Lifandi Saga

Loðvík 14 og Versalir:  Í glæsihöllinni ríkti fnykur

Rottugangur, eilíft tilbreytingarleysi og kæfandi óþefur. Þannig var hversdagslíf fjölmargra í Versölum. Sjálfur velti Sólkóngurinn sér upp úr þægindum en hirðin þurfti að sætta sig við ömurleg húsakynni og neyddist til að sækja tilgangslausa viðburði frá morgni til kvölds.

BIRT: 29/02/2024

Á dögum sólkonungsins er sagt að glæsihöllin í Versölum hafi átt sér sitt eigið ilmvatn. Í lok 17. aldar svíður óþefurinn í nösum – sambland af þvagi, ilmvötnum og svita.

 

Gestir sem heimsækja aðsetur konungs 17 kílómetra suðvestur af París þurfa ekki annað en að anda að sér til að vita nákvæmlega hvar þeir eru staddir.

 

Lyktin í Versölum er ekki einungis alveg sérstök, heldur hefur hún orð á sér fyrir að yfirgnæfa fnykinn í öllum öðrum evrópskum höllum.

 

Það er sem sé allt stærra og meira við hirð Frakkakonungs – líka fleira fólk. Aðalsstéttin og þjónar hennar þurfa að þola mikið nábýli í höllinni. Það er nefnilega hér sem frama er náð og háum stöðum er útdeilt.

Versalir eru staðsettir 17 km suðvestur af París. Frá árinu 1682 til frönsku byltingarinnar árið 1789 voru Versalir höfuðborg Frakklands.

Þess vegna leggja allir á sig að umbera fnykinn, margir eru nánast hættir að taka eftir honum. Hamingjan er einmitt fólgin í því að hafa náð nægilega hátt til að geta baðað sig í sviðsljósi sólkonungsins.

 

Hinir útvöldu sem fá að komast í nálægð við konunginn sjálfan, Loðvík 14., taka eftir því að líkamslykt hans hátignar yfirgnæfir fnykinn. Að sögn erlends sendiherra við hirðina minnir lykt konungsins á „villt dýr“.

 

Í Versölum er ekkert hálfkák á neinu.

 

Tímalína yfir ævi Loðvíks 14.

Loðvík 14. var ungur að árum þegar faðir hans lést. Uppeldi hins tilvonandi konungs var í höndum Jules Mazarin kardínála og Nicolas de Neufville landstjóra.

– 1638: Loðvík 14 fæðist

Loðvík 14. fæðist þann 5. september árið 1638, sonur Loðvíks 13. og Önnu af Austurríki.

 

– 1643: Faðir Loðvíks deyr

Loðvík 13 deyr og Loðvík 14. er útnefndur konungur Frakklands. En hann aðeins fjögurra ára gamall, þannig að landinu er í raun stjórnað af ekkjudrottninguni Önnu af Austurríki og Mazarin kardínála þar til hann verður fullorðinn.

 

– 1648-1653: „Fronden“ uppreisn aðalsmanna og borgara

Óeirðir brjótast út í Frakklandi vegna mikillar óánægju meðal almennings með skatta og aukins einræðis. Loðvík 14. er hrakinn frá París og Mazarin kardínáli neyðist til að yfirgefa landið. Konungur snýr aftur árið 1651 og skipar Mazarin i aftur í embætti árið eftir þegar konungsveldið hefur endurheimt vald sitt.

 

– 1659: Pýreneafriðurinn

Spánn og Frakkland, sem hafa átt í stríði síðan 1635, undirrita friðarsáttmála. Spánn gefur eftir ýmis landsvæði til Frakklands, meðal annars Artois, Namur og Roussillon. Samningurinn markar nýtt tímabil í sögu Evrópu með Frakkland í broddi fylkingar.

 

– 1660: Konungur giftist

Loðvík 14. giftist spænsku prinsessunni Maria-Theresiu. Hjónabandið er hugsað sem sátt og endir á deilum Spánar og Frakklands.

 

– 1661: Einræði komið á

Mazarin kardínáli deyr. Loðvík 14. sviptir háaðlinum hluta áhrifa sinna í því skini að auka völd sín.

 

– 1667-1668: Valddreifingarstríðið

Loðvík 14. lýsir yfir stríði gegn Spáni. Markmiðið er að leggja undir sig hin spænsku Niðurlönd. Hernaðarbandalag milli Svíþjóðar, Hollands og Englands þvingar sólkonunginn til uppgjafar. Í maí árið 1668 var ákveðið að Frakkar gætu haldið litlum hluta af Flæmingjalandi.

 

– 1672-1674: Þriðja ensk-hollenska stríðið

Alla 17. öld höfðu England og Holland átt í stríði hvort við annað vegna viðskiptadeilna. Frakkland velur að standa með Englandi árið 1672 og Holland neyðist til að takmarka viðskipti sín, en getur samt haldið stöðu sinni sem flotaveldi.

 

– 1678-1679: Friður í Nijmegen

Loðvík 14. fær nokkur landsvæði sem Frakkar höfðu áður ráðið yfir þar á meðal Franche-Comté og önnur svæði á frönsku norðausturlandamærunum.

 

– 1683: Maria Theresia drottning deyr

Drottningin deyr vegna bakteríusýkingar. Loðvík 14. bregst við tilkynningunni brosandi með orðunum „Þetta er í fyrsta skipti sem hún veldur mér vandræðum“.

 

– 1684: Loðvík 14. giftist aftur

Ekkjukonungurinn giftist ástkonu sinni Francoise d’Aubigne Maintenon. Óvissa ríkir um nákvæma dagsetningu brúðkaupsins. Sumir sagnfræðingar segja október árið 1683, á meðan aðrir telja að brúðkaupið hafi ekki átt sér stað fyrr en í janúar árið 1684.

 

– 1685: Afturköllun tilskipunarinnar um Nantes

Loðvík 14. fellir úr gildi tilskipun Hinriks IV frá árinu 1598, sem veitti húgenottum aukin borgararéttindi og meira trúfrelsi. Réttindaleysið veldur því að 200.000 húgenottar yfirgefa Frakkland sem skaðar efnahag landsins gríðarlega.

 

– 1688-1697: Níu ára stríðið – Pfalzíska erfðastríðið

En eitt stríðið brýst út þar sem Evrópuveldi reyna að berjast gegn útrásarstefnu Frakka. Eftir að Frakkland innlimar Strassborg árið 1681 og Lúxemborg árið 1684, auk árásar franska hersins á Pfalz mynda Englendingar ríkjabandalag, þar sem þeir eru í forsvari, til að binda endi á framrás Frakka. Stríðinu lýkur vegna gagnkvæmrar þreytu stríðsaðila. Í friðarsamningum í Rijswijk árið 1697 er ákveðið að Loðvík 14. láti eftir flest þau svæði sem hann hafði hertekið, en hann fær að halda Strassborg.

 

– 1711-1714: Erfingjar deyja

Persónulegir harmleikir skella á Loðvíki 14. á örfáum árum. Elsti sonur hans, Loðvík lést fyrstur en  hann var þekktur sem Le grand dauphin (1661-1711) eftir andlát sitt . Þarnæst deyja tvö barnabörn sólkonungsins, Loðvík, hertogi af Búrgund, einnig þekktur sem Le Petit Dauphin (1682-1712), og Karl, hertogi af Berry (1686-1714).

 

– 1715: Sólkonungurinn deyr

Loðvík 14. deyr þann 1. september árið 1715 og skilur eftir skuldum vafið ríki fyrir fimm ára barnabarnabarn sitt, Loðvík 15. Sólkonungurinn ríkti í 72 ár og 110 daga. Enginn þjóðhöfðingi í sögu Evrópu sem hefur ríkt eins lengi.

Versalir taka á sig mynd: Frá veiðihúsi í glæsilegustu höll Evrópu

Til að sjá eru Versalir gríðarlegt meistaraverk og stærsta undur 17. aldar. Enginn þjóðhöfðingi átti sér höll sem stóðst nokkurn samanburð við glæsimannvirki Loðvíks.

 

Upphaflega byggingin í Versölum var þó einungis glæsilegt veiðihús.

 

„Lítill pappírskastali sem Loðvík 13. lét byggja svo hann þyrfti ekki að sofa á hálmi,“ skrifaði hertoginn af Saint-Simon í endurminningum sínum. Hann var við hirð sólkonungsins í áratugi og skrifaði síðar endurminningar og var nokkuð orðhvass.

 

Krónprinsinn, síðar Loðvík 14., átti mestu hamingjustundir bernskunnar í þessari veiðihöll. Hirtir og villisvín gengu þarna um græn engi og víðlenda skóga og fyrir dreng sem kunni betur við sig á hestbaki en í hægindastól var þessi litla höll sannkölluð paradís.

 

Staðurinn hélt sérstöðu sinni í huga hans þegar hann tók við konungdómi og varð einvaldur árið 1661.

Gælunafn Loðvíks 14. var „Sólkonungurinn“ sem gaf hann sér sjálfur.

Þessi 22 ára konungur bauð jafnt vinum sínum sem og ástkonum í veislur í Versölum og í garðinum voru fluttar leiksýningar og hljómleikar á löngum sumarkvöldum.

 

Hann stýrði ríki sínu frá Louvre í París en Versalir urðu frístundaleikvöllur hans.

 

Það var þó strax í ágúst þetta sama sumar sem ný hugmynd kviknaði í höfði hans. Hann fór í veislu til fjármálaráðherra síns, Nicolas Fouquet og sú veisla markaði tímamót í lífi sólkonungsins.

 

Þessi mikla veisla var haldin í nýbyggðri höll, Vaux-le-Vicomte, skammt frá París. Umhverfis höllina voru vel hirtir garðar með gosbrunnum, tjörnum, síkjum, styttum og appelsínutrjám. Innan dyra voru skreytingar jafnvel enn íburðarmeiri:

 

Loftin voru skreytt, stofurnar gullskreyttar, fagurofin veggteppi og allir skápar fullir af gull- og silfurmunum. Húsgögnin voru þau dýrustu og glæsilegustu sem unnt var að fá í Evrópu.

Nicolas Fouquest (1615-1680) studdi Mazarin kardínála og var árið 1653 skipaður fjármálaráðherra.

Loðvík konungur virti fyrir sér dýrðina með öfundarblandinni aðdáun og hann var ekki fyrr farinn úr þessari veislu en hann tók ákvörðun.

 

Hann ætlaði að fara langt fram úr Vaux-le-Vicomte og reisa glæsilegustu hallarkynni barokktímans. Öll veröldin skyldi fyllast aðdáun yfir þessari stórbrotnu framkvæmd. Og undramannvirkið skyldi rísa í kringum veiðihöllina í Versölum sem hann unni svo mjög.

 

Arkitektar fengu áhyggjuhrukkur á ennið þegar konungurinn lýsti fyrir þeim óskum sínum um glæsisali og tignarlega garða.

 

Þeir sameinuðust í andstöðu sinni við verkefnið. Fjarlægðin frá París var of mikil, útsýnið lélegt og of mikið mýrlendi. Verri byggingarstaður var vandfundinn í öllu Frakkandi en konunginum varð ekki haggað.

 

„Það jók enn áhuga hans að þurfa að kljást við náttúruna með gríðarlegum tilkostnaði en þvinga hana til að láta að vilja sínum,“ skrifaði Saint-Simon. Og hátignin fékk vilja sínum framgengt.

 

Þrengt að aðlinum

Versalir urðu nú að byggingarstað með miklu annríki. Vinnupallar risu umhverfis veiðihöllina og verkamennirnir skiptu þúsundum.

 

Mikið var byggt í einu og annað í áföngum, þar til konungurinn gat loks flutt inn á nýja heimilið ásamt fjölskyldu, ráðherrum og hirð sinni árið 1682 – 21 ári eftir veisluna í Vaux-le-Vicomte. En þá voru garðarnir langt frá því að vera tilbúnir.

 

Meira en 36.000 verkamenn unnu enn að því að grafa síki, planta trjám og ganga frá tjörnum.

Loðvík 14. Byggði við litlu höllina í Versölum og gerði höllina að fyrirmynd fyrir alla Evrópu. Allt í Versalahöllinni var skapað til að heilla og sýna yfirgnæfandi vald sólkonungsins. Meðal almennings varð hin glitrandi höll aftur á móti tákn um hversu fjarlægur konungur var frá örbirgð og erfiðleikum þegna sinna.

Inni var speglasalurinn – sem átti eftir að verða glæsilegasti salur hallarinnar – enn ófrágenginn en um 350 herbergi voru nú að mestu komin í íbúðarhæft ástand.

 

Í glæsilegustu og stærstu herbergjunum í hjarta hallarinnar settust konungur og fjölskylda hans að. Þar voru íburðinum engin takmörk sett.

 

Í íverustöðum konungsfjölskyldunnar var hátt til lofts og loftin skreytt íburðarmiklum gifslistum eða prýdd málverkum. Veggina skreyttu speglar, marmari eða málverk í gylltum römmum. Hvít, skrautofin gluggatjöld umluktu gluggana sem náðu alveg til lofts.

Öll Evrópa líkti eftir dýrðinni í Versölum

Lýsingar á höll Loðvíks 14. hleypti af stað byggingaræði um alla Evrópu. Allt kóngafólk þurfti sína eigin Versalahöll.

 

Um alla Evrópu var líkt eftir glæsilegri bakhlið Versala.

 

Tiginbornir aðalsmenn og sendiherrar streymdu til Versala til að hitta Sólkonunginn og sjá íburðinn sem hvergi átti sér hliðstæðu. Gestirnir hrifust af glæsileikanum innandyra og skipulögðum og vel hirtum görðum, ásamt fjölda aðalsmanna með hárkollur og í dýrum skikkjum.

 

Á skömmum tíma urðu Versalir fyrirmynd allra konungshirða í Evrópu, jafnt varðandi lífsstíl, tísku og menningu.

 

Konungar og stórfurstar létu sér ekki nægja að líkja eftir framkomu og skipulegri dagskrá sólkonungsins, heldur tóku einnig að reisa glæsihallir í von um að skapa sér ámóta virðingu.

 

Nýjar hallir risu í Evrópu, þar sem allir kepptust nú við að verða sem franskastir í öllu hátterni.

Charlottenburg

Prússakonungar voru metorðagjarnir en til að vera teknir alvarlega þurftu þeir að slá um sig á viðeigandi hátt. Arkitektar voru gerðir út til að kynna sér Versali áður en hafist var handa við að breyta höllum við Berlín og stækka þær í byrjun 18. aldar.

Drottningholm

Aðsetur sænsku konungsfjölskyldunnar í nágrenni Stokkhólms hefur verið nefnt Versalir norðursins. Það er viðeigandi því þessi barokkhöll með sínum glæsilega garði var reist í lok 17. aldar og innblásin af franskri fyrirmynd. Höllin var tekin á heimsminjaskrá UNESCO 1991.

Vetrarhöllin

Á 18. öld vildu Rússakeisarar öðlast viðurkenningu sem virðulegir Evrópumenn. Hin nýja höfuðborg, Sankti-Pétursborg þurfti því að fá sína eigin Versali. Ítalinn Rastrelli teiknaði þessa íburðarmiklu höll 1754-62 og hún varð aðalaðsetur keisaranna allt fram að byltingunni 1917.

Húsgögn voru skreytt silfruðum fótum, rúmin með gylltum forhengjum allan hringinn og risastórar ljósakrónur héngu í loftinu og vörpuðu töfrum þrungnu skini yfir salina.

 

Að utanverðu voru allar hallarbyggingarnar jafnglæsilegar áhorfs en innandyra jókst íburðurinn eftir því sem nær dró vistarverum konungsins sjálfs.

 

Hirðinni var skipt niður eftir nákvæmri virðingarröð, þar sem valdamestu furstarnir fengu íverustaði í grennd við vistarverur konungs en lægra settum aðli komið fyrir í fjarlægari og smærri herbergjum.

 

Sá hluti aðalsins sem lægst var settur þurfti að sætta sig við litlar kytrur, sumar gluggalausar og þar var svo lágt til lofts að ekki var unnt að ganga uppréttur. Þessir íbúar áttu á hættu að gleymast alveg.

 

Þegar drottning sólkonungsins bað um nýja hirðmey undir lok 17. aldar, vildi hún fá aðalskonu sem annað hvort væri fráskilin eða ekkja.

 

En þvílíka manneskju var ógerlegt að finna við hirðina – þar til einn af embættismönnum hallarinnar minntist hertogaynju einnar, eldri konu sem nú bjó í litlu kvistherbergi.

 

Í ljós kom að þessi kona var vel á veg komin með að svelta í hel í einsemd sinni og tók því með þökkum að fá að þjóna sjálfri drottningunni.

 

Glæsilegur garður Versala

Aldingarðurinn

Á tímum sólkonungsins voru appelsínur lúxusvara og konungurinn átti sína eigin birgðir í aldingarðinum. Appelsínutrjám var raðað í óaðfinnanlega röð í hvern kassa fyrir sig þ.a. auðvelt var að flytja þær inn á veturna.

Síkin voru Feneyjar konungs

Sólkonungurinn naut þess að láta sigla sér á gondóla, mönnuðum fagfólki frá Feneyjum, á hinum 1,5 km langa Grand Canal og Petit Canal sem lá þversum.

Kóngurinn skellti sér í sumarbústað

Þegar Loðvík 14. fékk nóg af hirð sinni flutti hann út í höllina Grand Trianon – gjarnan með ástkonu.

Aðgangur bannaður konungi

Árið 1774 gaf Loðvík 16. eiginkonu sinni, Marie-Antoinette, Petit Trianon-setrið að gjöf. Þar mátti ekki einu sinni konungur koma í heimsókn án þess að vera boðið.

Aldingarðurinn

Á tímum sólkonungsins voru appelsínur lúxusvara og konungurinn átti sína eigin birgðir í aldingarðinum. Appelsínutrjám var raðað í óaðfinnanlega röð í hvern kassa fyrir sig þ.a. auðvelt var að flytja þær inn á veturna.

Síkin voru Feneyjar konungs

Sólkonungurinn naut þess að láta sigla sér á gondóla mönnuðum fagfólki frá Feneyjum á hinum 1,5 km langa Grand Canal og Petit Canal sem lá þversum.

Kóngurinn skellti sér í sumarbústað

Þegar Loðvík 14. fékk nóg af hirð sinni flutti hann út í höllina Grand Trianon – gjarnan með ástkonu.

Aðgangur bannaður konungi

Árið 1774 gaf Loðvík 16. eiginkonu sinni, Marie-Antoinette, Petit Trianon-setrið að gjöf. Þar mátti ekki einu sinni konungur koma í heimsókn án þess að vera boðið.

Gaf skipanir á klósettinu

Umbyggða veiðihöllin var nú orðin að heilu bæjarfélagi með um 5.000 íbúum. Fólk þrengdist um á göngum og í stigum og fyrir kom að það mætti kú sem verið var að leiða milli herbergja þar sem lítil börn voru, til að þau fengju spenvolga nýmjólk.

 

Kýrnar tóku mikið rými á göngunum en leiguburðarstólarnir voru þó enn plássfrekari. Í höllinni voru fjölmargir burðarstólar sem hægt var að taka á leigu til að flytja sig um gríðarlanga ganga hallarinnar en aðeins konungsfjölskyldan hafði rétt til að eiga burðarstóla.

 

Leigustólarnir voru svo vinsælir að umferðaröngþveiti á göngunum mátti fremur kallast regla en undantekning.

 

Þegar myrkt var orðið urðu iðulega umferðaóhöpp þegar burðarstólar rákust á í illa upplýstum göngum, þar sem kyndlaberar voru látnir sjá um lýsingu.

 

Síðar, þegar umferðinni hafði slotað, mátti heyra örvæntingaróp fólks sem hafði villst og stundum hljóðláta bunu þegar einhver nátthrafninn var að pissa úti í horni.

Setan á klósettkassanum var fóðruð með flaueli og því þægileg en kassinn sjálfur gat lekið þannig að innihaldið rann niður á gólf.

Við gangana voru örsmá „afsíðisherbergi“, þar sem fyrir var komið einum trékassa með opi að ofanverðu. Þessir kamarkassar voru þó afar óþéttir og innihaldið átti til að leka gegnum gólfborðin og niður í herbergin á hæðinni fyrir neðan.

 

Þessi salerni voru þó allt of fá og fólk sem annað hvort hafði ekki þolinmæði til að bíða í biðröð eða gaf sér ekki tíma, lét sig hafa það að míga á göngunum.

 

Í herbergjum sínum höfðu íbúar hallarinnar næturgögn og þótt það væri stranglega bannað var oft hellt úr þeim út um gluggann. Fyrir neðan gátu grunlausir göngumenn fengið súpuna yfir höfuðið.

 

Sólkonungurinn sjálfur var töluvert betur settur en undirsátarnir því einkaklósett hans var stóll með flauelsfóðraðri setu.

 

Sitjandi á þessu prívatklósetti gaf hann hirðmönnum sínum fyrirmæli á morgnana og enginn þeirra sem hlotnaðist sá heiður að vera nærverandi, lét í ljós minnstu svipbrigði yfir búkhljóðum sólkonungsins meðan hann ræddi um málefni ríkisins.

 

Hirðlífið stanslaust leikrit

Loðvík 14. lifði í miklum vellystingum en einkalíf lét hann ekki eftir sér. Frá því að hann opnaði augun á morgnana og þar til hann fór í rúmið á kvöldin var hann umkringdur vandlega útvöldum hópi undirsáta sem litu á það sem mikinn heiður að fá að elta konunginn hvert sem hann fór.

 

Allt frá fyrsta degi í Versölum var hversdagslíf konungsins í föstum og skipulögðum skorðum, þar sem tímafrekir atburðir fóru eftir föstum reglum.

Fyrir kom að virðulegir gestir á borð við leikskáldið Molière fengu að sitja á kolli við borðið og horfa á konunginn neyta matar síns.

Þannig tryggði konungurinn sér að franski aðallinn sem gjarnan hafði verið nokkuð þvermóðskufullur, hefði ekki tíma til að skipuleggja samblástur gegn hátigninni.

 

Þeir hertogar og markgreifar sem sóttust eftir völdum, þurftu daglega að snúast kringum sólkonunginn reglubundið eins og plánetur.

 

Hver og einn fékk ákveðið hlutverk í því furðulega leikriti sem stýrði daglegu lífi allra í Versölum.

 

Fyrsta skylda hinna útvöldu á morgnana fólst í nærveru þegar konungurinn fór á fætur.

 

Um áttaleytið á hverjum morgni lét Loðvík 14. vekja sig með hvíslandi rödd sem tilkynnti að nú væri kominn tími til að horfast í augu við nýjan dag. Síðan litu lífverðir hans til með honum áður en hann reis upp í rúminu.

 

Um 100 aðalsmenn fylgdust svo með morgunathöfninni. Þjónar færðu hann úr náttserk hans, rökuðu hann og snyrtu hárið áður en hann var klæddur í fötin.

 

Morgunbað var ekki hluti þessarar athafnar og einkabaðstofa hátignarinnar var einna helst notuð þegar hann hitti ástkonur sínar.

Ástkonur Loðvíks 14.

Það er ekkert launungarmál að Loðvík var kvensamur. Sólkonungurinn átti margar ástkonur og með sumum þeirra eignaðist hann jafnvel börn. Konungurinn lét meira að segja reisa leynistiga í Versalahöllinni svo hann gæti auðveldlega laumast inn til að heimsækja ástkonur sínar.

Þegar konungurinn hafði verið klæddur í hverja flíkina af annarri, alltaf í sömu ófrávíkjanlegu röð, valdi hann sjálfur eina af 400 hárkollum sínum. Allar hárkollurnar voru vandlega greiddar og úðaðar ilmvatni en líka fullar af óværu.

 

Morgunathöfnin var aðeins upphafið að fjölda atburða þar sem nærveru aðalsins var krafist. Frá morgni til kvölds voru skipulagðar skrúðgöngur, messur, veiðar og svo kvöldskemmtun sem gat verið í formi tónleika eða spilastundar. Yfirleitt fólst þátttaka flestra annarra aðeins í viðveru og áhorfi á skemmtun konungsins.

 

Ekki fyrr en um kl. 22.30 var komið að síðustu hátíðisatburði dagsins, þegar Loðvík 14. lagðist til hvíldar. Við þá athöfn átti einn viðstaddra að lýsa honum.

 

„Konungurinn horfði í kringum sig, nefndi svo nafn einhvers viðstaddra og yfirþjónninn rétti þeim manni kertið. Þetta taldist mikill heiður, enda gaf konungurinn jafnvel minnstu smáatriðum ákveðið vægi,“ skrifaði Saint-Simon. Sjálfur var hann af og til útnefndur kertisberi.

 

Áhorfendaskarinn, um hundrað manns, horfði svo á meðan konungurinn var afklæddur, augun skoluð og hárið greitt.

 

Ekki fyrr en Sólkonungurinn var lagstur fyrir, gátu voldugustu menn Frakklands dregið sig í hlé og andað út eftir langan og framúrskarandi leiðinlegan dag.

 

Íbúðir gengu í arf

Enginn vogaði sér að skrópa frá daglegum viðburðum í Versölum:

 

„Hann veitti öllum athygli, tók eftir fjarveru þeirra sem yfirleitt héldu sig við hirðina og líka þeim sem sjaldan sáust þar,“ skrifaði Saint-Simon. Hertogi sem laumaðist frá og tók sér einn frídag í París, stofnaði tilvist sinni við hirðina í hættu.

 

Allir vildu komast sem næst sólkonunginum. Í návist hans var vel launuðum embættum og tignarheitum útdeilt. Og þeir sem náð höfðu að festa sig í sessi í Versölum, héldu fast í stöðu sína þar.

 

Öll embætti við hirðina gengu í arf, allt frá ráðherraembættum til umsjónarmanna gosbrunna eða stöðum á borð við konunglega hlandkoppaburðarmenn, skósveina eða moldvörpuveiðara.

 

Ef fjölskylda lenti í fjárhagsvandræðum gat fjölskyldufaðirinn selt embætti sitt fyrir væna fúlgu fjár.

 

Versalir

Allt glitraði á yfirborðinu

Loðvík 14. stækkaði litla veiðihöll í Versölum og gerði hana að fyrirmynd evrópskra konunga. Allt var gert til að vekja aðdáun og sýna vald sólkonungsins. Meðal alþýðu varð glæsimannvirkið hins vegar táknmynd þess hversu fjarlægur konungurinn var alþýðunni.

Speglasalurinn var stolt hallarinnar

Speglasalnum var frá upphafi ætlað að vera glæsilegasti hluti mannvirkjanna. Hann var 78 metra langur og tæpir 12 metrar á breidd. Salurinn sneri út að garðinum og tengdi saman íbúðir konungs og drottningar. Þessi gríðarstóri salur var alskreyttur með marmara, speglum, styttum, vösum, kristalsljósakrónum, marmarakertastjökum og loftmálverkum. Alls 578 speglar endurköstuðu sólarljósinu frá háreistum gluggum.

Margir hirðmenn í svefnherberginu

Sólkonungurinn þurfti stórt svefnherbergi því þar þurftu hundrað hirðmenn að horfa á hann ganga til náða og fara á fætur.

Gestir hneigðu sig neðan af gólfinu

Loðvík 14. tók á móti gestum á Escaltet des Ambassadeurs, Tröppum sendiherranna. Þannig tryggði hann að gestir þyrftu að horfa upp til hans, þegar þeir gengu inn.

Konungurinn fylgdist með kirkjugestunum

Hallarkirkjan var í norðurálmunni og hæsta byggingin í Versölum með 25 metra til lofts. Sólkonungurinn sótti messu á hverjum degi og fylgdist með úr svalastúku sinni. Þannig gat hann jafnframt séð yfir hirðina og fullvissað sig um að enginn skrópaði.

Íbúar í Versölum héldu líka fast í vistarverur sínar og jafnvel lélegri herbergiskytru í Versölum fylgdi meiri upphefð en nokkrum öðrum bústað nokkurs staðar í Frakklandi.

 

Þess vegna sætti fólk sig við mýs og rottur sem nöguðu sig í gegnum veggi og húsgögn. Fólk lét sig líka hafa það að hitastigið gæti allt í einu fallið niður undir frostmark og íbúarnir þyrftu að leita skjóls undir bjarnarfeldum.

 

Þegar fyrir kom að fjölskyldu af háum stigum var vísað á dyr, hófst áköf barátta annarra hallarbúa um íbúðina.

 

En enginn náði jafngóðum árangri í þeim efnum og Noailles-ættin. Hertogaynjan Marie-Francoise Noailles fæddi manni sínum 21 barn og þau fengu öll sínar eigin íbúðir í höllinni.

 

Ættin lagði að lokum undir sig heilan gang sem fékk heitið Rue de Noailles eða Noaillesgata.

 

Heilsuðu matnum

Auk þess að neyðast til að taka þátt í öllum skipulögðum athöfnum, þurfti fólk að fylgja ströngum hegðunarreglum.

 

Engum leyfðist að spýta á gólfið í návist konungs og þegar hann birtist sjálfur á gangi um höllina, bauð skyldan öllum sem á vegi hans urðu að hneigja sig og hörfa aftur á bak út að vegg.

 

Jafnvel mat konungsins þurfti að sýna tilhlýðilega virðingu. Máltíðir hans voru matreiddar utan hallarinnar, í eldhúsi við íbúðir þjónustufólksins. Þaðan fór síðan tíu manna skrúðganga með matinn og bar á borð fyrir konung.

 

Gengið var inn í suðurálmuna, upp á aðra hæð og áfram um fjölmarga ganga að borðsal konungsins. Aðalsmaður sem mætti þessari skrúðgöngu, lyfti hattinum, hneigði sig og heilsaði matnum með orðunum „konungsins kjöt“.

 

Í morgunverð lét sólkonungurinn sér nægja fjóra rétti en kvöldverðurinn var sannkölluð stórveisla sem hann innbyrti í ásýnd stórs skara útvalinna.

 

Flestir áhorfenda stóðu, því það voru aðeins þeir allra hæst settu sem höfðu leyfi til að sitja. Virðingarröð þeirra sem sátu réðist af því hverjir fengu að sitja í hægindum, á venjulegum tréstól, kolli eða fótaskemli.

 

Venjulega hóf konungur máltíðina á einum eða tveimur diskum af grænmetissúpu en þar á eftir fylgdu fasani, akurhæna, lambakjöt, grísasteik, eftirréttur og loks ávextir og konfekt.

 

Maturinn var borinn fram á gull- og silfurdiskum af þjónum sem sífellt bukkuðu sig og beygðu.

 

En þegar maturinn kom loks á borðið var hann orðinn kaldur eftir að hafa farið svo langa leið. Engu að síður gat þjónustufólkið selt leifarnar utan við höllina.

 

Eldhús voru ekki nema í tiltölulega fáum íbúðum í höllinni. Í Versölum gekk þó enginn soltinn til sængur. Sólkonungurinn lagði útvöldum þá skyldu á herðar að bjóða nágrönnum sínum til kvöldverðar.

 

Maturinn kom frá eldhúsum hans hátignar og þeir sem höfðu hlotið hlutverk gestgjafa þurftu daglega að sætta sig við 20-30 gesti á matmálstímum.

 

Konungurinn neyddur út

Bæði á stjórnarárum sólkonungsins og síðari konunga tóku Versalir stöðugum breytingum. Konungar byggðu við og breyttu og lífskjörin tóku breytingum.

 

Skömmu fyrir dauða sinn 1715 ákvað Loðvík að reyna að losna við hinn eilífa fnyk og skipaði svo fyrir að allur saur yrði fjarlægður úr höllinni einu sinni í viku. Bæði andlát konungs og aukið hreinlæti varð til þess að hertoginn af Saint-Simon vonaðist eftir betri tíð.

 

Hann hafði nefnilega sagt upp stöðu sinni í hernum, þegar honum þótti fram hjá sér gengið við stöðuhækkun og féll þá í ónáð. Slíkan uppreisnaranda leið Loðvík 14. ekki.

 

Í tíð Loðvíks 15. reyndi Saint Simon að þoka sér ofar í virðingarstiganum en án verulegs árangurs. Þegar hann dó 1755, var hann fyrir löngu fluttur frá Versölum.

 

Hann náði því ekki að upplifa breytinguna þegar ensku vatnsklósettin voru sett upp en þar með létti loks hinum eilífa fnyk sem einkennt hafði Versali.

 

En það kom önnur lykt í staðinn. Seint á 18. öld voru settar upp kamínur og litlar eldhúsinnréttingar í margar íbúðir.

 

Þessum endurbótum fylgdi matar- og reykjarlykt sem fyllti gangana. Auk þess hrúgaðist upp bæði óhreint leirtau, matarleifar og annað eldhúsrusl.

Hin unga drottning skipaði hóp hirðmeyja og bænda til landbúnaðarleikja.

Drottningin skapaði sér ímyndunarheim

Þegar Marie-Antoinette var ekki upptekin við að kaupa sér rándýr föt eða skó, lék hún sér sem almenn hjarðstúlka í bændaþorpi.

 

Marie-Antoinette var aðeins 14 ára þegar hún var gift krónprinsi Frakka 1770. Hún var keisaradóttir og uppalin við strangar hirðreglur í Austurríki. Versali upplifði hún sem eins konar gullbúr.

 

Í leiðindum sínum eyddi hún fúlgum fjár í kjóla, skó og skartgripi, þar til hún fann allt aðra leið til að drepa tímann. Árið 1783 hafði hún verið drottning Frakklands í níu ár og þá lét hún byggja litla eftirlíkingu af þorpi, Le Hameau, í garði hjá Versölum.

 

Þar voru lítil býli, mjólkurbú og kornmylla sem raðað var kringum lítið vatn. Í Le Hameau fékk hún útrás fyrir draumkennda ímynd sína um paradís sveitasælunnar utan við allar þær stífu reglur sem giltu við hirðina. Hún klæddist þá sem bóndakona í einföldum bómullarkjól, með svuntu og stráhatt.

 

Til að leika aðra íbúa draumalandsins leigði hún fjölmargar mjaltastúlkur, hjarðmenn og bændur.

En Loðvík 16. og drottning hans Marie-Antoinette sem nú voru við stjórnvölinn, þurftu ekki að hafa áhyggjur.

 

Í vistarverum þeirra vantaði aldrei neitt og þau veltu sér upp úr auðsæld á sama tíma og djúp efnahagslægð olli mikilli og almennri fátækt meðal Frakka.

 

Vesöld almennings hafði engin áhrif og í Versölum gekk sældarlífið sinn vanagang.

 

Fúlgur fjár fóru í fatakaup, glæsiveislur og dansleiki. Nú hafði almenningur hins vegar enga þolinmæði fyrir sukkinu.

 

Óhóf konungsfjölskyldunnar vakti fyrirlitningu um allt land og þó einkum í París, þar sem mikill skortur var á brauði og kornvörum.

 

Haustið 1789 kom svo að uppgjörinu við konungsvaldið og Versali sem var nokkurs konar táknmynd um bilið milli hástéttarinnar og alþýðu. Undir slagorðinu „Brauð fyrir fólkið“ fylktu mörg þúsund karlar og konur liði í kröfugöngu frá París til Versala.

 

Almúginn hertók höllina vopnaður heykvíslum, hnífum og byssum og krafðist aðgerða af hálfu konungs. Byltingarsinnarnir þvinguðu konungsfjölskylduna til að yfirgefa Versali og setjast að í Tuilerieshöllinni í París.

Víggreifar Parísarkonur skunduðu til Versala árið 1789. Þær neyddu konunginn til að flytja til Parísar og búa meðal almennings.

107 ára sögu Versala sem hinnar glæstu valdamiðstöðvar var þar með lokið. Auðmýking konungs og drottningar var þó aðeins að hefjast. Konungdæmið var afnumið 1792 og árið eftir voru bæði Loðvík 16. og Marie Antoinette gerð höfðinu styttri í fallöxinni.

 

Eftir aftöku konungshjónanna voru hengdar upp auglýsingar víðs vegar um París. Allt innbúið í Versölum skyldi selt á uppboði.

 

Meðal þess sem mesta athygli vakti voru silkilök, hrosshársdýnur, sófar, hægindastólar, ljósakrónur, speglar og reyndar fjölmargt fleira.

 

Þótt Versalir væru þannig rúnir að innan fengu byggingarnar að standa og sum húsgögnin voru síðar flutt þangað aftur.

 

Nú eru Versalir einn fjölsóttasti ferðamannastaðurinn í Frakklandi og um fimm milljónir manna koma þangað á ári hverju.

 

Versalir eftir dauða Loðvíks 14.

Þýskir aðalsmenn söfnuðust saman í speglasalnum 1871 til að krýna keisara sinn.

Höllin endaði sem ráðstefnumiðstöð

Franska byltingin batt enda á blómaskeið Versala. En jafnvel þeir hörðu byltingarsinnar sem ekki hikuðu við að láta hálshöggva Loðvík 16. 1793 gátu ekki fengið sig til að rífa hallarmannvirkin.

 

Versalir urðu aftur að opinberri höll þegar Napóleon tók völdin en hvorki hann né síðari tíma ráðamenn settust þar að.

 

Þess í stað voru Versalir gerðir að safni sem opnað var almenningi 1837.

 

Stöku sinnum sneri hátíðabragurinn þó aftur til hallar sólkonungsins. Árið 1871 söfnuðust þýskir aðalsmenn þar saman til að krýna Prússakonung til keisara.

 

Og tæpri hálfri öld síðar hittust sigurvegarar fyrri heimsstyrjaldar þar til að ganga frá Versalasamningunum – sem Þjóðverjum var gert að undirgangast.

Meira um Versali:

 • Tony Spawforth, Versailles – a Biography of a Palace, St. Martin’s Press, 2008.

 

 • Pascal Bonafoux, Behind the Scenes in Versailles, Chêne, 2009.

 

 • Valérie Bajou, Versailles, Abrams, 2011.

 

 • Lucy Norton & Saint-Simon: Saint-Simon at Versailles, Hamish Hamilton, 1980.

 

HÖFUNDUR: Stine Overby og Maria Appel

Shutterstock,© Wikimedia Commons/Claude Deruet ,© Louvre Museum,© Vaux-le-Vicomte,© Bridgeman/The Royal Collection & Polfoto/Corbis,,© Malden Public Library,© Polfoto/Corbis,© Scanpix/Mary Evans,

Náttúran

Hér lifa hættulegustu marglyttur heims

Maðurinn

Þetta eru sjö mikilvægustu skilningarvitin

Maðurinn

Þetta eru sjö mikilvægustu skilningarvitin

Lifandi Saga

Kveðjuveisla Washingtons endaði með rosalegu fylleríi

Lifandi Saga

Kveðjuveisla Washingtons endaði með rosalegu fylleríi

Náttúran

Spendýr og eðlur skiptu um hlutverk

Náttúran

Hvernig brögðuðust risaeðlur?

Lifandi Saga

13 ódauðleg kveðjuorð

NÝJASTA NÝTT

Saga

Með hverju var þurrkað áður en klósettpappírinn var fundinn upp?

Maðurinn

Mikilvægt atriði getur komið í veg fyrir að börn verði nærsýn

Maðurinn

Hver er sneggsti vöði líkamans?

Maðurinn

Karlhormón styttir ævina

Heilsa

Sannleikurinn um kaffi

Maðurinn

Þess vegna fá sumir fremur marbletti en aðrir

Tækni

140.000 veirur hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Fimm svefntruflanir sem geta komið þér til að kvíða nóttinni

Náttúran

Hvers vegna mala kettir?

Maðurinn

Þvagið segir ýmislegt um heilsu okkar

Saga

Með hverju var þurrkað áður en klósettpappírinn var fundinn upp?

Maðurinn

Mikilvægt atriði getur komið í veg fyrir að börn verði nærsýn

Maðurinn

Hver er sneggsti vöði líkamans?

Maðurinn

Karlhormón styttir ævina

Heilsa

Sannleikurinn um kaffi

Maðurinn

Þess vegna fá sumir fremur marbletti en aðrir

Tækni

140.000 veirur hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Fimm svefntruflanir sem geta komið þér til að kvíða nóttinni

Náttúran

Hvers vegna mala kettir?

Maðurinn

Þvagið segir ýmislegt um heilsu okkar

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Heilsa

Mold undir nöglum barna skiptir máli fyrir ónæmiskerfið

Heilsa

Mold undir nöglum barna skiptir máli fyrir ónæmiskerfið

Lifandi Saga

England og Frakkland: Bestu óvinir í þúsund ár

Lifandi Saga

England og Frakkland: Bestu óvinir í þúsund ár

Jörðin

Er Ísland eftirstöðvar af sokknu meginlandi?

Maðurinn

Einkabörn eru með sérstakan heila

Alheimurinn

Satúrnus: Gasplánetan með hringina fögru

Alheimurinn

Sólmyrkvi 2024 – Hvað er það og hvenær sést hann á Íslandi?

Vinsælast

1

Maðurinn

Þvagið segir ýmislegt um heilsu okkar

2

Náttúran

Hvers vegna mala kettir?

3

Maðurinn

Þess vegna fá sumir fremur marbletti en aðrir

4

Maðurinn

Er hættulegt að halda í sér prumpinu?

5

Heilsa

Sannleikurinn um kaffi

6

Maðurinn

Mikilvægt atriði getur komið í veg fyrir að börn verði nærsýn

1

Maðurinn

Þvagið segir ýmislegt um heilsu okkar

2

Náttúran

Hvers vegna mala kettir?

3

Maðurinn

Þess vegna fá sumir fremur marbletti en aðrir

4

Heilsa

Sannleikurinn um kaffi

5

Maðurinn

Mikilvægt atriði getur komið í veg fyrir að börn verði nærsýn

6

Alheimurinn

Hvað ef við höfum í raun fengið heimsóknir úr geimnum?

Náttúran

Háhyrningurinn: líklega skæðasta ránspendýr sögunnar

Jörðin

Vísindamenn finna sönnun fyrir stærsta jarðskjálfta mannkynssögunnar

Maðurinn

Af hverju get ég ekki kitlað sjálfan mig?

Menning

11 dýrustu málverk heims

Menning

Stærstu borgir heims

Maðurinn

Framtíðarmaturinn borinn fram: Borðum þörunga!

Maðurinn

7 ósannar mýtur um líkamann

Náttúran

Hvers vegna eru sólin og tunglið ekki með sama lit? 

Maðurinn

Síamstvíburar giftust og eignuðust börn

Lifandi Saga

Guðfaðir hrollvekjunnar: Edgar Allan Poe: Enn hvílir dulúð yfir meistara myrkranna

Menning og saga

Stórt nef arfur fortíðarinnar

Heilsa

Sannleikurinn um vítamín

Með hverju var þurrkað áður en klósettpappírinn var fundinn upp?

Hvernig kláraði fólk salernisferðina áður en klósettpappírinn kom til sögunnar?

Saga

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is