Hryggdýr fjölga sér yfirleitt þannig að sáðfruma karldýrs og eggfruma kvendýrs renna saman og verða að nýjum einstaklingum.
Þannig tryggir náttúran erfðafræðilega fjölbreytni. Í einstaka tilvikum hefur þó komið fyrir að kvendýr t.d. fiskar eða slöngur, hafi eignast afkvæmi án afskipta karldýrs.
En nú hefur það gerst í tveimur breskum dýragörðum að indónesískar komodo-eðlur hafa eignast afkvæmi með “jómfrúrfæðingu”.
Vorið 2006 eignaðist eðlan Sungai fjóra unga í dýragarðinum í London, en hún hafði þá ekki komist í snertingu við karldýr í tvö ár. Og í desember 2006 klöktust fimm egg í Chester-dýragarðinum. Móðirin var eðlan Flóra, sem aldrei hafði komist í kynni við karldýr.
Erfðagreiningar á eggjum og ungum eðlanna sýndu að allir ungarnir voru aðeins afkvæmi móðurinnar. Þetta fyrirbrigði getur reyndar haft þann kost að kveneðlur geta komið á fót alveg nýjum eðluhóp ef skortur er á karldýrum.
Dýrafræðingar hafa á hinn bóginn aldrei fyrr orðið vitni að jómfrúrfæðingum hjá komodo-eðlum og undrun þeirra varð eðlilega ekki minni þegar eðlurnar voru orðnar tvær.