Gamlar skotflaugar eru til vandræða í geimnum þar sem þær hringsóla nú um jörðu ásamt öðru geimrusli og valda hættu á árekstrum við t.d. gervihnetti. En nú hafa vísindamenn hjá fyrirtækinu EADS Astrium, sem framleiðir evrópsku eldflaugina Ariane 5, stungið upp á óvæntri lausn: Á eldflaugarnar má einfaldlega setja segl.
Hlutar þeirra eldflauga sem notaðar eru til að skjóta upp gervihnöttum, geta verið heila öld á sveimi áður en þær ná inn í gufuhvolfið, þar sem þær brenna upp. Með því að útbúa eldflaugina með segli sem flettist sundur eftir að eldflaugin hefur skilað af sér farminum, má stytta þennan tíma niður í 25 ár.
Stórt yfirborð seglsins skapar mótstöðu og hægir nægilega á eldflaugaþrepinu til að gufuhvolfið nær tangarhaldi á því mun fyrr.
Seglið verður gert úr næfurþunnri himnu og fest á álramma sem haldið verður sundur með köfnunarefnisgasi. Til að draga skotþrep Ariane 5 hraðar inn að gufuhvolfinu þarf seglið að vera 350 fermetrar að flatarmáli. Í fyrstu atrennu hyggjast vísindamennirnir þó prófa tæknina á gervihnetti.