Kórónuveiran kann að fela í sér mesta fall sögunnar í árlegri CO2-losun.
Frá því að kórónuveiran kom fram höfum við fengið fjöldann allan af frásögnum um færri bíla á vegunum, langtum minni flugumferð og hreinna loft í stórborgum. Og nú er komið fyrsta varfærnislega matið á því hve mikil áhrifin kunna að verða á loftslagið.
Breska stofnunin Carbon Brief hefur gefið út greiningu á hnattrænum gögnum um orkunotkun síðustu mánaða en þar er spáð allt að 2.000 milljón tonna minni losun á heimsvísu af koltvísýringi nú í ár.
Þetta samsvarar minnkun um 5,5% sem er harla mikið. Í reynd kann það að vera mesta minnkunin í sögunni.
Farsótt ein og sér getur ekki bjargað loftslaginu
Til samanburðar féll CO2-losun um 845 milljón tonn í kjölfar Síðari heimsstyrjaldarinnar en fjármálakreppan árið 2008 leiddi til minnkunar sem nam 440 milljón tonnum.
En jafnvel heimsmet dugar ekki til eigi okkur að takast að halda hitastigsaukningunni undir þeim 1,5 gráðum sem var stefnt að með Parísarsamkomulaginu, eigi hnötturinn að forðast hrikalegar afleiðingar hnattrænnar hlýnunar.
Í raun þarf minnkunin að vera 7,6% á ári næstu áratugi eigi þetta að takast.
Góðar fréttir frá Alþjóðlegu orkustofnuninni
Eftir birtingu skýrslu Carbon Brief sendi Alþjóðlega orkustofnunin, IEA, frá sér samsvarandi greiningu.
Samkvæmt útreikningum IEA mun losun CO2 falla um heil 8% frá árinu 2019 til 2020.
IEA bætir þó við í skýrslu sinni að eftir öllum ummerkjum að dæma muni losunin aukast aftur á ný eftir 2020.
Vöxtur í grænni orku kann að hafa lagt sitt af mörkum
Greining Carbon Briefs byggir á fimm stórum gagnasettum frá Kína, BNA, Indlandi, Evrópu og olíugeiranum um heim allan.
Samanlagt ná tölurnar yfir flutninga, flug, iðnað, mengun og aðra mikilvæga þætti í CO2-losun sem taka til allt að 76% af losuninni á heimsvísu. Því telur Carbon Brief að greiningin sé marktæk.
En stofnunin staðhæfir ennfremur að hér sé þó einungis um að ræða áætlun. Það er ómögulegt að koma fram með nákvæmar spár, því við vitum ekki enn hvernig veirukreppan muni þróast eða hve lengi hún mun vara.
Það er heldur ekki hægt að draga neinar einhlítar ályktanir um orsakir þessarar miklu minnkunar á losuninni.
Sem dæmi var þegar til staðar mikill vöxtur í notkun grænnar orku áður en kórónuveiran fór að geisa um heiminn því að sólskin og vindar hafa á fyrstu mánuðum ársins aukið framleiðsluna í sólarverum og vindgörðum heimsins.