Í stórri finnskri rannsókn sem stóð yfir í 37 ár hafa vísindamenn fundið skýrt mynstur.
Fólk sem fer seint að sofa á fremur á hættu að deyja tiltölulega snemma en fólk sem fer snemma að sofa.
Það kemur þó á óvart að svefnvenjan er ekki ástæðan.
Vísindamennirnir telja skýringuna fremur þá að nátthrafnarnir hafi tilhneigingu til að drekka og reykja meira en morgunhanarnir.
Þetta kemur fram í rannsókn sem birt var í Chronobiology International.
Niðurstöðurnar byggja á gögnum 22.976 finnskra fullorðinna tvíbura sem vísindamennirnir fylgdust náið með á árabilinu 1981-2018.
42,9% skilgreindu sig sem afgerandi eða oft kvöldhresst fólk.
Fyrri rannsóknir hafa bent til að fólk sem fer seint að sofa hafi hærri dánarlíkur og tilhneigingu til meiri áhættusækni en svokallað A-fólk.
Þessi rannsókn bendir hins vegar til að meiri dánarlíkur B-fólks stafi ekki af þessum svefnvenjum.
Níu prósent meiri líkur á að deyja
Á þeim 37 árum sem rannsóknin stóð yfir létust 8.828 af þátttakendunum.
Greina má 6 manngerðir
Rússneski svefnsérfræðingurinn Arcady A. Putilov greindi bæði A- og B-týpur en líka fjórar aðrar gerðir.
Morguntýpan (A-fólk)
A-fólk er morgunhresst og miðlungshresst um miðjan dag en verður þreytt á kvöldin.
Kvöldtýpan (B-fólk)
B-fólk er sljótt á morgnanna, miðlungshresst um miðjan dag en mun hressara á kvöldin.
Hávirka týpan
Þessi manngerð heldur stöðugt mikilli virkni og er hresst allan daginn.
Siestatýpan
Þetta fólk er morgunhresst en þarf að fá sér lúr um miðjan dag og er miðlungsvirkt á kvöldin.
Daghressa týpan
Þetta fólk er lengi að komast í gang og er hressast um hádaginn en miðlungsvirkt á kvöldin.
Lágvirka týpan
Þetta fólk er miðlungsvirkt allan tímann frá morgni til kvölds.
Við athugun á finnskum dánarskráningum sáu vísindamennirnir að dánarlíkur voru 9% hærri hjá þeim sem skilgreindu sig sem afgerandi kvöldhresst fólk en hinum sem skilgreindu sig áberandi morgunhresst fólk, alveg án tillits til ástæðu andlátsins.
Það B-fólk sem ekki reykti og drakk ekki nema í hófi, reyndist þó alls ekki hafa neitt meiri dánarlíkur en aðrir.
Finnsku vísindamennirnir treystu sér þess vegna til að álykta að hærri dánartíðni B-fólksins væri ekki bara sú að þetta fólk færi seint í háttinn, heldur væri skaðvaldurinn tilhneigingin til að reykja og drekka.
Við greininguna var tekið tillit til þátta á borð við menntun, BMI og svefnvenjur ásamt því hversu mikið fólk reykti og drakk.