Mussolini losaði sig við jólin
„Mussolini hefur aftur ráðist til atlögu við jólin“.
Þannig ritaði Galeazzo Ciano, utanríkisráðherra Ítalíu og tengdasonur Benitos Mussolini, í dagbók sína árið 1941.
Mussolini var nefnilega svarinn andstæðingur jólanna. Hann hafði megna óbeit á kapítalistum og í hans augum voru jólin kapítalísk hátíð sem einvörðungu snerust um græðgi og neyslu.
Mussolini var þó sannfærður um að hann gæti ekki beinlínis bannað kaþólskum löndum sínum að halda jólin. Þess í stað lagði hann blátt bann við að dagblöðin fjölluðu með nokkru móti um jólin og fæðingu frelsarans.
Á aðfangadagskvöld reyndi hann að halda eins mörgum framámönnum landsins frá kirkjunum og hann mögulega gat, með því að skipuleggja eins marga fundi og hugsast gat.
„Jólin eru hvorki meira né minna en enn einn dagurinn í desember. Og ég er sá maður í veröldinni sem hef hvað minnstan áhuga á þessari trúarlegu hátíð“, var haft eftir einræðisherranum.
Þó svo að Mussolini þyldi ekki jólin notaði hann engu að síður tækifærið til að færa sér þá jólagjöf að hækka sjálfan sig í tign.
Nasistar ollu Mussolini vonbrigðum
Kapítalisminn var þó ekki eina ásteytingarefni Mussolinis hvað jólin áhrærði. Honum var í nöp við öll trúarbrögð og batt von við að nasistarnir myndu mynda með sér bandalag gegn jólunum:
„Hann er furðu lostinn yfir því“, ritaði tengdasonurinn Ciano, „að Þjóðverjar skuli ekki fyrir löngu vera búnir að banna þessa hátíð sem aðeins minnir hann á eitt, nefnilega fæðingu gyðings sem færði heiminum úrkynjaðar og skaðlegar hugmyndir og sem á útsmoginn hátt lét Ítalíu leysast upp í höndum páfanna“.
Mussolini hlaut nýjan titil í jólagjöf
Þrátt fyrir að Mussolini hefði óbeit á jólunum sem hann aðeins áleit vera gjafaregn kapítalistanna, þótti honum engu að síður við hæfi að gera vel við sjálfan sig.
Á aðfangadagskvöld, árið 1925, samþykkti hann nefnilega hin svokölluðu jólalög sem breyttu nafnbót hans sem „forseta ríkisstjórnarinnar“ í „forsætisráðherra“.
Þessi nýja nafnbót gerði það að verkum að konungurinn var nú sá eini sem gat steypt Mussolini af stóli og að hann þurfti nú ekki lengur að svara fyrir gjörðir sínar gagnvart þinginu.
Mussolini hafði gefið sjálfum sér ótvíræða einræðisherranafnbót í jólagjöf.
Lestu meira
G. Williamson: The Age of the Dictators: A Study of the European Dictatorships, 1918-53. Routledge Press, 2007.