Nýjar aldursgreiningar á hellamyndum á Spáni snúa gömlum rökræðum um Neandertalsmenn á haus. Stóra spurningin hefur verið sú hvort eitthvað af hellamyndum í Evrópu gæti mögulega verið eftir þessa útdauðu ættkvísl fornmanna.
Rennandi vatn afhjúpar aldurinn
Hópur fornleifafræðinga hefur aldursgreint hellamyndir sem fundust í þremur hellum á Spáni og þær reyndust a.m.k. 64.800 ára gamlar. Þær voru því gerðar tugum þúsunda ára áður en nútímamaðurinn komst svo langt vestur eftir Evrópu.
Það er erfitt að aldursgreina hellamyndir með hinni hefðbundnu kolefnisgreiningu, þar eð í þeim er sjaldan að finna nein lífræn efni.
Í staðinn voru rannsakaðar fíngerðar leifar af kalkspati, sem rennandi vatn hefur skilið eftir sig og hefur í tímans rás myndað þunna filmu yfir myndirnar.
Neandertalsmenn lifðu í Evrópu og breiddust út til Asíu. Þeir dóu út fyrir um 30-40.000 árum. Appelsínugul og rauð málning á klöppunum er eftir Neandertalsmenn og frá því löngu áður en nútímaðurinn kom á þessar slóðir.
Í kalkspati er að finna örlítið úran, sem á löngum tíma sundrast í þóríum. Og með því að mæla þóríuminnhaldið í kalkspatinu var unnt að reikna út þennan háa aldur.
Listrænir neandertalsmenn
Þótt spænsku hellamyndirnir séu ekki jafn nákvæmar og yngri myndir, sýna þær að Neandertalsmenn hafa verið færir um að tjá sig listrænt og hugsa í táknum.
Flestir vísindamenn hafa talið að þetta væri aðeins á færi nútímamannsins. Þessi hæfni hefur m.a.s. verið álitin ein af ástæðum þess að Neandertalsmenn urðu undir í samkeppninni við nútímamanninn, en þessar aldursgreiningar sýna að svo einföld er lausn þeirrar ráðgátu ekki.