Sjávardýr gegna mikilvægu aukahlutverki sem mönnum hefur lengi yfirsést. Hreyfingar marglyttna, svifs, átu, fiska, hvala og annarra sjávardýra valda miklum blöndunaráhrifum í sjónum. Það eru eðlisfræðingar við Tæknistofnun Kaliforníu sem hafa nú sýnt fram á þetta.
Með því að setja skaðlaust, grænt blek vatn með litlum marglyttum, tókst vísindamönnunum í fyrsta sinn að vekja athygli á þeim áhrifum sem hreyfingar dýra hafa á vatnið umhverfis þau. Þótt áhrif hverrar einstakrar lífveru geti verið allt að því ógreinanlega smá í samanburði við stærð heimshafanna, eru hin sameinuðu áhrif af hreyfingum sjávardýra sambærileg við áhrif mikilvirkra náttúruafla, svo sem sjávarfalla, vinda og hafstrauma.
Vísindamennirnir hafa því hér uppgötvað alveg nýjan þátt þess margslungna kerfis sem dreifir hita, næringarefnum og lofttegundum um sjóinn. Uppgötvunin hefur mikla þýðingu varðandi skilning okkar á loftslagsbreytingum, enda taka heimshöfin við miklu magni gróðurhúsalofttegunda.