Stjörnufræði
Geimsjónauki NASA, Spitzer, hefur náð einstæðum myndum af nýfæddri stjörnu sem blæs tveimur stórum gasblöðrum út í geiminn.
Blöðrurnar mynduðust þegar stjarnan sendi frá sér gas sem síðan rakst á það ryk- og gasský sem umlykur stjörnuna.
Stjörnufræðingarnir segja þetta kunna að marka endalok þess ferlis, þegar stjarnan, HH 46/47, dregur til sín ryk og gas úr umhverfinu – efni sem síðan nýtist til að skapa reikistjörnur.
Skýin tvö sem á myndinni sjást sem blágrænar blöðrur, bárust frá stjörnunni á 200 – 300 km hraða á sekúndu og áreksturinn við ryk og gas í umhverfinu olli öflugri innrauðri geislun.
Spitzer-sjónaukinn er einmitt byggður til að skynja slíka geislun og því afar heppilegur til að fylgjast með nýmynduðum stjörnum.