Með góðu þefskyni má afla mikilla upplýsinga um umhverfið og katta-lemúrar kunna að nýta sér það. Líffræðingar hjá Dukeháskóla í Norðu-Karólínu í Bandaríkjunum hafa nýlega uppgötvað að dýrin þekkja ættingja sína á lyktinni.
Flest hryggdýr eru fær um að þekkja nánustu ættingja sína. Þetta hefur m.a. þann kost að koma í veg fyrir skyldleikaræktun, en hún leiðir oftast til þess að draga úr lífsmöguleikum afkvæmanna. Hvernig ættingjar þekkjast, er spurning sem menn hafa lengi rætt og velt fyrir sér. Að því er prímötum viðkemur hafa vísindamenn yfirleitt talið að þetta væri hluti af félagslegu uppeldi.
Bandarísku líffræðingarnir athuguðu hvort lyktarefni gætu líka komið við sögu. Þeir efnagreindu lyktarefni 17 kvendýra og 19 karldýra af tegundinni katta-lemúr og komust að því að alls var hér að finna blöndu 170 efna, m.a. fitusýrur og kolildi. Þegar lyktarefnasamsetning einstakra dýra var borin saman við erfðamassa, kom í ljós að efnablanda skyldra dýra var mjög lík. Samhengið reyndist öflugast á mökunartímanum, einmitt þegar mikilvægast er að þekkja nána ættingja til að forðast skyldleikaræktun.