Uppeldi er ekki alltaf dans á rósum.
Þykkar bækur hafa verið skrifaðar um hvernig nýbakaðir foreldrar ættu að nálgast uppeldishlutverkið og stundum virðist það nánast óviðráðanlegt verkefni.
Sér í lagi þegar barnið eldist og erfiðara verður að tjónka við það.
Ákveðið atriði í uppeldinu virðist þó hafa furðu jákvæð áhrif. Að þessu komust vísindamenn frá Penn State háskólanum að raun um í rannsókn sinni.
Hún snýst í öllum sínum einfaldleika um húmor.
Börn foreldra sem notuðu húmor í uppeldinu líta á eigið uppeldi og uppvöxt í mun jákvæðara ljósi en börn sem foreldrar sem notuðu húmorinn minna.
„Húmor getur kennt fólki vitræna sveigjanleika, dregið úr streitu og stuðlað að eiginleikum eins og skapandi lausn vandamála og seiglu,“ segir forsvarsmaður rannsóknarinnar, Benjamin Levi, prófessor við Penn State College of Medicine í fréttatilkynningu á heimasíðu háskólans.
Annar vísindamaður sem vann við rannsóknina, Lucy Emery, læknanemi við Penn State College of Medicine, segir áhugaverða hliðstæðu á milli viðskiptalífs og uppeldis því stigveldisfyrirkomulag ræður ríkjum á báðum þessum sviðum.
Hjálpar til við að takast á við streitu
Í viðskiptum hefur verið sýnt fram á að húmor dregur úr stigveldisyfirráðum, skapar betra umhverfi fyrir samvinnu og sköpunargáfu og tekur broddinn úr spennuþrungnum aðstæðum.
„Vissulega er meiri ást í samskiptum foreldra og barna en í samskiptum á vinnustöðum, en oft skapast streituvaldandi aðstæður í uppeldi barna. Húmor getur hjálpað til við að minnka spennuna og stjórnsemina og hjálpað báðum aðilum að takast betur á við streituvaldandi andrúmsloft,“ segir Lucy Emery.
Betra samband barna og foreldra
312 manns á aldrinum 18-45 ára tóku þátt í könnunni.
Meira en helmingur þátttakenda sagðist hafa verið alinn upp við húmor og 71,8 prósent þeirra viðurkenndu að húmor gæti verið einstaklega áhrifaríkt tæki til að ala upp börn.
Meirihluti þeirra sem svöruðu sögðust nýta sér húmor í uppeldi eigin barna.
Vísindamennirnir uppgötvuðu einnig að það var fylgni milli notkunar foreldra á húmor og hvernig nú fullorðin börn litu á eigið uppeldi og samband við foreldra sína.
50,5 prósent þeirra sem ólust upp við húmor sögðust eiga í góðu sambandi við foreldra sína og 44,2 prósent töldu að foreldrar þeirra hefðu alið þau upp á góðan hátt.
Því var þveröfugt farið hjá þeim sem ólust upp við lítinn húmor.
Aðeins 2,9 prósent þeirra töldu samband sitt við foreldra væri gott og 3,6 prósent voru þeirrar skoðunar að foreldrar þeirra hefðu alið þau upp á góðan hátt.
Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að foreldrar ættu að spara reiðilegu orðin. Hér má lesa vísindalegar leiðbeiningar um vænlegasta uppeldið.
Það kemur því varla á óvart að fólk sem ólst upp við húmor ætli sér að gera slíkt hið sama við sín eigin börn. En vísindamennirnir bandarísku eru undrandi á fremur markverðum mun á fólki, eftir því hvort það er alið upp með eða án húmors.
Rannsóknarteymið ætlar að bæta rannsókn sína með því að vinna með stærri og fjölbreyttari hóp þátttakenda til að draga upp sem réttustu mynd af áhrifum húmors í uppeldinu.