylki með rými fyrir þrjá geimfara, ásamt þjónustueiningu með ýmsum rafeindabúnaði, stýriflaugum og hemlunarflaugum.
Geimskipið á í fyrstu að fara á braut um jörðu í 400 km hæð, en síðar á að þróa það áfram þannig að einnig verði unnt að tengja það við önnur farartæki í geimnum.
Bæði að því er varðar stærð og tæknibúnað minnir indverska geimskipið á rússnesku Soyuz- og kínversku Shenzhou-geimskipin, enda hafa Indverjar átt nokkurt samstarf við Rússa. Indverjar hyggjast einnig nýta reynslu Rússa til að þróa geimskipið áfram og við val og þjálfun geimfara. Í undirbúningsskyni skutu Indverjar á loft 550 kg hylki árið 2007, komu því á braut um jörðu og lentu því að lokum heilu og höldnu.
Indverska geimskipið er enn eitt dæmi um það að allar geimferðaþjóðir hyggjast í framtíðinni nota geimhylki en ekki geimferjur. Bandaríkjamenn hyggjast leggja geimferjunum, en í þeirra stað verða smíðuð ný Óríon-geimskip.
Með því að senda menn út í geiminn hyggjast Indverjar sanna að þeir séu orðnir að nútímasamfélagi með vel þróaðan iðnað. Að auki mun aðgangur að geimnum ryðja brautina fyrir þátttöku þeirra í fjölþjóðlegum geimverkefnum á borð við ISS-geimstöðina.