„Þegar ég var í þann veginn að yfirgefa Luxor, sendi Mohammed gamli Mohasseb mér boð um að hann vildi sýna mér eitthvað. Eftir talsvert þras og leynimakk sýndi hann mér á endanum undursamlega litskreytta múmíukistu.“ Þetta skrifaði bandaríski fornleifafræðingurinn James Henry Breasted í bréfi til konu sinnar þann 25. janúar 1920.
Honum tókst að prútta verðið niður í 320 pund og tók kistuna með sér heim til Austurlandastofnunarinnar við Chicago-háskóla.
Múmían í kistunni var lík konu sem hét Meresamun og hafði verið musterissöngkona í musteri Amons. Þetta má lesa á borða sem liggur eftir endilangri framhliðinni.
Nafnið Meresamun merkir „Sú sem Amon elskar“. Skreytingastíllinn bendir til að hún hafi verið uppi á 3. tímabili 22. konungsættar, eða um 800 f.Kr. Enginn forvörður hefur treyst sér til að skadda hinar vönduðu skreytingar með því að opna kistuna, en árið 1991 var hún skönnuð með CT-skanna, sem tæpum 20 árum seinna telst afar hægvirkur, enda skilaði hann aðeins einni mynd á sekúndu.
Skönnunin skilaði nokkuð óskýrum myndum sem þó sýndu að Meresamun hafði kjálkabrotnað og sömuleiðis brotið fingur. Í hálsinum sást þykkildi sem talið var geta verið bólginn skjaldkirtill. Á augun reyndust hafa verið settir tveir verndargripir, en það telst lítið miðað við stöðu hennar í samfélaginu.
En skannatæknin hefur tekið mikið stökk frá 1991 og í júlí 2008 var Meresamun aftur flutt á sjúkrahúsið – nú vegna fyrirhugaðrar stórsýningar á Austurlandastofnuninni. M.a. höfðu menn nú áhuga á því hvort hún hefði eignast börn.
Hugmyndir um hjúskaparstöðu musterissöngkvenna eru nefnilega mismunandi. Sumir fræðimenn telja að þær hafi þurft að lifa einlífi, en aðrir álíta að það hafi ekki verið nein skylda og þeim hafi jafnvel leyfst að vera giftar og lifa hefðbundnu fjölskyldulífi með manni og börnum, samhliða því að sinna skyldum sínum í musterinu.
Skanninn – 64 sneiða Philips Brilliance-skanni – tók nú 64 myndir á sekúndu. En skömmu síðar fékk Læknadeild Chicago-háskóla alveg nýjan ofurskanna til reynslu; 256 sneiða Philips Brilliance iCT-skanna. (i stendur fyrir „intelligent“ eða gervigreind).
Enn einu sinni þurfti múmían á sjúkrahúsið. Meresamun varð fyrsti „sjúklingur“ sögunnar sem fór í þennan nýja skanna. Um 40 manns hópuðust að og fylgdust spennt með. Og reyndar birtust þarna tugir þúsunda nýrra mynda sem afhjúpuðu innihald kistunnar í minnstu smáatriðum.
Skannamyndir af ysta laginu sýna að það er unnið svipað og pappírsmassi, en er hins vegar samsett úr hörvefnaði, trjákvoðu og gifsi.
Um miðbikið er kistan bundin saman með sinum. Innan í kistunni taka við mörg lög af hörvefnaði sem vafið var um líkið. Þetta hörléreft hefur verið vel vætt í trjákvoðu sem ætlað hefur verið að halda rakanum frá.
Múmían liggur ekki alls kostar rétt í kistunni, en stellingarnar hafa trúlega breyst við flutninginn. Skraufþurrkuð múmíuhúðin hefur sums staðar sprungið og á öðrum stöðum er hún alveg horfin. Engin ummerki sjást eftir brjóstin sem hljóta að hafa þornað alveg upp, rétt eins og hárið sem kynni að hafa verið á höfðinu. Eyrnasneplarnir eru hins vegar heilir og sama gildir um reglubundna andlitsdrættina.
Beinagrindin sýnir unga og fullhrausta konu um þrítugt. Hún virðist ekki hafa fætt nein börn.
Brot má greina á ýmsum stöðum, en þau eru tilkomin eftir dauðann og trúlega flutningsáverkar. Sá kökkur sem sást í hálsinum 1991, reyndist nú vera fyllingarefni – leir, mold og trjákvoða, sem ásamt hörlérefti hefur verið troðið í líkið sem einhvers konar uppstoppunarefni eftir að innyflin voru fjarlægð.
Tennurnar voru heilar og tannholdið líka óskemmt. Yfirborð jaxlanna reyndist samt nokkuð slitið, vafalítið eftir trefjaríka fæðu og sand úr kornkvörninni. Efri gómurinn hefur verið örlítið framstæður en Meresamun hafði allar tennur heilar þegar hún dó, m.a.s. endajaxlana.
Myndirnar eru varðveittar á stafrænu formi þannig að unnt er að draga þær fram og skoða aftur og aftur, meta þær og greina og meðhöndla með hvers kyns nýjum myndvinnsluforritum.
Þessi skönnun hefur að flestu leyti afhjúpað líkamlegt ástand konunnar þegar hún dó og nafn hennar er þekkt af áletrun á kistunni.
Tveimur spurningum er þó enn ósvarað: Hvers vegna dó Meresamun svona ung og hvers vegna virðist hún ekki hafa eignast nein börn.