Alheimurinn

Nú leita vísindamenn að geimverum í hafinu

Í áratugi höfum við árangurslaust leitað eftir boðmerkjum frá geimverum en kannski ættum við frekar að leita eftir leifum af farartækjum þeirra. Árið 2014 fékk jörðin heimsókn af óþekktu fyrirbæri frá öðru sólkerfi – nú vilja vísindamenn fiska leifarnar upp úr djúpinu.

BIRT: 07/10/2023

Þann 8. janúar árið 2014 lýstist himininn upp norður af Papúa Nýju Gíneu af glóandi eldkúlu. Um 300 km frá eyjunni Manus skall loftsteinn niður í gegnum lofthjúp jarðar og brotum af honum rigndi niður í hafið.

 

Nú heldur teymi stjarnfræðinga af stað í afar sérstaka veiðiferð. Leiðangursskipið hyggst stunda botnveiðar, þar sem loftsteininn féll niður í Kyrrahaf. Hefðbundnum veiðarfærum er þó skipt út fyrir öfluga segla, því vísindamennirnir eru að leita eftir brotum úr framandi geimfari.

 

Þetta var nefnilega ekki neitt venjulegt fyrirbæri sem skaust inn í lofthjúp jarðar árið 2014.

 

Loftsteinninn er ekki upprunninn úr sólkerfinu heldur frá öðru stjörnukerfi órafjarri okkur og samkvæmt vísindamönnum er ekki hægt að afskrifa það að loftsteinninn hafi í raun verið smíðisgripur framandi siðmenningar.

 

Höfuðpaur þessa leiðangurs sem nefnist Galileo Project er hinn virti stjarneðlisfræðingur Avi Loeb sem starfar hjá Harvard. Galileo Project hefur það eina markmið að leita eftir framandi smíðisgripum frá ókunnugum siðmenningum – vel að merkja með vísindalegum hætti.

Hluturinn 'Oumuamua heimsótti sólkerfið árið 2017 og var fyrsti ,,gestur” framandi heims sem hefur uppgötvast.

Fjögur framandi fyrirbæri hafa heimsótt okkur

Fyrirbæri frá öðrum stjörnukerfum eru kallaðir miðgeimsfyrirbæri. Sum þeirra ferðast aftur út úr sólkerfinu á miklum hraða en önnur lenda á lofthjúpi jarðar og skella á jörðinni..

 

2014: Herinn uppgötvaði loftstein

Þann 8. janúar árið 2014 lenti hlutur á lofthjúpi jarðar á mjög miklum hraða. Skynjarar hersins uppgötvuðu hann og árið 2019 greindu stjarneðlisfræðingarnir Avi Loeb og Amir Siraj fyrirbærið sem miðgeimsloftstein.

 

2017: ´Oumuamua var mjög svo óvenjulegt

Fyrsta miðgeimsfyrirbærið, ʻOumuamua, uppgötvaðist í október árið 2017 af Pan-STARRS sjónaukanum í Havaii. ʻOumuamua er annað hvort mjög aflangt eða alveg flatt og ólíkt öllu öðru í sólkerfinu.

 

2017: Hlutur hrapaði í Atlantshafið

Loftsteinn heimsótti sólkerfið árið 2017 og hrapaði í Atlantshafið vestur af Portúgal þann 9. mars. Hluturinn uppötvaðist af herskynjurum og síðar skilgreindur sem miðgeimsloftsteinn af Avi Loeb og Amir Siraj.

 

2019: Borisov leit út eins og venjuleg halastjarna

Í ágúst árið 2019 kom áhugastjörnufræðingurinn Gennady Borisov auga á nýja halastjörnu á himninum. Fyrirbærið reyndist vera frá framandi stjörnukerfi og var kallað 2I/Borisov. Braut hennar var einstök en þar fyrir utan hagaði hún sér eins og aðrar halastjörnur sólkerfisins.

Leitin að loftsteinabrotum á hafsbotni er þó einungis upphafið. Þessi stofnun sem er fjármögnuð af einkaaðilum, hyggst einnig setja upp hátæknilegar mælingastöðvar víðs vegar um hnöttinn sem eiga í sífellu að rannsaka himininn í leit að framandi fyrirbærum – eða svokölluðum fljúgandi furðuhlutum. Markmiðið er að svara í eitt skipti fyrir öll spurningunni: Hefur jörðin fengið heimsókn utan úr geimnum?

 

Leit að framandi geimförum

Um áratugaskeið hafa stjarneðlisfræðingar skannað himinhvolfið í leit að boðmerkjum frá geimverum í formi útvarpsbylgna eða leysigeisla.

Hingað til höfum við aðeins hlustað eftir merkjum geimvera. Nú mun Galileo-verkefnið leita að geimförum þeirra.

En til þessa hefur hin svonefnda SETI-rannsókn (Search for Extra Terrestrial Intelligence) ekkert fundið. Það hefur orðið til þess að stjarnfræðingar eins og Avi Loeb telja skilvirkara að leita eftir ójarðneskum smíðisgripum – við SETI verður þannig bætt SETA (Search for Extra Terrestrial Artifacts).

 

Avi Loeb hefur safnað saman hópi vísindamanna, verkfræðinga, áhugamanna um FFH og fjársterkra aðila í þetta metnaðarfulla Galileo Project sem mun bæði leita eftir framandi geimverum á jörðu og fyrirbærum sem komin eru að langt utan úr geimnum.

 

Þegar bandarísku Pioneer og Voyager könnunargeimförin voru send af stað út í geim á áttunda áratug liðinnar aldar var í þeim að finna kveðjur frá mannkyni til vitsmunavera sem gætu mögulega fundið gripina eftir mörg þúsund ár eða milljónir ára.

 

Með sama hætti getum við manneskjurnar verið svo heppnar að uppgötva könnunarfar sem framandi vitsmunaverur sendu út í geim fyrir löngu síðan – og svo kann að vera að jörðin hafi nú þegar fengið slíka heimsókn.

Tvær gullhúðaðar skífur með hljóðum og myndum frá jörðu voru sendar með Voyager könnunarförunum árið 1977. Kannski geimverur finni þær einhvern tímann.

Ef könnunarfar frá framandi heimkynnum setur stefnuna beint á hnött okkar hittir það fyrst fyrir lofthjúp jarðar. Vegna núningsmótstöðunnar mun fyrirbærið og loftið umhverfis það hitna upp í þúsund gráður og byrja að glóa og leysast í sundur.

 

Miðstöð NASA fyrir fyrirbæri nærri jörðu fylgist grannt með loftsteinum og halastjörnum sem koma nærri jörðu og skráir gaumgæfilega slíkar ferðir í gagnabanka sinn og það sama á við þau fyrirbæri sem ná inn í lofthjúp jarðar og lýsast upp.

 

Gögn um slíkar eldkúlur eru vandlega skráð niður. Herinn og leyniþjónustan vilja nefnilega gjarnan uppgötva mögulegar eldflaugasendingar óvinveittra þjóða og aukalegur ávinningur af þeirri leit felst í skrásetningu loftsteina.

Loftsteinar lýsast upp í lofthjúpnum og NASA skráir öll stærri blik. Sumir loftsteinanna geta verið komnir frá öðrum sólkerfum. Blátt sýnir minnsta orku en rautt mesta.

Í apríl árið 2022 opinberaði bandaríski herinn margra áratuga gömul gögn og þá gátu allir vísindamenn í heiminum nú loksins kafað í skjölin sem innihalda 932 dæmi um slíka eldblossa.

 

Loftsteinninn sterkari en járn

Áður en herinn hafði opinberað þessi nákvæmu gögn um loftsteina voru Avi Loeb sem og stjarneðlisfræðingurinn Amir Siraj farnir að leita að loftsteinum utan úr miðgeimi. Þau fátæklegu gögn sem var að finna fram til ársins 2019 innihéldu þó dæmi um einn loftsteinn sem kom niður nærri Papúa Nýju-Gíenu árið 2014.

90 cm var þvermálið á fyrirbærinu sem skall á jörðinni árið 2014 og lenti í Kyrrahafi.

Loftsteinninn skall á lofthjúpi jarðar með gríðarlegum hraða sem nam um 160.000 km/klst. og nánari greiningar á braut loftsteinsins sýndu að svo hraðskreitt fyrirbæri gæti ekki verið komið úr sólkerfinu sjálfu, heldur einhvers staðar mun lengra að.

 

Þvermál fyrirbærisins var um 90 cm og það virðist hafa brotnað í sundur 18,7 kílómetrum yfir sjávarfleti. Þannig náði það lengra niður í gegnum lofthjúpinn en loftsteinar gjarnan gera áður en þeir tætast í sundur vegna loftmótstöðunnar.

Dularfullur hlutur skall niður í Kyrrahaf

Sérfræðingarnir í Galileo Project eru að leita eftir hlutum sem kunna að vera komnir frá framandi siðmenningu. Fyrst á að leita að loftsteinabrotum sem dreifðust yfir Kyrrahafi í janúar 2014.

1. Myndavélar nema eldkúlur á himni

Þegar loftsteinninn skall á lofthjúp jarðar á ógnarhraða lýsti hann upp eins og glóandi eldkúla og myndavélar náðu því. Braut fyrirbærisins sýndi stjarneðlisfræðingum að það væri ekki komið frá okkar sólkerfi.

2. Vísindamenn reikna út lendingarsvæðið

Loftmótstaðan í lofthjúpnum sundraði loftsteininum en út frá braut eldkúlunnar geta vísindamenn reiknað út hvar fjölmörg brot lentu í Kyrrahafi norðan við Papua Nýju-Gíneu, 300 km frá eyjunni Manus.

3. Brotum safnað af hafsbotni

Vísindamennirnir hyggjast rannsaka 100 km2 stórt svæði með segulsleða sem er dreginn yfir hafsbotni. Aðferð þessi hefur áður verið notuð til að finna venjuleg loftsteinabrot úr sólkerfinu upp úr hafinu.

Í ljósi útreikninga á þrýstingnum hafa Avi Loeb og Amir Siraj ályktað að þetta miðgeimsfyrirbæri hafi samanstaðið af efni sem er mun sterkara en járn. Fyrir vikið er mjög eftirsóknarvert að rannsaka það nánar, þar sem framandi siðmenningar gætu einmitt hafa fundið upp mjög endingargóðar efnasamsetningar.

 

Út frá braut loftsteinsins og eins hvar hann brotnaði hafa vísindamennirnir reiknað út að brotin úr honum hljóta að hafa lent niður á um 100 km2 stóru svæði Kyrrahafsins norðan við Papúa Nýju-Gíenu.

 

Þar hyggjast vísindamennirnir í Galileo Project draga plastsleða með sterkum seglum fram og aftur yfir hafsbotninn á um 1.700 metra dýpi. Leiðangur þessi mun leggja af stað nú í ár (2023).

Vísindamenn hafa áður safnað venjulegu loftsteinaleifum með því að draga segla yfir hafsbotninn. Galileo verkefninu er ætlað að veiða upp leifar loftsteins úr öðru sólkerfi.

En þó að loftsteinninn hafi verið óvenjulega sterkbyggður og komið úr öðru sólkerfi jafngildir það að sjálfsögðu ekki hinu, að geimverur hafi búið hann til.

 

Þetta kann til dæmis að hafa verið málmhlutur sem skaust út úr einhverri stjörnunni þegar hún breyttist í sprengistjörnu og tættist í sundur endur fyrir löngu.

 

En möguleikarnir á því að brotin á hafsbotni séu leifar af framandi geimfari styrkjast samkvæmt Loeb af öðrum framandi gesti, nefnilega ‘Oumuamua sem sást til árið 2017.

 

Útreikningar benda til að ‘Oumuamua hafi haft óvenjulegt pönnukökuform og Loeb hefur komið fram með þá umdeildu tilgátu að fyrirbæri þetta hafi verið í raun sólarsegl sem hafi rifnað af framandi geimskipi.

Vísindamenn vilja komast í tæri við framandi fyrirbæri.

Kannski fær sólkerfið heimsókn geimfara frá framandi heimum. Til þess að uppgötva slík geimför mun Galileo Project leita uppi merki um þau á himni með sjálfvirku kerfi skynjara – og kannski getum við komist í návígi við slík geimför dag einn.

1. Sjónauki skannar stöðugt himininn

Á hverri nóttu tekur m.a. Pan-STAR-RSI sjónaukinn á Hawaii myndir af himninum. Tölva ber síðan myndirnar saman frá hverjum tíma og ef það er eitthvað nýtt fyrirbæri eins og ‘Oumuamua sem dúkkar upp er stjarnfræðingum gert samstundis viðvart.

2. Brautin afhjúpar framandi fyrirbæri

Mörgum sjónaukum er beint að fyrirbærinu og fylgja þeir því í marga sólarhringa til að ákvarða braut þess. Á meðan plánetur sólkerfisins, loftsteinar og halastjörnur eru með lokaðar brautir hafa fyrirbæri utan úr miðgeimi opna og torræðari braut (gul).

3. Könnunarfarið fylgist með eftirförinni

Í framtíðinni getur geimfar legið átekta í geimnum og fylgt eftir fyrirbærum utan úr miðgeimi áður en þau yfirgefa sólkerfið á ný. Skynjarar geta ráðið í hvort þetta séu náttúruleg fyrirbæri eða sköpuð af framandi siðmenningu.

Þegar hinn stóri Vera C. Rubin-sjónauki í Chile verður tekinn í notkun fá vísindamenn mun betri tækifæri til að uppgötva fleiri fyrirbæri utan úr miðgeimi sem fara um geim okkar. En Loeb og aðrir vísindamenn í Galileo Project hyggjast einnig leita eftir framandi gestum mun nær okkur – í lofthjúpi jarðar.

 

Í áranna rás hafa verið ótal meira eða minna skrásettar athuganir á fljúgandi furðuhlutum víðs vegar á jörðu en árið 2021 opinberaði bandaríska hermálaráðuneytið skýrslu um 144 athuganir á UAP (Unidentified Areal Phenomena) eins og það nefnist nú á dögum.

 

Jafnframt birti herinn fjölmörg myndskeið af fljúgandi fyrirbærum. Bandarísk yfirvöld vita í raun ekkert um hvað þessi myndskeið sýna í raun og veru en Galileo Project hyggst reyna að leysa þá ráðgátu með því að safna kerfisbundið saman öllum vísindalegum gögnum.

Ríkisstjórn BNA hefur opinberað myndskeið af óþekktum fljúgandi fyrirbærum. Avi Loeb ætlar að koma upp heilu neti skynjara til að skera úr um það hvort jörðin fái heimsóknir utan úr geimnum.

Á um 400 stöðum víðs vegar á hnettinum munu þessir sérfræðingar koma upp hátæknilegum mælingastöðvum sem rýna í himinhvolfið allan sólarhringinn með myndavélum og öðrum skynjurum eins og ratsjám, hljóðnemum, geigermælum og segulmælum.

 

Fyrsta mælingastöðin er þegar til staðar og er nú verið að prófa hana á þaki byggingar á Harvard University.

 

Ef fjármagnið þrýtur ekki og allar þessar metnaðarfullu áætlanir verða að raunveruleika mun Galileo Project koma leitinni að ójarðneskum fyrirbærum upp á annað stig.

 

Avi Loeb veit ekki með vissu hvort jörðin fái heimsókn frá framandi heimum. En hann er algjörlega sannfærður um að það þurfi kerfisbundna vísindalega leit til að uppgötva slíka heimsókn, eigi hún sér einhvern tímann stað.

HÖFUNDUR: HENRIK BENDIX

© Shutterstock, Daniel Vala,© The Pan-STARRS1 telescope,© NASA/JPL,© NASA/JPL/Caltech,© Robert Mikaelyan/NASA, © Shutterstock, © Courtesy of Susan Poulton/Ocean Exploration Trust, © Courtesy of Susan Poulton/Ocean Exploration Trust,© Qub/SWNS/Ritzau Scanpix, © The Pan-STARRS 1 telescope, © U.S. Navy

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Alheimurinn

Hvernig myndast gull?

Lifandi Saga

Leið nasista til valda í Þýskalandi

Alheimurinn

Stjörnuskífa finnst í framandi stjörnuþoku

Náttúran

Hvað ef allar örverurnar hyrfu?

Náttúran

Hundategundin ræður litlu um hegðun hunda

Heilsa

Deyr maður úr svefnleysi?

Lifandi Saga

Hvernig varð Rússland svona stórt?

Maðurinn

Svona gróa sár

Tækni

Gervigreindin getur nú spáð fyrir um líf og dauða

Maðurinn

Þannig þekkjast félagsblindir

Lifandi Saga

Dr. Kellogg rak út djöfulinn með kornflexi 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is