Ef mannseyrað væri fært um að heyra núning á sprungubeltum á margra kílómetra dýpi, hefðum við Íslendingar trúlega lagt eyrun við undafarnar vikur – og kannski fyndist okkur við værum búin að heyra meira en nóg. En skjálftarnir eiga upptök á nokkurra kílómetra dýpi og hljóðin sem myndast eru heldur ekki innan þess tíðnisviðs sem mannseyrað greinir.
Hjá bandaríska Northwesternháskólanum hafa menn hins vegar gert okkur kleift að kafa niður í jarðskorpuna og heyra þau hljóð sem myndast í jarðaskjálftunum á Reykjanesi.
Jarðskjálftamælar nema jarðhræringarnar og birta sveiflurnar sem myndrit á pappír. Þessum sveiflum hafa bandarísku vísindamennirnir umbreytt í hljóðbylgjur á því tíðnisviði sem mannseyrað greinir.
Hljóðrásin hér að neðan er unnin hjá Northwesternháskólanum. Hún nær í raun yfir skjálfta heils sólarhrings, en hefur verið klippt niður í 4 mínútur.
Þessi hljómkviða minnir helst á samsetta gargtónlist, sumt minnir á hurðarskelli eða bankhljóð og síðar mætti ímynda sér gríðarlegt haglél sem hamrar á þakplötum.
Hlustaðu hér:
„Það sem við heyrum eru 24 tíma gögn frá jarðskjálftamælum, sem skynja hvern skjálftann á fætur öðrum. Flestir skjálftarnir tengjast kvikuhreyfingum og innskotum í jarðskorpunni á Reykjanesskaganum,“ segir Suzan van der Lee jarðeðlisfræðingur við Northwesternháskóla í fréttatilkynningu.
Eins og flestir Íslendingar vita örugglega mætavel, liggur landið á flekamótum og jarðskjálftar eru því tiltölulega algengir hér. Við erum á mótum Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans, sem færast sundur um 1-2 sentimetra ári.
Við getum þannig að sumu leyti hrósað happi, því jarðskjálftar verða miklu harkalegri þar sem jarðskorpuflekar þrýstast saman eins og raunin er víða við Kyrrahaf.
Gosið við Fagradalsfjall árið 2021 var það fyrsta á Reykjanesskaga í 800 ár. Þá náði kvika alla leið til yfirborðs og á svipuðum slóðum hefur nú gosið tvisvar sinnum síðan. Þessi gos hafa verið lítil, en jarðvísindamenn telja að nýtt gosatímabil sé hafið á Reykjanesi.
Á flekamótum byggist spenna upp á löngum tíma og þegar hún er orðin nógu mikil haggast flekarnir og það veldur skjálftum.
Þar sem jarðskorpuflekar færast sundur geta sprungur líka snögglega gleikkað þegar hraunkvika þrýstist nær yfirborðinu og við slík átök verða eðlilega jarðskjálftar.
Þetta gerðist einmitt beinlínis undir Grindavík föstudaginn 10. nóvember 2023 og þá streymdi gríðarmikil kvika inn í sprunguna, þótt hún næði ekki til yfirborðsins.
Þegar þetta er skrifað eru taldar minnkandi líkur á því að umbrotin leiði til eldgoss og afar litlar líkur á því að gos komi upp innan bæjarmarkanna. Almannavarnir taka þó enga áhættu og rýming því áfram í gildi um óákveðin tíma.